04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (459)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Hákon Kristófersson:

Ég ætla ekki að vera að ergja sjálfan mig á því að halda langa ræðu um þetta mál, enda hafði ég líka gleymt því, að málið var á dagskrá að þessu sinni, og því ekki skrifað neitt hjá mér um helztu atriði þess, enda var þess ekki þörf, því að ég skrifaði allítarlegt nál. um málið í fyrra, og það hefir sem sé ekkert gerzt í því síðan, sem geti breytt aðstöðu hv. þm. til þess.

Ég sagði, að það hefði ekkert gerzt í málinu. Ég skal þó viðurkenna, að það er kannske ekki alveg rétt, vegna þess að orðalagi frv., sem hv. 1. þm. S.-M. er flm. að, hefir verið breytt, svo að það er dálítið öðruvísi en í fyrra. Með frv. því, sem hv. þm. bar fram fyrir hönd Eskfirðinga í fyrra, fór hann ekki lengra en heim að túngarðinum á þessu fornfræga höfuðbóli, Hólmum; þar lét hv. þm. og þeir, sem hann var forsvarsmaður fyrir, þá staðar numið. En nú hafa þeir horfið að því ráði að fara yfir alla jörðina, en til þess að láta líta svo út, að þeir ætli ekki að hafa neina ágirnd í frammi, vilja þeir undanskilja varphólma staðarins og nokkurt óræktarland, sem mætti að þeirra dómi nota fyrir prestssetur, sem þeir þó gera ráð fyrir, að aldrei verði á Hólmum.

Ég ætla að bera það undir hv. d., hvort hún mundi ekki telja nær sanni, að í framtíðinni yrði eitthvað svipað um viðskipti Eskfirðinga og landsstj. og var um viðskipti Barkar digra og Snorra, þegar salan eða arfaskiptin á Helgafelli fór fram þeirra á milli. Mér er dálítið sárt um þess jörð, því að henni fylgir hið mesta varpland, sem fylgt hefir nokkurri jörð á landi hér, og verið hefir í eigu hins opinbera, þó að svo sé frá skýrt, að það sé nú horfið að mestu. En hverjir hafa þá unnið að þessari afturför? Vitanlega Eskfirðingar. Og ég hefi heldur aldrei vitað þann undirlægjuhátt, að ræningjar væru sæmdir einhverjum heiðurslaunum að ráninu loknu. (GunnS: Kannske það eigi að leggja Eskifjörð niður?) Ekki ætlast ég nú til þess, en á hinn bóginn má ekki játa ræningjana vaða inn í mitt land beztu jarða og taka það af landinu, sem þeim sýnist og launa með því ágirnd og yfirgang, ef til vill. Ég vil a. m. k. ekki láta það verða fast með mínu jákvæði, að kauptúnin geti spennt sínar ágirndar- og ránshendur yfir sveitirnar, til þess að gera þær minni máttar en þær eru.

Því er haldið fram, að nú liggi það fyrir, sem ekki lá fyrir í fyrra, en það er jákvæði viðkomandi prests fyrir sölunni; en það lá líka fyrir í fyrra, í upphafi málsins. Það lá fyrir á meðan hann vonaði, að Eskifjörður myndi kaupa húseignir hans, en þegar Eskfirðingar sáu sér engan hagnað í því, þá snérist hann á móti málinu, og í seinna bréfi sínu til biskups gerir hann ráð fyrir því, að það komi ekki til á næstunni, að hann hætti að búa. En nú hefir hann ekki aðeins hætt að búa, heldur hefir hann byggt kauptúninu jörðina í algerðu heimildarleysi. Veit ég, að mér sem bónda hefði ekki verið talið sæma, ef mér hefði verið trúað fyrir góðri jörð, að ég hefði leyft mér að fleygja henni í hendurnar á hverjum leigjanda, sem hafa vildi, og hlaupa sjálfur burt frá henni.

Einn virðulegur heiðursmaður hefir sagt mér, að í ráði væri að flytja nær alla töðu burt frá Hólmum og til Eskifjarðar á komandi sumri; ennfremur sagði mér sami maður, að svo, yrði um búið, að jörðin missti einskis í við þessa skipan. Já, trúi því hver sem vill, að á meðan þetta höfuðból er í þessari óvissu ábúð, að hver ábúandi muni gera sitt ítrasta til þess að hlynna að því!

Ég minntist á það áður viðvíkjandi varphólmunum, að það vekur undrun mína að sjá það og heyra, að gert er ráð fyrir því, að varpið eigi að vera það, sem prestssetrið skuli eiga eftir af jörðinni. Og hverjir skyldu svo eiga að gæta þess? Náttúrlega þeir, sem næstir eru af íbúum Eskifjarðar. Það er heldur ekki á kot vísað, það eru líklega sömu mennirnir, sem hafa með sínum ágætu tækjum komið því til vegar, að varpið hefir rýrnað stórmikið á síðustu árum. Vitanlega verður sú rýrnun ekki minni, þegar Eskfirðingar verða ábúendur á Hólmum og þeir hafa ef til vill daglega umferð að vorinu í námunda við varplandið.

Ég hefi aldrei reynt að hrekja það, sem sjálfsagt eru fyllstu sannindi, að Eskifjarðarkauptún vanti eitthvert land til ræktunar, en hinu hefi ég leyft mér að halda fram, að ekki sé byrjað á réttum stað til að ráða bót á því, með að taka þetta fræga og merkilega höfuðból.

Það er sagt í grg. þessa frv., að það megi finna fyllstu rök, sem heimili söluna, á tilsvarandi þskj. frá í fyrra. En það vill nú svo vel til, að öll þau rök, sem talin voru þá, voru hrakin í fyrra, en það sýnir, að ég fer hér með rétt mál, eins og ég geri ætíð, er ég mótmæli því, að nokkuð það hafi komið fram í málinu frá í fyrra, er réttlætt geti framgang þessa frv. Vona ég þess vegna, að hv. deild hverfi að því ráði að fella þetta frv., þótt sami hv. meiri hl. allshn. og í fyrra hafi lagt til, að frv. verði samþ. Ég verð að segja það, að það þarf allmikinn kjark til að bera þegar fram frv. á næsta þingi, sem fellt hefir verið árinu áður, þegar sömu mennirnir eiga um það að fjalla; en það er ekki svo ótítt, að menn séu svo þráir að gera það, en hinsvegar vonast ég líka til, að sá hringlandaháttur eigi sér ekki stað innan d., að þeir menn, sem ekki sáu sér fært að samþykkja þetta í fyrra, hafi nú snúizt, enda hafa engin rök komið fram fyrir sölunni önnur en þau, sem fyrir hendi voru í fyrra, sem vitanlega voru engin.

Hv. meiri hl. segir í nál. sínu viðvíkjandi undanfellingu varphólmans og þeirrar spildu, sem á að draga undan, að það sé gert til þess að prestar gætu átt kost á að stunda búskap á Hólmum, ef þeir æsktu þess. Já, að hugsa sér, að jafnágætir menn og þeir, sem skrifað hafa undir þetta nál., skuli sjá sér fært að komast þannig að orði, því að það er fyrirfram vitað, að þetta er algerlega gagnslaust, og því skyldi þá vera horfið að því ráði að selja hið ræktaða land hins fornfræga höfuðbóls, ef búizt er við, að presturinn muni á næstunni eða kannske síðar vilja nota jörðina, og eiga þá aðeins eftir þessa óræktuðu landsspildu? Þó segir sami hv. meiri hl. í nál. sínu, að litlar líkur séu til þess, að prestar muni framvegis óska að búa á Hólmum. En þótt litlar líkur séu, þá leggur hv. meiri hl. n. samt til, að þessi hluti jarðarinnar sé undanskilinn sölunni, náttúrlega þangað til þessi fáu pund af dún, sem enn má fá í Hólmalandi, eru úr sögunni; þá má kannske bæði selja varphólmann og spilduna. En ég ímynda mér, að Eskfirðingar vilji þá með hvorugt hafa, því að þeir hugsi með sjálfum sér, að hægur sé heimafenginn baggi, og fari þá ekki að kaupa landið, því það yrði ekki á burtu flutt, en enginn mundi vilja kaupa það neinu verði að Eskfirðingum frágengnum. — En þó að langt væri gengið í fyrra, verð ég þó að segja það, að nú er svo langt farið, að ég hélt, satt að segja, að jafnvelviljaður maður og hv. 1. þm. S.-M. segist vera sveitunum, myndi ekki hafa áræði til að taka allt þetta fornfræga höfuðból og leggja það undir eitt kauptúnið. Já, en það getur verið nokkuð dýrkeypt hjálp. En hinsvegar má náttúrlega ganga inn á, að þetta sé alveg rétt hjá þeim, er vilja selja þetta fornfræga höfuðból. En þá eru menn jafnframt búnir að viðurkenna, að þeir hugsi sér að gera allt landið að einu fiskiveri á fáum árum. Og fyrir þá, er þannig hugsa, er vitanlega bezt að taka stærstu jarðirnar og helztu höfuðbólin fyrst af öllu.

Ég vænti, að hv. þdm. séu mér sammála um það, að meðmæli viðkomandi prests með sölunni sé einskis virði. Meðan salan rakst á eigin hagsmuni hans, var hann eindregið á móti henni. En nú, þegar þeir eru ekki lengur til fyrirstöðu, étur hann allt ofan í sig. (JAJ: Þetta er ljóta lýsingin!). Það er hinn heiðvirði prestur, sem hefir lýst sér svona sjálfur með verkum sínum. Ég hefi aldrei heyrt hann né séð og þekki ekkert til hans, nema hringlandann í þessu máli.

Annars hafa Eskfirðingar ekki verið á einu máli um þessi kaup, að því er ég bezt veit. En þeir, sem vilja kaupin, eiga ágætan foringja, þar sem er oddviti hreppsins. Það er skynugur maður, sem hefir í þessu máli farið allar götur, sem hann hefir talið sér færar sem heiðursmanni, til að koma fram sínum málstað. Hann hefir nú lyft því Grettistaki að ná viðkomandi presti á sitt band: Hefi ég það fyrir satt, að hann hafi skotið skjólshúsi yfir prestinn inni á Eskifirði. Dettur mér nú ekki í hug að drótta neinu óheiðarlegu athæfi að þessum mönnum, en þó er sú gáta mín, að þarna hafi hagsmunir þessara tveggja manna getað runnið saman á þann hátt, að báðir hafi hagsmuna að gæta.

Það er till. mín til hv. deildar, að frv. verði fellt og vil ég biðja hæstv. forseta að láta fara fram nafnakall um það. Vil ég, að eftirkomendur vorir þurfi ekki að vera í vafa um það, hvað þeir hétu þingmennirnir á þjóðhátíðarþinginu, sem hurfu að því ráði að hrifsa stórbýli landsins og fornfræg höfuðból undir kauptún og sjávarþorp.