13.02.1930
Neðri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Magnús Jónsson:

Ég er sammála hv. þm. Mýr. um það, að það var töluverður bjarnargreiði að veita Íslandsbanka lánið 1921, að því leyti sem heimildin til að kaupa hluti í bankanum fyrir lánsupphæðina var ekki notuð.

Um það, hvað hinir raunverulegu vextir af enska láninu muni nema, skal ég ekkert segja. Nú eru þeir taldir af sumum að nema 10%. Hér um árið var talað um 8½%, ef ég man rétt. Hitt þori ég að fullyrða, að bak við þetta lán stóð þingvilji. Og það var allra manna mál, að ekki mætti draga að taka þetta lán, vegna þess að peningamarkaðurinn fór versnandi og hætt var við, að við mundum sæta verri kjörum, ef lántakan væri dregin.

Hæstv. forsrh. er að hamra á því, að tolltekjurnar hafi verið veðsettar fyrir láninu. Það er eins og hæstv. ráðh. sé búinn að gleyma því, að um þetta atriði, hvort tolltekjurnar hafi verið veðsettar eða ekki, hefir verið rifizt meira en nokkurt mál annað hér í þinginu. Skjölin, sem hæstv. ráðh. las upp, breyta í engu skoðun manna í því efni. Annars stendur nú ekkert annað í þeim en að ekki megi veðsetja tolltekjurnar öðrum, og það eru engir nema gatistar, sem halda því fram, að það sé sama sem veðsetning.

Sú ógæfa hefur hent einstakar þjóðir að þurfa að veðsetja tolltekjur sínar, en þar með var þeim líka settur stóllinn fyrir dyrnar með að breyta tollalöggjöf sinni án samþykkis lánveitandans. Ekkert slíkt hefir átt sér stað hér hjá okkur. Við höfum hringlað með tollalöggjöfina fram og aftur, eins og okkur hefir sýnzt í það og það skiptið, án þess að spyrja nokkurn um leyfi. Sýnir það kannske bezt, hversu feikileg fjarstæða það er, að tolltekjurnar séu veðsettar fyrir enska láninu. Hitt er annað mál, eins og ég áðan tók fram, að við höfum skuldbundið okkur til að veðsetja þær ekki neinum öðrum, og að því leyti má segja, að haft sé á þeim.

Hæstv. fjmrh. var að vitna til ummæla erlendra fjármálamanna. Það er ekkert undarlegt, þó að þeir segi eitt og annað um okkur Íslendinga, þegar sjálf landsstj. er að reyna að hamra þá skoðun inn í menn, að tolltekjur landsins séu veðsettar. Það er svo mikið glapræði, að stj. ætti þegar af þeirri ástæðu einni að fara frá völdum. Að sjálfir ráðh. þjóðarinnar skuli gerast „prokuratorar“ erlendra lánardrottna, í stað þess að halda á hinum íslenzka málstað — það er svo mikil skömm, að það ætti ekki að líðast.

Hæstv. fjmrh. hélt, að Íslandsbankamálið mundi ekki hafa nein áhrif á þessa væntanlegu lántöku. Vesalings ráðh.! Hann fór að reyna að vera fyndinn og sagði, að mín ræða mundi ekki hljóma víða. Mér dettur í hug það, sem fyndinn maður sagði við mig, þegar hæstv. ráðh: var að halda þessa ræðu sína: „Nú hlustar heimurinn“. Það er vitanlegt, að enginn hlustar á það, sem þessi hæstv. ráðh. segir, nema til þess að vita hvaða skoðanir aðrir menn hafa. Og úr því að hæstv. ráðh. var að lýsa eftir þessu með svigurmælum, er bezt að hann fái að heyra það.

En gallinn er nú sá, að heimurinn hlustar, þegar hæstv. fjmrh. er að reyna að berja þeirri skoðun inn í menn, að tolltekjur landsins séu veðsettar og að lánstraust þjóðarinnar muni aukast við bankahrun.

Hæstv. ráðh. sagði, að það hlakkaði í mér, ef lánstraust okkar Íslendinga spilltist. Það er undarlegt, hvað hæstv. ráðh. virðist vera gefinn fyrir að spilla orðum annara og leggja allt aðra merkingu í þau en tilefni er til. En ég óska hæstv. fjmrh. til lukku, þegar hann á að fara að framkvæma þessi lánsheimildarlög, eftir þá viðburði, sem hér hafa skeð. Ég er hræddur um, að það verði tveir viðburðir að ske, áður en svo tekst: að það verði að skipta um stj. og endurreisa Íslandsbanka.