19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þegar fjárlagafrv. var lagt fyrir þingið, var tekjuafgangurinn 60 þús. kr., en eftir 2. umr. hér í hv. d. var orðinn tekjuhalli, 300 þús. kr. Ég skal að vísu játa, að sumt af þeirri upphæð eru leiðréttingar. En allt hitt eru beinar hækkanir á útgjöldunum. Sumt er auðvitað til þarflegra framkvæmda — því dettur mér ekki í hug að neita —, en margt er hreinasti óþarfi að taka upp í fjárl. Og þó að sumt sé til þarflegra framkvæmda, álít ég, að að nokkru leyti hefði mátt láta þær bíða.

Hv. fjvn. flytur nokkrar brtt. til frekari hækkunar á útgjöldunum, sem nemur 50 þús. kr. Við þær till. hefi ég ekkert að athuga. Aðalupphæðin er í því fólgin, að 33 þús. kr. eru ætlaðar til þess að mæta væntanlegum útgjöldum við verkamannabústaði, sem lög voru sett um í fyrra. Þegar frv. var samið, lá ekkert fyrir um framkvæmdir í þessu efni, en nú er aftur á móti vitað, að sumstaðar standa slíkar framkvæmdir fyrir dyrum, svo að réttmætt virðist að ætla upphæð í fjárl. í því skyni. Ef brtt. hv. n. verða samþ., er tekjuhalli orðinn um 360 þús. kr., en til þess að jafna yfir þennan tekjuhalla, flytur fjvn. einnig till. um hækkun á tekjuáætluninni, sem nemur um 450 þús. kr. Nú væri allt gott og blessað, ef þessar 450 þús. kr. væru raunverulegar tekjur. En því er ekki að heilsa. Útgjöldin, sem hafa bætzt við, eru raunveruleg útgjöld, en hækkunin á tekjuhliðinni er ekki raunveruleg. Það, sem öllu veldur um, hvort slíkar hækkanir séu réttmætar eða ekki, er árferði 1931. Um það getum við engu spáð nú, en ég vil taka það fram, að til þess að tekjuáætlunin standist með hækkun n., þarf árið 1931 að verða betra en í meðallagi. Hinsvegar megum við ekki miða við betra ár en meðalár, af því að alltaf er töluvert af útgjöldum utan við fjárl. Ég álít því ástæðulaust og óvarlegt að hækka tekjuhliðina, ef á að gera ráð fyrir, að tekjurnar eigi raunverulega að standast útgjöldin. Ég hugsa nú, að hv. n. hafi gert þetta til þess að koma í veg fyrir, að á pappírnum væri tekjuhalli.

Þetta vildi ég benda á, vegna þess að mér finnst hv. d. tæplega hafa farið nógu varlega við 2. umr., og skapað óþarflega mikinn tekjuhalla. Nú liggja enn fyrir brtt. frá ýmsum hv. dm., sem auka útgjöldin um 350 þús. kr., ef samþ. verða. Það verða ekki séð nein takmörk fyrir því, sem hv. þm. heimta af útgjöldum úr ríkissjóði. Nokkuð af fjárbeiðnum dm. á að fara til verklegra framkvæmda, aðallega síma og vita. En það er gert ráð fyrir hvorutveggja í frv., og það virðist eiga að nægja í bráðina. Mér finnst, að einhversstaðar verði að nema staðar um slíkar framkvæmdir, og hlýt ég því að leggja á móti brtt.

Af 56 brtt. á þskj. 302 eru um 30, sem heyra til beinapottinum svokallaða. Það er eins og eigi að gera fjárl. að einskonar beinaverksmiðju, sem eigi að mala úr fjárveitingar til einstakra manna. Og sú verksmiðja er alltaf að stækka, enda þótt stöðugt sé verið að mynda sjóði og styrkja menn á annan hátt. Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir öllum þeim sæg mannanafna, sem standa í brtt. þm., og það er yfirleitt ekki hægt að sjá, að þm. vilji neita sér um þá — skemmtun að flytja þetta. Ég skal ekki neita því, að það er bæði gott og gaman, oft og tíðum, að geta styrkt fólk til náms eða skemmtunar, en það verða aldrei nema mjög fáir, sem hægt er að styrkja, og ég vil slá einu stóru striki yfir þetta allt.