26.02.1930
Neðri deild: 37. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2454 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

Þingvíti

Forseti (BSv):

Ég vil þakka hv. þm. fyrir þá skýringu, sem hann hefir gefið fyrir hönd n. Þetta eru lögleg forföll, og ef þessi skýring hefði komið í gær, hefði hún samstundis verið tekin til greina. Þingsköp mæla svo fyrir, að ef þm. eru fjarstaddur í leyfisleysi eða án þess að tilgreina forföll, skuli hann sæta þingvíti. Þessu er sjaldan beitt, enda kemur sjaldan fyrir, að svo marga þm. vanti heilan þingfundartíma, að ekki megi heyja fund. Þessum ákvæðum þingskapa hefir oftast verið vægilega beitt, en nú olli brottvist margra hv. þm. því, að eigi mátti heyja fund. Virðist mér hv. þm. óþarflega viðkvæmir, þótt forseti færi að lögum. — En skýring hv. þm. S.-Þ. fyrir hönd fjvn. verður tekin til greina, þótt eigi væri frá forföllum skýrt fyrirfram né samdægurs. Verður því ekki beitt ákvæði 44. gr. þingskapa, er segir svo:

„Skylt er þingmanni, hvort heldur í deild eða sameinuðu þingi, að vera viðstaddur og greiða atkvæði, nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi“.

En hér eru nú eftir á upplýst lögmæt forföll, og sömuleiðis hjá hv. þm. N.-Ísf., sem fjarverandi var á sama tíma. Því lýsi ég alla þá úr þingvíti, er nú hefi ég tilnefnda.