25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

0326Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég sé í rauninni ekkert á móti því, að hv. þdm. fái að kynna sér samninginn; en hér stendur allt öðruvísi á, þegar um bráðabirgðaviðskiptalán er að ræða, heldur en ef það hefði verið fast og samningsbundið lán til lengri tíma. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. (MG) geti fengið að sjá samninginn, því hann er ekkert leyndarmál. Ég veit ekki, hvaða atriði það eru, sem hv. þm. vill helzt fá að vita um. Ef það er um vaxtakjörin, þá má geta þess, að vextirnir eru 1½% hærri en forvextir Englandsbanka á hverjum tíma, en þó ekki nema 1% hærri, ef vextir Englandsbanka fara yfir 6%. Samningurinn gildir til eins árs, og það má fá hann framlengdan til jafnlangs tíma, ef óskað er. Þar sem hér er aðeins um bráðabirgðalánssamning að ræða, kemur hér ekki fleira til greina.