19.03.1930
Efri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (476)

31. mál, sala Hólma í Reyðarfirði

Jón Jónsson:

Það er dálítið erfitt að taka afstöðu til þessa máls, þegar kunnugustu mennirnir hér í deildinni hafa látið í ljós svo sundurleitar skoðanir um þetta sem raun er á orðin. Báðir hafa að vísu viðurkennt, að þessu kauptúni væri nokkur þörf á auknu landi til ræktunar. En annar heldur því fram, að kostur mundi vera á því töluvert nær en þessi jörð er, og jafnvel án þess að löggjafarvaldið grípi inn í, en hinn hefir borið brigður á það. Annar hefir sagt, að það land lægi fast við kauptúnið, en hinn, að leggja þyrfti 5 km. langan veg til þess að komast þangað, svo að þarna greinir nokkuð á milli í umsögn kunnugustu mannanna.

Mér skilst af þeim plöggum, sem liggja fyrir, að þessi jörð muni liggja töluvert nær en Hólmar, og að jafnvel muni ekki þurfa að leggja neinn veg þangað. En til þess aftur á móti að geta notfært sér landið til ræktunar þurfi að leggja þennan 5 km. langa veg gegnum það. En ég get hugsað mér, að þegar farið verði að rækta Hólma, muni kannske þurfa að leggja einhvern veg þar líka.

Ég hefi alltaf verið hálfdeigur við þessa þjóðjarðasölu og verið í vafa um, hvort rétt væri fyrir landið að fleygja frá sér beztu jörðunum, sem það hefir átt; og þessi er ein á meðal þeirra. Ég geri ráð fyrir, að framtíðin beri það í skauti sínu, að þessar þjóðeignir geti orðið miklu verðmætari fyrir þjóðina heldur en áður, og hún sé því með þjóðjarðasölunni að fleygja frá sér til einstakra manna töluvert miklum verðmætum. Það er þess vegna vafamál, hvort hún eigi að gera slíkt nema brýn ástæða sé til. Um þessa jörð sýnist mér heldur ekki hafa beinlínis verið sýnt fram á, að ríkið þurfi ekki síðar að nota hana. Þetta er prestssetur og biskup landsins leggur eindregið á móti sölunni, því að e. t. v. þurfi að nota hana, þegar minnst vonum varir. En það, sem mér finnst mest á skorta, er það, að engin umsögn liggur fyrir frá því sveitarfélagi, sem jörðin liggur í. Þó skiptir það allmiklu máli fyrir sveitarfélagið, hvernig fer um þessa jörð, því að allt landverð í Reyðarfjarðarhreppi er ekki nema 95 þús. kr., og þar af er þessi eina jörð 25 þús. Það er því allmikill sviptir fyrir hreppsfélagið að selja jörðina burt án þess að því sé gefinn kostur á að segja álit sitt um þetta eða boðinn forkaupsréttur.

Mér skilst, að ef Eskifjarðarkauptún fær keypta jörðina Hólma, þá sé óumflýjanlegt að leggja hana undir Eskifjarðarhrepp í framtíðinni. Það hefir sýnt sig, að ekki er heppilegt, og getur jafnvel orðið háskalegt, að sveitarfélag eigi jörð innan takmarka annars hrepps. Ég hefði því talið það mjög æskilegan undirbúning, ef legið hefði fyrir umsögn Reyðarfjarðarhrepps um þetta mál, og helzt að hrepparnir hefðu verið búnir að koma sér saman um takmörk milli sín, ef til kaupanna kæmi. Sem sagt, ég tel talsvert marga annmarka á að samþykkja þetta frv. eins og sakir standa nú. Viðurkenni ég þó fyllilega þörf Eskifjarðarkauptúns á landi til ræktunar. Og komi í ljós, að enginn kostur sé á að bæta úr þeirri þörf á annan hátt en þetta frv. gerir ráð fyrir, þá er ekki gott að standa á móti því. Ég býst því við að geta verið því fylgjandi, að frv. þetta gangi áfram til 3. umr., og athuga þá nánar; áður en hún fer fram, hvort ég get fylgt því út úr deildinni.