14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

Afgreiðsla þingmála

Haraldur Guðmundsson:

Hæstv. forseti hefir ekki heimild til að banna nema ósæmilegt orðbragð. Ég er fús til að nefna Íhaldsflokk aldrei framar innan þessara veggja, ef hæstv. forseti kveður upp úrskurð um það, að nafnið sé ósæmilegt eða meiðandi. Út af orðum hv. 1. þm. Reykv. um, að hækka þyrfti tóninn á Alþingi, vil ég segja, að mér virðist hann hafa undarlegar hugmyndir í því efni. Rök hans hnigu öll í þá átt, að óþinglegt væri að velja einhverjum flokki kyndugt heiti, sem hann kallar sig ekki sjálfur. En það vill nú svo til, að Íhaldsflokkurinn hefir sjálfur valið sér það nafn og gengið undir því í nokkur ár. Kveinstafir hv. þm. eru því á engan hátt rökstuddir, nema búið sé að fara svo með nafnið, að flokknum sé skömm að því. Enda var það sú skoðun, sem fram kom hjá hv. 2. þm. G.-K. Hann nefndi Kleppkarlaflokk og Títuprjónaflokk sem hliðstæð nöfn við Íhaldsflokksheitið. Út frá því sjónarmiði er eðlilegt, að hann vilji losna við nafnið. Ég endurtek ósk mína um það, að hæstv. forseti úrskurði, hvort nefna megi Íhaldsflokk í deildinni, og vænti, að sá úrskurður verði bókaður í gerðabók deildarinnar.