17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (3566)

440. mál, styrkur samkvæmt jarðræktarlögunum

Pétur Ottesen:

Mér finnst það ljóst af þessu bréfi, sem hæstv. atvmrh. las upp og ég hefi hér í höndum, að Sigurður búnaðarmálastjóri og Pálmi Einarsson standi aðeins á bak við sumar af þeim breyt., sem gerðar voru á dagsverkinu síðastl. haust. Till. þeirra miðast aðeins við óbylta nýrækt og áburðarhús alsteypt og með járnþaki. Svo koma till. Magnúsar Þorlákssonar á Blikastöðum, sem fara fram á að stækka dagsverk í matjurtagörðum, túnasléttun og ný rækt, og er sú stækkunin langmest og þvert á móti því, sem þeir Sigurður búnaðarmálastjóri og Pálmi Einarsson leggja til, enda taka þeir það beint fram í bréfinu, að þeir hafi ekki séð sér „fært að stækka dagsverk í túnrækt, byltri nýrækt og görðum“.

Það kemur skýrt fram, að þessi stækkun á dagsverkinu samkv. till. Magnúsar Þorlákssonar er miðuð við ræktun þar, sem góð skilyrði eru, eins og er á ábýlisjörð hans; en eins og kunnugt er, eru þar óvenjulega góð skilyrði fyrir hendi. (HK: Er landið grjótlaust?). Já, það eru eingöngu grjótlausar mýrar, sem tiltölulega auðvelt er að ræsa fram, en auk þess er öli ræktun þar unnin með nýtízku tækjum. (BÁ: Það eru notaðir plógar líka). Það getur vel verið, en í smáum stíl mun það vera. Álit Sigurðar búnaðarmálastjóra og Pálma Einarssonar tekur af öll tvímæli í þessu efni. Þeir taka það beinlínis fram, að það sé ekki sanngjarn mælikvarði að leggja til grundvallar fyrir stækkun dagsverksins reynslu Magnúsar á Blikastöðum. Þeir komast svo að orði í bréfinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Þess ber að gæta, að jarðyrkja vor yfirleitt í sveitum landsins er á byrjunar- og tilraunastigi; sem dæmi þess má nefna, að síðastl. ár hafa komið yfir 1000 nýir jarðabótamenn til sögunnar, og aðeins um 30 manns hafa náð hámarki styrks í nýyrkju. Jarðvinnslan verður því aðeins ódýr, að hún sé framkvæmd í töluvert stórum stíl og með gagnkvæmri þekkingu. Þeir, sem vinna minna en svo, að þeir fái hámarksstyrk, geta vart aflað sér þeirra tækja, að þeir fái framkvæmt jarðabæturnar á ódýrasta hátt.

Þær breyt., sem stjórn Búnaðarfélags Íslands gerði til að stækka dagsverk í matjurtagörðum, túnasléttun og byltri nýrækt, eru tilorðnar fyrir ákveðinn atbeina Magnúsar Þorlákssonar ...... er lagði alveg óvanalega áherzlu á, að þessar breyt. yrðu einnig gerðar, og tilfærði eigin reynslu sem mælikvarða, en eins og bent er á hér að framan, eru það tiltölulega fáir af jarðabótamönnum landsins, er geta haft þá afstöðu til framkvæmdanna, að kostnaðarverð þeirra standi í réttu hlutfalli við hinn breytta mælikvarða, sem nú skal lagður á þessar jarðabætur samkv. tillögum M. Þorlákssonar“.

Það kemur því mjög skýrt fram, að þetta, sem stj. Búnaðarfél. Ísl. og hæstv. atvmrh. hefir gengið inn á, er miðað við óvenjulega góð skilyrði, sem ekki eru fyrir hendi hjá öllum þorra bænda annarsstaðar á landinu.

Nú er það aðgætandi, að Magnús Þorláksson, sem í bréfinu er titlaður „fulltrúi sjálfstæðismanna í stjórn Búnaðarfélags Íslands“, er þar í minni hluta, svo að ef bændavinunum, hæstv. atvmrh. og hv. þm. Mýr., hefir þótt hann ganga á rétt bænda, þá var þeim í lófa lagið að fella till. hans og fylgja því, sem Sigurður búnaðarmálastjóri og Pálmi Einarsson lögðu til. En það gerðu þeir ekki, heldur gleyptu þeir við till. Magnúsar Þorlákssonar. (Forsrh.: Þetta er misskilningur. Till. Magnúsar á Blikastöðum gengu miklu lengra en gengið var inn á að lokum). Það kemur hvergi fram í bréfinu, að Magnús Þorláksson hafi borið fram aðrar till. en þær, sem hæstv. atvmrh. og hv. þm. Mýr. hafa, að manni virðist, gengið góðfúslega inn á.

Mér finnst því, eftir að þetta er upplýst, ekki ófyrirsynju, þó að þáltill. þessi hafi komið fram og að málið verði síðan tekið til athugunar á þann hátt, að reynt verði að miða dagsverkið við aðstöðu sem flestra bænda úti um land, en ekki við sérstakar og óvenjulegar ástæður, eins og nú hefir verið gert. Vænti ég því, að till. verði samþ. og að takast megi að finna annan grundvöll réttari, sem dagsverkið verði metið eftir.