13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi hér eina brtt. á þskj. 269, IV., um heimild fyrir stj. að ábyrgjast fyrir Súðavíkurhrepp lán til byggingar rafmagnsstöðvar, að upphæð allt að 60 þús. kr. Ég hefi enn ekki fengið öll þau skjöl, sem þessu máli tilheyra, frá rafmagnsstjóra Reykjavíkur, sem hefir haft þetta mál til athugunar. Og þar sem fjvn. hefir ekki haft þessi skjöl til athugunar, tek ég þessa till. aftur til 3. umr., svo að hv. n. geti athugað skjöl málsins milli umræðna.

Þá er hér ein brtt., sem ég flyt ásamt hv. þm. Ísaf. Er það brtt. XX. á þskj. 260. Hún er um styrk til Sigrúnar Magnúsdóttur frá Ísafirði til leiklistarnáms við leikskóla konunglega leikhússins í Khöfn.

Ég veit, að hv. aðalflm. hefir mælt með þessari till: Ég vil undirstrika það, að þessi stúlka er alveg sérstaklega vel fallin til þessa náms og hefir óvenju fjölbreytta leiklistarhæfileika. Þar sem svo stendur á, vildi ég mjög óska þess, að hv. þdm. gætu veitt henni hinn umbeðna styrk. Faðir hennar hefir stóran barnahóp. Hann er fátækur maður og hefir hleypt sér í skuldir til að standa straum af námi hennar. Það er ekki vafi, að hún margborgar þetta þegar hún kemur heim að afloknu námi, því hún er sérstaklega efnileg og áhugasöm. Ég er þess fullviss, að hún verður ein af okkar beztu leikkonum, ef hún getur lokið námi sínu.

Þótt ég hafi ekki þótt þægur til fjárveitingar þjóðleikhússins, vil ég þó sjá um, að þar verði sæmilegir starfskraftar fyrir hendi, fyrst það einu sinni hefir verið ákveðið að koma upp þjóðleikhúsi. Því aðeins, að séð sé fyrir góðum starfskröftum, getum við haft gagn og menntun af starfsemi leikhússins.