22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (3589)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Ég ætla ekki að hafa langan formála fyrir till. á þskj. 145, um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna samkomustaðar Alþingis. Þetta mál var ítarlega rætt á þinginu 1926, og sömuleiðis á síðasta þingi, en dagaði þá uppi vegna annríkis síðustu þingdagana. Það, sem fyrst og fremst er spurt um í sambandi við þessa till., er það, hvort áhugi almennings sé ríkur fyrir þessu máli. Í því efni er eðlilegast að vísa til yfir 30 áskorana, sem bárust Alþingi 1929 um að gerðar yrðu ráðstafanir til þess, að þjóðaratkvæðagreiðsla gæti fram farið um þetta mál. Það er varla gerlegt að heimta órækari vott þess, hversu áhugi manna er almennur í sveitunum fyrir þessu máli. Málið er því í rauninni ofureinfalt. Um það eitt er að ræða, hvort láta skuli það eftir landsmönnum að segja álit sitt um þetta mál, eða hvort þeim skuli bannað það. Ég og hv. samflm. mínir erum þeirrar skoðunar, að sjálfsagt sé og enda óumflýjanlegt að verða við ósk þjóðarinnar um að láta skoðun sína í ljós með atkvgr., og álítum vér alls ekki sæmandi að neita henni um það. Hér liggur ekki fyrir að ræða málið í annari mynd en þeirri, er lýtur að fullnæging þessara óska almennings í landinu. Um hitt er ekki að ræða á þessu stigi málsins, hvernig framkvæmdum skuli hagað, ef flutningur er ákveðinn. Sú hlið málsins hefir verið nokkuð rædd á undanförnum þingum, þó að það heyri í rauninni ekki til, og ég sé enga ástæðu til þess að eyða tíma þingsins til slíkra hluta, meðan málið er ekki komið lengra áleiðis. Og það, sem felst í till. þessari, er einskorðað við það, að leyfa landsmönnum að segja til óska sinna í þessu máli eða banna þeim það. Umr. um till. þessa á síðasta þingi fóru vítt og breitt. Þess vegna er málið þingheimi kunnugt og óþarft að taka hér upp sömu ræður. Eftir var þá aðeins að greiða atkv., til þess að málið fengi fullnaðarafgreiðslu.

Ég mun því ekki orðlengja þetta að svo stöddu, en geymi mér rétt til þess að tala síðar í málinu, ef mótmælum verður hreyft.