24.02.1930
Efri deild: 33. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (783)

17. mál, kosningar til Alþingis

Guðmundur Ólafsson:

Mér þykir einkennilegt, hversu mikið réttlætistilfinning hv. frsm. minni hl. í þessu máli hefir aukizt frá því sem áður var. Því að þótt menn verði að játa, að breyt. þær, sem gerðar voru á kosningalögunum í fyrra, hafi gert hans flokki nokkuð erfiðara fyrir að kjósa í sumum stöðum, þá verða menn jafnframt að minnast þess, að fyrirkomulagið, sem áður var, gerði mörgum landsmönnum alveg ómögulegt að neyta kosningarréttar síns. Meðan þetta ástand hélzt, varð víst enginn var við sérstakan óróa í „réttlætistilfinningunni“ hjá hv. frsm. Meðan sveitirnar voru órétti beittar, fannst hv. frsm. alveg óhugsandi að slaka nokkuð til um kjördaginn eða hafa nema einn kjördag, en nú, strax á næsta ári eftir að sveitirnar fá að ná rétti sínum, er ástandið „alls ekki viðunandi“. Ég verð nú að játa það, að mér fyndist það ekki svo óttalegt, þó að kaupstaðarbúar yrðu að una við núverandi ástand í nokkur ár, eftir að hafa setið svo mörg ár yfir rétti sveitanna. Því að það er ekki eins og kaupstaðabúum sé alveg bægt frá því að kjósa, eins og sveitamönnum oft og einatt áður. Þeir, sem burtu eru á kjördag, geta allt að einu neytt atkvæðisréttar síns í flestum eða öllum tilfellum, ef þeir hafa nokkurn áhuga fyrir því.

Ekki finnst mér koma til mála till. hv. þm. Snæf., að margskipta hverju kjördæmi og láta marga mánuði líða milli þess að kosning byrjar í kjördæminu, þar til henni lýkur. Þótt ég sé ekki nógu kunnugur kosningafyrirkomulagi í öðrum löndum, þori ég að fullyrða, að þvílík aðferð er hvergi höfð. Ég verð að segja, að mér þykir undarlegt, að hv. minni hl. skyldi ekki fagna frv. hæstv. stj., því að það er vissulega það lengsta, sem gengið verður í þessa átt. En það er á vitum manna, hversu ánalegt það er að láta þriðjung árs líða milli kosninga, sem þó eiga að heita sömu kosningarnar.

Rökræður hv. þdm. um það, hversu hægt sé að varðveita atkvæðakassana fyrir eldi og annari tortíming yfir sumarið, voru dálítið skemmtilegar. En það er óþarfi að vera að vandræðast með það. Það er hægast að grafa þá í jörðu; þá er ekki brunahættan. Það kann raunar að þykja heldur óviðfelldin aðferð og óskemmtilegur geymslustaður. En hún sýnist mátulega virðuleg fyrir þá, sem eru orðnir svo hræddir við gömlu aðferðina, að geyma kassana innsiglaða. En það sýnist vera óhætt að hafa þá aðferð nú, meðan það skiptir sjaldnast nema dögum, og aldrei nema fám vikum, frá því kosning fer fram þar til talið er.

Ég veit ekki, hvaða nafni ég á að nefna till. hv. minni hl. í þessu máli. Það er eiginlega ekki hægt að kalla þær öfgar, því að þær ganga miklu lengra en svo. Ef áframhaldið verður eftir byrjuninni, má búast við því, að á næsta þingi heimti hann, að samþ. verði lög um það, að menn séu að kjósa til þings á öllum mánuðum ársins. En það er óskemmtileg tilhugsun, ef þingið á að vera að grauta í þessum kjördagsfærslum á hverju ári, en samt fæst aldrei friður fyrir nöldrinu um nýjar breytingar.