05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (3383)

154. mál, milliþinganefnd

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Á síðasta þingi var borin fram þáltill., sem var lík þessari. Hún varð þá ekki útrædd, einungis skilað nál. Nú hefir fjhn. athugað þessa þáltill. Meiri hl. n. leggur til, að hún verði samþ. með breyt. Þó hefir hv. þm. Dal. skrifað undir með fyrirvara. Hv. 2. þm. G.-K. tók ekki þátt í afgr. málsins og hefir því óbundnar hendur um atkvgr.

Það er óhætt að segja, að tryggingarmálin eru skammt á veg komin hér hjá okkur. Við höfum að vísu ellitryggingu, en hún er þó í svo smáum stíl og ófullkomin að gerð, að hennar gætir varla. T. d. munu koma til úthlutunar hér í Reykjavík 25–30 kr. á gamalmenni. Þetta er vitanlega engin hjálp. Til eru líka lög um sjúkrasamlög, en þau eru óvíða notuð, og sama sem ekkert utan kaupstaðanna. Hér er þó um stórt mál að ræða. En útbreiðsla þess félagsskapar gengur illa. Enda þótt menn hafi verið sendir út um land í útbreiðsluerindum, er enn ekki komið nema eitt sjúkrasamlag til sveita. Slysa- og örorkutryggingar eru nýlega orðnar að lögum. Þótt slíkt sé í smáum stíl, miðað við það, sem gerist erlendis, þá er það betra en ekkert og miðar í áttina. Eru slysatryggingarlögin beztu tryggingarlögin hér á landi að öllum frágangi. Slíkar tryggingar, sem hér er farið fram á að verði athugaðar, eru nú taldar nauðsynlegar meðal allra menningarþjóða. Meiri hl. n. hefir því orðið sammála um að mæla með þáltill. þessari.

Í þáltill. er líka minnzt á atvinnuleysistryggingar. En til samkomulags í n. var lagt til, að það yrði tekið út: Ráðstafanir til varnar atvinnuleysi má líka allt eins vel gera á annan hátt. Í því sambandi vil ég beina athygli að því, að jafnaðarmenn hafa gert sérstaka till. um það á þessu þingi, með því að bera fram frv. um jöfnunarsjóð ríkisins.

Þá er einnig getið um það í till., að sú n., sem skipuð verður samkv. henni, skuli athuga það, hvort ekki sé rétt að láta stofnun sem alþýðutryggingu hafa einkarétt á líftryggingum hér á landi. Þær tryggingar eru mjög einfaldar í starfrækslu og útreikningi, og það væri eðlilegt, að slík deild væri sett í samband við alþýðutryggingarnar. Það mundi koma í veg fyrir það, að líftryggingagjöldin færu út úr landinu, eins og nú er. — Með líftryggingum er hér ekki átt við skyldutryggingar.

Ég þarf svo varla við þetta að bæta. Það er öllum ljóst, að það eru sterkar óskir frá þjóðinni um það, að þessi mál verði athuguð. Vona ég líka, að allir flokkar þingsins geti orðið sammála um, að það sé gert, og árangur þeirra rannsókna geti sem fyrst legið fyrir þingi og þjóð.