17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég sé ekki ástæðu til að svara þessu miklu. Hv. 3. landsk. getur náttúrlega haft sínar skoðanir um, að það hafi komið fram tortryggni gagnvart ríkinu, og hann getur náttúrlega auglýst það eftir því, sem honum sýnist við eiga. En ég get alls ekki séð það, að hér sé um neina tortryggni að ræða, eða að þetta beri vott um, að Ísland hafi ekki lánstraust ytra. Hér er aðeins um form að ræða, annað ekki, og það er vitanlegt, að allar þær skuldir, sem ríkissjóður skuldar í útlöndum, þær eru greiddar í mynt þess lands, sem skuldin er í, og þetta gerir í sjálfu sér engan mun.

Viðvíkjandi því, að það kunni að vera fordæmi fyrir því, að það sé talið upp í lögunum sjálfum, til hvers eigi að nota peningana, sem heimildin er um, má náttúrlega vel vera, en ég veit ekki til, að það beri vott um neina tortryggni hjá lánveitendum, þótt þeir telji óþarfa að hafa slíka upptalningu. Ég get sagt það, að á þinginu í fyrra, þar sem þetta var samþ., hafði ég ekki hugsað mér þessa upptalningu, sem síðar varð í frv., en það var fyrir áeggjan hv. 3. landsk., að hún var sett. inn. Og mér fannst það að nokkru leyti eðlilegt, að Alþingi vildi ekki fá stj. þessa heimild í hendur án þess að hafa sett ákvæði um það, til hvers ætti að nota féð, og þess vegna var það kannske ekki óeðlilegt, að þingið sýndi einhverja tortryggni í þessu efni, en engin ástæða til að telja það tortryggni í útlöndum.

Ég hafði hugsað mér, að í rauninni væri það nóg að geta þess í grg., til hvers ætti að nota féð, en það var hv. 3. landsk., sem vildi hafa það svo, og þá er ekki nema eðlilegt, að honum þyki miður, að þetta sé fellt niður. En það, sem hér er farið fram á, er aðeins smávægileg formsbreyting á því, sem nú gildir, og ég held, að hv. 3. landsk. hafi í rauninni ekkert leyfi til þess að slá því föstu, að þetta beri vott um það, að á þeim tíma, sem lánið var tekið, hafi komið fram tortryggni um það, að Íslendingar stæðu í skilum með sín lán.