13.03.1930
Neðri deild: 52. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

1. mál, fjárlög 1931

Jóhann Jósefsson:

Hv. frsm. síðara kafla fjárl. minntist á brtt. frá mér, viðvíkjandi 1.200 kr. ellistyrk til Þórodds Bjarnasonar pósts, og taldi, að hv. n. hefði ekki getað aðhyllzt þessa till., vegna þess hve ég færi fram á háa upphæð.

Ég vil í þessu sambandi aðeins benda á það, að á þeim lið fjárl., þar sem er að finna eftirlaun og styrktarfé til pósta og póstmanna, eru margar mun hærri upphæðir tilgreindar en ég vogaði mér að fara fram á. Þó að till. mín verði því samþ., er ekkert fordæmi skapað með henni í þessu efni.

Hvað ádeiluna í garð n. snertir, vil ég bæta því við, að ég deili ekki á n. fyrir það, að hún gat ekki aðhyllzt mína till., heldur fyrir hitt, að n. skyldi ganga framhjá styrkveitingu til manns, sem í 20 ár hefir gegnt starfi sínu með stakri dyggð og trúmennsku og hefir hin beztu meðmæli yfirmanns síns, póstmeistarans. Vænti ég þess, að hv. deild taki n. fram og fallist á að veita þessum aldna starfsmanni nokkra úrlausn.

Þá kem ég að styrknum til Halldórs Kiljan Laxness, sem ég verð að fara um nokkrum orðum enn, vegna ummæla, sem að mér hefir verið stefnt frá ýmsum hv. þm. frá því að ég talaði síðast.

Það er hinn mesti misskilningur hjá hv. þm. Ísaf., ef hann heldur, að ég álíti, að þessi rithöfundur megi ekki setja skoðanir sínar fram á prenti, svo sem 1. leyfa. Það er vitanlegt, að hér á landi er bæði skoðanafrelsi og prentfrelsi — a. m. k. hefir það verið svo til þessa — og að þessum rithöfundi sem öðrum er heimilt að setja fram skoðanir sínar á prenti innan þeirra takmarka, sem landslög ákveða.

Það atriði, sem hér hefir verið deilt um, er það, hvort verðlauna eigi ritverk þessa höfundar af opinberu fé, og það er sitt hvað annað en að nokkur hafi gerzt til að halda því fram, að þessi maður mætti ekki skrifa.

Báðum flm. þessarar till. fannst það einkennilegt, að ég skyldi minnast eins af höfuðskáldum okkar Íslendinga í sambandi við Halldór Kiljan Laxness, og skal ég játa það, að svo mikið djúp er staðfest á milli þessara höfunda, að vart má nefna þá saman, en því varð mér á að nefna Þorstein Erlingsson í þessu sambandi, að hann naut um sína tíð ekki meira en 600 kr. í styrk árlega, og er þó öllum vitanlegt, hversu fögur ljóð hans eru. Og gagnvart þeirri skoðun hv. þm. Ísaf., að ljóð Þorsteins Erlingssonar séu sambærileg ritverkum Halldórs Kiljan Laxness, sem hv. þm. V.-Ísf. ofbauð að lesa, verð ég að halda hinu gagnstæða fram, þó að óskriftlærður sé. Mér finnast hin fögru ljóð Þorsteins Erlingssonar hátt hafin yfir allan samanburð við „sensations“-bækur Halldórs Kiljan Laxness.

Að öðru leyti skal ég ekki fara að halda uppi umr. um verðleika eða ekkiverðleika þessa rithöfundar, heldur aðeins gera enn nokkra grein fyrir minni skoðun á því, hvort rétt sé að styrkja þennan rithöfund með styrk af opinberu fé.

Það vill svo vel til, að til eru dómar um þennan rithöfund, t. d. eftir yfirmann hv. þm. V.-Ísf., hæstv. dómsmrh. Í „Tímanum“ 1927 kom út grein um bækur og listir, merkt með stöfunum J. J., sem allir vita, að eru upphafsstafir og ritmerki hæstv. dómsmrh. Þar tilfærir hann nokkra staði úr þá nýútkominni bók eftir H. K. Laxness, Vefaranum mikla frá Kasmir, og segist tilfæra þá til þess að sýna mönnum, hverskonar skáldskapur það sé, sem hér sé um að ræða. Það væri óneitanlega freistandi að lesa hér upp þessa kafla, sem hæstv. dómsmrh. tilfærir sem sérstakt sýnishorn ritháttar Halldórs Kiljan Laxness, sérstaklega samanburð þessa höfundar á gildi giftra kvenna og vændiskvenna, en ég held, að ég geri það ekki. Þessir kaflar eru þannig að efni og orðfæri, að þeir mundu setja blett á „Þingtíðindin“, ef þeir væru teknir upp í þau, en hinsvegar fer mjög vel á því, að þeir séu ekki annarsstaðar prentaðir en í bókum höfundarins og „Tímanum“.

Það væri fróðlegt, þar sem hér liggja fyrir yfirlýsingar frá hv. þm. V.-Ísf. um það, að honum hafi ofboðið að lesa suma kaflana í einni af bókum þessa höfundar, sem hann nú ber fram á bænarörmum við þingið, að fá yfirlýsingu um það frá fræðslumálastjóranum, hvert álit hans sé á þessum köflum sem efni í lestrarbók handa ungdómnum. Því er nefnilega ekki að leyna, að fyrir skömmu kom fram sú skoðun í einu blaði hér, að ein af bókum Halldórs Kiljan-Laxness væri vel fallin sem lestrarbók fyrir ungdóm þessa lands. (HG: Því ekki sem húslestrabók). Ég veit það vel, að bæði ég og hv. flm. þessarar till. erum nógu þroskaðir og harðnaðir til þess að lesa bækur þessa höfundar án þess að bíða tjón á sálu okkur, en ég lít svo á, að ritverk sem þessi eigi ekki að berast út á meðal þjóðarinnar og vera lesin af óþroskaðri æsku, sem sólgin er í að lesa allt það, sem æsandi er, eða — eins og það er kallað — spennandi.

Ég álít það skaðlegt að vera að greiða götu slíkra ritverka með því að veita höfundum þeirra styrk af opinberu fé, en því er ekki að neita, að það er orðinn nokkurskonar tíðarandi, sem hefir gert vart við sig á undanförnum þingum og stingur enn upp höfðinu, — þetta daður og dekur við þá rithöfunda, sem helzt væri hægt að einkenna með því að nefna þá kynvillurithöfunda, er farið að verða nokkuð áberandi. Þeir eiga að vera svoddan gersemar, þessir rithöfundar, að sjálfsagt er talið að veita þeim opinberan styrk, samtímis því sem hendi er drepið við réttmætum kröfum aldurhniginna starfsmanna ríkisins og styrkjum til nauðsynlegra fyrirtækja.

Mér er spurn: Erum við svo fátækir að læsilegum íslenzkum bókum, að nauðsynlegt sé að styrkja af opinberu fé þá menn, sem skrifa bækur í sama anda og Halldór Kiljan Laxness hefir gert, bækur, sem eru þannig að efni, að öðrum hv. flm. þessarar till. þykir sér ofboðið með því? Og hver verður afleiðingin af því, ef þessi stefna verður upp tekin? Mundi hún ekki verða sú, að almenningur gleypti við allskonar skrifum, svipuðum þeim, sem hér er um að ræða?

Hv. þm. Ísaf. sagði, að Halldór Kiljan Laxness væri áþekkur „göldum fola“, sem væri eftir að temja. Þetta má vera. Og ég vildi óska þess, að úr þessum unga manni ætti eftir að verða „góður hestur“.

Ég held því fram, að Alþingi eigi ekki að styrkja neinn rithöfund, hvorki þennan né aðra, fyrr en þeir hafa öðlazt viðurkenningu á því, að þeir séu uppbyggilegir fyrir þjóðina. Meðan svo er, að þeir, sem mæla með styrkveitingu sem þessari, hafa ekki meiri trú á gagnsemi hennar og réttmæti en svo, að þeir vilja helzt loka augunum fyrir öllu því, sem þessi rithöfundur hefir skrifað, en miða eingöngu við það, sem hann kann að eiga eftir að skrifa einhverntíma í framtíðinni — á meðan ekki er um meiri verðleika að ræða en svo, verður að virða mér það til vorkunnar, þó að ég sé traustur til að kosta útgáfu bóka eins og „Vefarans“ og „Alþýðubókarinnar“ af opinberu fé. Ég er ekki í neinum vafa um það, að ef Alþingi veitir þennan styrk, verður það til að ýta undir menn með að fara að skrifa í sama anda sem Halldór Kiljan Laxness. Og ég er hræddur um, að þeir verði ef til vill með tímanum nokkuð margir Laxnessarnir, sem að vísu skrifuðu ekki bækur, er væru beint fallnar til fermingargjafa, en þó svo aðlaðandi að efni, að sjálfsagt þætti að veita þeim styrk af opinberu fé. Ég get getið mér þess til, að ýmsir ungir menn gætu skrifað æsandi bækur í stíl við „Vefarann“, en ég vil ekki gefa þeim undir fótinn um að feta í fótspor Halldórs Kiljans Laxness með því að veita honum styrk af opinberu fé og verðlauna þannig þær bækur, sem hann hefir gefið út.