12.04.1930
Sameinað þing: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (3652)

468. mál, kjördæmaskipun

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Það fær mér engrar sérstakrar undrunar, hvernig hv. 3. landsk. tekur í þetta mál, þó að við betra hefði mátt búast frá honum, þar sem hann á kjósendur um allt land og hefir því í raun og veru jafna ástæðu til að gæta hagsmuna þeirra allra. Hv. þm. talaði um, að úr misréttinu við bæina mætti eins bæta með því að bæta við nýjum þingmönnum, og að sú leið hefði verið farin til þessa. En það er nú orðið langt síðan þetta hefir verið gert. Einnig verður sá bær að vera orðinn töluvert stór, sem hugsanlegt er, að geti fengið nýjan þm. Þá hefir og getað fjölgað mikið fólki í einhverju kjördæmi, þótt á engum einum stað söfnuðust svo margir saman, að ástæða gæti talizt til að gera þar kaupstað og sérstakt kjördæmi.

Nú sagði hv. þm., að sú leið væri farin, að taka þingmenn af sveitakjördæmum og fá þau bæjunum. Studdi hann þetta með því, hvernig að var farið, þegar Hafnarfjörður var gerður að sérstöku kjördæmi. Ég vil þá minna menn á, að fyrir skiptinguna varð Gullbringu- og Kjósarsýsla skilyrðislaust að teljast sjávarútvegskjördæmi, og að ekki vantaði mikið á, að helmingur kjósendanna væri í Hafnarfirði. Þessi skipting var því þess eðlis, að einmitt mátti búast við, að hv. 3. landsk. væri með henni. En hann var það ekki, og það stafar af því, að það er ekki meiningin hjá honum að ná réttlæti handa hvaða flokki sem er. Hv. þm. og flokksbræður hans hörðust á móti sérstökum þm. fyrir Hafnarfjörð vegna þess, að þeir vissu, að þeir mundu tapa einu þingsæti við breytinguna.

Hv. 3. landsk. talaði um, að hann og hans flokkur vildi halda áfram að taka skynsamlegt tillit til fjölgunarinnar við sjóinn. Ég veit ekki til, að hann hafi nokkurntíma tekið þetta tillit, — að hann hafi komið með frv. til leiðréttingar nokkru misrétti eða yfirleitt gert nokkurn skapaðan hlut í þessu máli. Væri fróðlegt að fá að vita, hvað hann telur sér til ágætis í þessu efni.

Hv. þm. talaði um, að taka þyrfti tillit til fleira en jafns kosningarréttar. Það er rétt, að kosningarrétturinn á að hafa tvö einkenni: að vera jafn og almennur. Fleiri einkenna er ekki hægt að krefjast í landi, þar sem þjóðin á að ráða málum sínum. Hitt er auðvitað allt annað mál, hvernig á að koma kosningarréttinum fyrir, til þess að hann uppfylli þessi einkenni.

Það er rétt hjá hv. þm., að það er nauðsynlegt fyrir afskekktar sveitir, að þeirra hlutur sé ekki fyrir borð borinn. En það er engin vissa fyrir því, að svo færi, þótt komið yrði á hlutfallskosningum um land allt. Þá getur oft munað fáum atkvæðum, hver ofan á verður, og geta þá fámennu sveitirnar haft sín áhrif. Eins er það, ef höfð verða einmenningskjördæmi með aukasætum, þótt ég telji það ekki eins öruggt ráð, að einstök héruð fá þá allmikil áhrif. En er það skoðun hv. þm., að betra sé að hlutur fjölmennu héraðanna sé fyrir borð borinn?

Þá sagði hv. þm., að tölurnar mundu sýna, að það væri aðeins í Reykjavík, sem fjölga þyrfti þm. til að ná nokkurnveginn góðum jöfnuði. Þetta er ekki rétt. Það munu vera 16 kjördæmi, sem hafa fleiri kjósendur á hvern þm. en vera ætti að meðaltali, og sumstaðar munar þetta miklu. Ef einstök kjördæmi eru borin saman, þá kemur það og í ljós, að í Suður-Þingeyjarsýslu eru 2½ sinnum fleiri kjósendur en í Norður-Þingeyjarsýslu, í Austur-Húnavatnssýslu eru 2 sinnum fleiri en í Vestur-Húnavatnssýslu o. s. frv. Ég skil ekki, hvaða ástæður það eru, sem segja hv. þm., að alltaf þurfi að hafa sömu landamæri milli kjördæma, sem einu sinni voru sett. Ég hafði haldið, að þm. væru fulltrúar fólksins, en ekki jarðvegarins.

Hv. 3. landsk. sagðist ekki vera sannfærður um, að gera þyrfti gagngerðar breyt. á kjördæmaskipuninni til að koma henni í viðunandi horf. En mönnum er miður ljóst, hvað lá til grundvallar þessari skoðun hv. þm., því að gagngerðar breyt. verður að gera, ef tillit á að taka til fólksfjöldans. Mér fannst hv. þm. helzt hallast að því að fjölga þm. En frv. þau, sem fram hafa verið borin um það á síðari árum, hafa öll verið felld eða komið fyrir á annan hátt, og hygg ég, að hv. 3. landsk. hafi tekið þátt í því. Enda eru 42 þm. í sjálfu sér meira en nægur fjöldi. Og hvaða ástæða er þá til að vera að fjölga þeim?

Mér finnst eðlilegast að fela ríkisstj. mál eins og þetta til undirbúnings. Í því felst ekkert traust til hennar. En það liggur í augum uppi, að hún hefir bezt tækifæri til allrar undirbúningsstarfsemi málsins, m. a. að koma tillögunum á framfæri við flokkana. Annars hefir hæstv. stj. enn ekki svarað því, hvernig hún muni taka í breyt. á kjördæmaskipuninni. (JAJ: Hæstv. forsrh. svaraði því undir eldhúsdagsumr.). Ég veit ekki, hvar hæstv. stj. á frekar að láta í ljós skoðun sína á þessu heldur en í sameinuðu Alþingi, þegar málið er þar til umr.