22.02.1930
Neðri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (3599)

145. mál, samkomustaður Alþingis

Hákon Kristófersson:

Ég verð að segja það, að ef þetta mál er eins mikils virði sem hv. 1. flm. vill láta sýnast, furðar mig stórlega á því, að hv. flm. getur ekki fallizt á till. hv. 1. þm. Skagf. um að vísa málinu til nefndar og fresta umr. Ég ætla ekki að segja, að þetta sé ómerkilegt mál, en flutningur þess byggist á einkennilegum grundvelli. Það er harla einkennilegt, að hv. aðalflm. þessarar till. vill láta bera þetta undir þjóðina, en í ræðu þeirri, sem hann hélt nýlega, kom hvergi fram hans eiginn skilningur á þessu máli. Allt það, er hann sagði um málið, beindist í þá átt, að leita eftir áliti annara. Að því er mér skildist, vildi hann aðeins leggja það undir álit þjóðarinnar og sætta sig svo við, hver afdrif málið fengi þar. Hinsvegar má færa honum til málsbóta og álykta af ræðum hans hér á þinginu í fyrra, að hann hafi orðið fyrir ágangi eða óheppilegum áhrifum af vissu fólki í Reykjavík. Ég furða mig stórlega á því, að þetta mál skuli enn vera komið hér fram, en vona að fá að sjá og heyra um ennþá meiri nauðsyn þess, að það er fram komið, en hingað til hefir gefizt kostur á, ef dæma þá eftir orðum hv. aðalflm.

Eins og hv. 1. þm. Skagf. benti á, er það óforsvaranlegt að fara með þetta til atkvgr., nema fyrir liggi, um hvað eigi að greiða atkv. Það verða að liggja fyrir einhver rök í málinu og eitthvað, sem gæti gefið þó ekki væri nema smáupplýsingar um kostnaðarhlið og annað málinu viðkomandi.

Það kom fram hjá hv. 2. þm. Árn., hver væri hans hjartans meining með till. um að þingflutningur eigi sér stað. Hann benti réttilega á, að þetta yrði að ræða með rökum, en ekki með keskni. Ég skal ekki segja, hvað mínum góða vini tókst það vel. Hann lagði áherzlu á það, að það þyrfti að flytja þingið úr þessu reykviska lofti, sem það er nú i. Ég þekki þetta loftslag ekki. Hér er þó höfuðstaður þessa lands. Því má ekki gleyma. Og hvað sem um hann má segja að öðru leyti, þá má ekki gleyma því, að það er skylda þingsins að hlúa sem bezt að honum, án þess þó, að úr því verði eitthvert meiningarlaust dekur.

Mér er því spurn: Er það ekki að fara úr öskunni í eldinn? Er nokkur trygging fyrir því, að loftslagið verði heilnæmara fyrir austan fjall? Ekki veit ég til þess, að lífsskilyrðin séu betri þar en hér. (HG: Þar getur verið gjálífi). Já, það er eftir því, hvaða skilningur er lagður í það orð. Ég hefi heyrt það stundum nefnt í sambandi við Skeiðaréttir. Er nokkuð heilnæmara loft í Skeiðaréttum en þar, sem þingið er haldið nú? Það þekkir hv. 2. þm. Árn. bezt. (Einhver: Sækja þm. Skeiðaréttir?). Það sagði ég ekki, en það er viðurkennt, að hv. 2. þm. Árn. er gott yfirvald þar í sýslu, eins og kom fram hjá honum, þegar hann var að bera saman sýslufundina. Eða ætli loftið við Ölfusá sé nokkuð heilnæmara en blessað sjávarloftið niðri á Eyrarbakka? Ekki trúi ég á það. Honum ofbauð ekki kostnaðurinn, þótt hann yrði 2–3 millj. kr. Ég verð að segja það, að það þarf mikinn kjark til að slá þessu fram á þeim tímum, sem nú eru. Fyrir mér blasir ekkert sólskin við um afkomu þessarar þjóðar, hvorki fjárhagslega eða á annan hátt, þar sem nú er aflaleysi til sjávar og ýmsar þrengingar til lands. Ég geri ráð fyrir, að eins mikill maður sem hv. þm. muni eftir öllum þeim erlendu skuldum, sem á þessu ríki hvíla. Þess vegna finnst mér hann ekki hafa talað um málið af eins mikilli alvöru og mér finnst sjálfsagt að gera. Ef þm. eru haldnir illum áhrifum hér í Reykjavík, sem ég slæ föstu að ekki er annað en hugarburður nokkurra manna, er ég viss um, að þau eltu þá austur yfir fjall. Já, meira að segja þó það væri flutt alla leið austur í Þrastaskóg. Og þótt hv. flm. vilji nú flytja þingið af þessum stað, mun tíminn leiða það í ljós, að ekki gengur betur þegar austur kemur. Áreitni sú, er hv. 1. þm. S.-M. og hv. 2. þm. Árn. þykjast verða svo mikið fyrir hér í höfuðstaðnum, mun ekki verða minni þó þeir flytji sig austur yfir fjallið. Þeir verða sömu kvennagullin hvar sem þeir eru. Það liggur ennfremur í augum uppi, að verði þingið flutt austur, verður það að vera sumarþing. Þetta hafa hv. flm. þessarar till. ekki drepið á, og vil ég þó engan veginn bera þeim neina óeinlægni á brýn í þessu máli.

Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. V.-Sk., að ég tel það alveg ótækt að hafa þing á sumrum, nema tilgangurinn væri sá, að meiningin væri að bola bændum frá þingsetu. Og ég vil skjóta því til hv. þdm., hvort ekki muni vera hægt að beina þessum óheillastraumum, sem hv. 2. þm. Árn. var að tala um, austur yfir fjall, þótt svo færi, að þingið yrði flutt héðan úr höfuðstaðnum. Ég er ekki Reykvíkingur að uppruna, en ég kann því illa að fara óvirðulegum orðum um höfuðstaðinn okkar. Og því leggja þessir heiðursmenn ekki heldur höfuð sín í bleyti til að bæta úr göllunum á þessu bæjarfélagi, sem eru svo margir í þeirra augum?

Ég vil svo lýsa því yfir að lokum, að ég vil gera það að till. minni, af sérstöku tilliti til hv. flm. þessa máls, að málinu sé vísað til nefndar.

Eins og hv. 2. þm. Reykv. hefir bent á, þarf stjskr.breytingu til þess að koma því fram, sem hér er farið fram á. Og þó að borizt hafi áskoranir frá ýmsum ungmennafélögum um flutning Alþingis, verður það ekki skoðað sem vilji þjóðarinnar í þessu efni. Það voru þessir ungmennafélagar, sem hv. 2. þm. Reykv. kallaði vindbelgi. Mér finnst þetta óviðeigandi orðalag. Ekki vil ég fara svo meiðandi orðum um Reykvíkinga, þótt þeir séu kjósendur hv. 2. þm. Reykv. Og varla væru þeir kallaðir vindbelgir, ef þeir ættu að ganga að kjörborðinu til að kjósa hv. þm.

Það er svo með þetta mál, að það er hægt að túlka það svo fyrir mönnum, sem ekki hafa tíma til að setja sig inn í það, að mikið sé fengið, ef þessi færsla þingsins eigi sér stað. Jafnvel okkar beztu menn geta glæpzt á þessu.

Nú vill svo vel til, eins og hv. þm. V.-Sk. benti réttilega á, að einn af okkar beztu mönnum, Jón Sigurðsson, myndi, eftir því sem álit hans var á máli þessu á sínum tíma, hafa lagt til nú, að þessi flutningur ætti sér ekki stað. En það er vel valið hjá hv. 1. flm. að velja þetta ár til atkvgr.!! Ekki þar með sagt, að ég sé að beina að honum neinum óheilindum í hugsun. Nei, síður en svo. En það er eitt einkenni mikilla manna að velja þær aðferðir, sem bezt hentar til að koma fram áhugamálum sínum. Og það er ekki vafi, að hv. flm. þessa máls gera þetta af engu öðru en þjóðrækni. Þó má geta þess, að ýms stórmál hafa komið hér fram án þess hv. flm. hafi fundizt nokkur nauðsyn krefja að skjóta því undir dóm þjóðarinnar.

Ég vona svo að lokum, að hv. l. flm. sætti sig við að vísa málinu til nefndar. Þetta væri aðeins gert vegna þeirra heiðursmanna, sem flytja málið. Ég vona einnig, að nefndin beiti það viðeigandi meðferð, svo að það komi þaðan ekki aftur. Það væri það langhyggilegasta um slíkt mál sem þetta.