04.03.1930
Neðri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (465)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Hákon Kristófersson:

Hv. frsm., sem er hjartnanna og nýrnanna rannsóknarmaður, að eigin dómi, gaf það í skyn, að ég hefði orðið að gjalti. En mér finnst vel við eiga að segja við þennan hv. þm.: „Enginn bað þig orð til hneigja“. (GunnS: Meira!). Hv. þm. sagði, að presturinn hefði búið á Eskifirði, en það er alveg ósatt. Ég hefi einmitt nú sannfært mig um það, að hann fer þar með ósatt mál. (GunnS: Hann býr þar þó nú!). Það er nokkuð annað. Þetta er að villa mönnum sýn og treysta á ókunnugleik þeirra.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði, að mér væri ekki sjálfrátt. Af því hér eru margir ókunnugir viðstaddir, þá skora ég á hv. þm. að útskýra nánar, við hvað hann á með þessu. (SvÓ: Orðin eru skýr!). Ég veit ekki. Meining hv. þm. er stundum í þeim umbúðum, að ekki er gott að sjá í gegnum þær. Ef hann álítur, að eitthvað sé að heilsu minni, annaðhvort um stundarsakir eða til langframa, þá ætti hann að láta fara fram rannsókn á henni og sjá um, að ég væri ekki lengur innanveggja hér, ef veikur reyndist. Það er víst heyrnarleysi hv. þm. að kenna, að hann bar það fram, að ég hefði sagt, að hann hefði kært Eskfirðinga. Það er allt annað að segja, að einhver hafi kært eitthvað, eða að frá því hafi verið sagt. (SvÓ: Nærri lætur!). Nei, það er allt annað, prívatsamtal, eða að setjast niður og skrifa kæru. Ég vil enn spyrja hv. þm., hvað hann álítur að mínu heilsufari. Ég þykist vita, að hv. þm. sé reiðubúinn að skýra frá því, er hann meinar. (SvÓ: Á ég að fylgja hv. þm. inn að Kleppi?). Ég get ekki óskað mér betra fylgdarmanns en hans þangað, enda vona ég, að hann ílengist þá þar, mér til samlætis.