13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég tók fram í fyrir hv. 1. þm. Skagf. áðan, þegar hann ætlaði að hreinsa sig undan því, að sig hefði hent það slys og ógæfa að veðsetja tolltekjur landsins 1921. Nú hygg ég komi hér fram, hversu vendilega hv. 1. þm. Skagf. hefir gengið frá þeirri veðsetningu og falið hana síðan. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp íslenzka þýðingu á 7. gr. samningsins um enska lánið:

„Nefnt lán, bæði höfuðstóll þess og vextir, skal hvíla sem bein skuldbinding á konungsríkinu Ísland, og skal það ennfremur tryggt með sérstöku hafti á tolltekjunum, sem ríkisstj. kveður óbundnar við dagsetningu samnings þessa. Ekkert haft má leggja tolltekjurnar, meðan nokkur skuldabréf láns þessa eru óinnleyst, er gangi fyrir eða séu jafnsett þessu hafti“.

Þýðinguna hefir gert löggiltur skjalaþýðari í stjórnarráðinu, Inga Magnúsdóttir. Þessu næst ætla ég að lesa upp úr 14. gr. aðalskuldabréfsins. Það hefir þýtt góður lögfræðingur hér í bænum:

„Lánið er, bæði um höfuðstól og vexti, bein skuldbinding konungsríkisins Íslands, og til frekari tryggingar fyrir greiðslu þess, sem þarf til að standa straum af láninu nákvæmlega á réttum gjalddögum, tiltekur ríkisstj. hér með óafturkallanlega og bindur sérstaklega til hagsmuna fyrir handhafa, alla jafnt, að skuldabréfum láns þessa tolltekjur Íslands, þangað til innleystur hefir verið að fullu höfuðstóll lánsins og greiddir hafa verið allir vextir af láninu; því er hér með lýst yfir, að tolltekjur þessar eru óbundnar nú. Ef tolltekjurnar eitthvert ár fullnægja ekki til að standa straum af láninu, þá mun stjórnin útvega nægilega upphæð af almennum tekjum konungsríkisins og greiða bönkunum hana fyrirfram“.

Öllu rammbyggilegri veðsetningu á tolltekjum Íslands er ekki hægt að gera. Af öllu illu, sem fyrir hv. 1. þm. Skagf. hefir komið, er þetta verst. Það átakanlegasta er, að með þessu var settur á okkur stimpill, sem ekki er settur á þær þjóðir aðrar, sem við viljum helzt líkjast.