19.03.1930
Neðri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

1. mál, fjárlög 1931

Bernharð Stefánsson:

Við 2. umr. þessa máls átti ég enga brtt. og við atkvgr. greiddi ég atkv. á móti mjög mörgum till., sem fóru fram á að hækka gjöld ríkissjóðs. Þykist ég því hafa gert mitt til, að fjárl. yrðu sæmilega atgr. á þessu þingi. Nú við 3. umr. kemst ég þó ekki hjá að bera fram brtt., sem verða til nokkurrar hækkunar á gjaldahlið frv.

En hér er um að ræða svo bráðnauðsynlegar framkvæmdir í mínu kjördæmi, að ég kemst alls ekki hjá að bera fram tillögurnar.

Í raun réttri ber ég þó aðeins fram eina brtt., sem er um hækkun á gjaldahliðinni, þ. e. brtt. XII. á þskj. 302. Hún er um 45 þús. kr. til að reisa ljós- og hljóðvita á Sauðanesi, vestan við Siglufjörð, gegn 15 þús. kr. framlagi frá Siglufjarðarkaupstað. Vitamálastjóri hefir áætlað kostnaðinn af að reisa þennan vita 60 þús. kr., og byggi ég á því. Vitamálastjóri mælir eindregið með því, að þetta sé gert, eins og hv. fjvn. er kunnugt. Skipstjórafélögin, bæði á Akureyri og Siglufirði, hafa sent honum eindregnar áskoranir um að beita áhrifum sínum til að koma þessu í framkvæmd, en engir geta betur borið um þörfina á vitum en skipstjórarnir, sem eiga að sigla þarna framhjá. En það eru ekki þeir einir, sem óska eftir þessum vita, heldur öll sjómannastétt Norðurlands. — Það hefir verið svo undanfarið, að allar till., sem fram hafa komið um að greiða fyrir Siglfirðingum, hafa átt litlum vinsældum að fagna á hinu háa Alþingi. Veit ég ekki, hvað til þessa ber, því að Siglufjarðarkaupstaður hefir sérstöðu að því leyti, að það, sem þar er gert til framfara, kemur fleirum að gagni en framkvæmdir víðasthvar annarsstaðar á landinu. Er það vegna þess, hve margir leita þangað atvinnu vissan hluta ársins. Viti sá, sem hér um ræðir, er því ekki reistur handa Siglfirðingum einum, heldur handa öllum þeim, sem við veiðiskap fást fyrir Norðurlandi. Mér er kunnugt, að hv. fjvn. hefir haft þetta mál til athugunar og átt tal um það við vitamálastjóra. Geri ég því frekar ráð fyrir stuðningi hennar en andstöðu.

Þá er brtt. LII. á sama þskj., um að láta athuga og gera áætlun um endurbyggingu sjóvarnargarðs á Siglufirði og greiða síðan úr ríkissjóði 2/3 kostnaðar við framkvæmd verksins, gegn þriðjungs framlagi frá Siglufjarðarkaupstað. Ástæðan til, að ég ber fram þessa brtt., er sú, að í vetur hafa komið á Siglufirði stórflóð tvisvar sinnum, sem hafa gert þar mikinn skaða. Fyrra flóðið var í desember, en hitt í miðjum janúar. Þau voru svo mikil, að flóði yfir alla eyrina og fara varð á bátum þar, sem menn ganga venjulega þurrum fótum. Og það hafa sagt mér kunnugir menn, að það megi aðeins þakka sérstakri heppni, að í hvorugt skiptið skyldi verða manntjón. Á Siglufirði voru útnefndir menn til að meta skaða þann, sem hlauzt af flóðunum á eignum manna, og var hann metinn á 20 þús. kr. En þar með er ekki talinn sá skaði, sem varð á sjávargarðinum sjálfum. — Það liggur í augum uppi, að fyrst þetta gat komið fyrir í vetur þrátt fyrir sjóvarnargarðinn, sem gerður var fyrir nokkrum árum, þá er hættan enn meiri hér eftir, því að sjóvarnargarðurinn hefir orðið fyrir skemmdum af flóðunum. Það hlýtur hv. þd. að vera mér sammála um, að koma verður í veg fyrir þessa hættu. Enda þótt Siglfirðingar hafi oft orðið fyrir kulda í hv. deild og þótt hv. þdm. vilji litlu fórna vegna íbúa staðarins, þá er á það að líta, að ríkið á þarna eignir, sem liggja undir skemmdum engu síður en aðrar eignir á Siglufirði. Auk þess er eyrin sjálf í hættu, en hún er eign ríkissjóðs, eða kirkjujarðasjóðs nánar tiltekið. Sumum kann að þykja það undarlegt, að þessi brtt. er borin fram við 22. gr. fjárlfrv., en ekki sem fjárveiting á tiltekinni upphæð. Þetta stafar af því, að ég gat ekki fengið neina áreiðanlega áætlun um kostnaðinn, sem þessi framkvæmd mundi hafa í för með sér. Það var að vísu rannsakað í vetur og gerð um það áætlun á Siglufirði, hvað mundi kosta að gera við garðinn, hækka hann og bæta eins og þörf er talin, og var álitið, að það yrðu um 64 þús. kr. Það var að vísu vanur verkstjóri, sem gerði þessa áætlun, en af því að hún er ekki gerð af verkfræðingi, bjóst ég ekki við, að hv. þd. mundi taka hana gilda, og því kaus ég þessa leið. Þó vil ég geta þess, að vitamálastjóri hefir látið uppi, að hann teldi þessa áætlun ekki ósennilega. Þó að fjárhæðin sé ekki tiltekin, getur hér ekki orðið um neinar óskapaupphæðir að ræða; enda er hæstv. stj. treystandi til að leggja ekki út í neina ófæru, er hún hefir látið athuga málið.

Skömmu eftir flóðin skrifaði vitamálastjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytinu — Siglufjörður er kirkjueign — og lagði til, að þegar í stað væri sendur norður verkfræðingur til að athuga kostnaðinn af viðgerðinni, svo að hægt væri að leggja áætlun hans fyrir þingið. En þetta hefir alveg farizt fyrir. Þetta mál þolir ekki að bíða næsta þings. Önnur eins flóð geta vel komið næsta haust, og er þá ekki að vita, hvað af hlýzt. Því verður að gera eitthvað í sumar, a. m. k. að koma garðinum í samt lag. Hv. fjvn. hefir einnig haft skjöl þessa máls undir höndum, og geri ég fastlega ráð fyrir meðmælum hennar.

Þá á ég brtt. á þskj. 316, VII. lið, um að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir allt að 620 þús. kr. láni fyrir Siglufjarðarkaupstað til raforkuveitu, gegn þeim tryggingum, er ríkissjóður metur gildar. Ég býst við, að þetta mál sé vel kunnugt hv. fjvn. og flestum þdm., því að ég hefi afhent n. teikningar af þessum mannvirkjum og nægilega mörg eintök af ítarlegri áætlun, er gerð hefir verið um verkið. Einnig hefi ég afhent flestum hv. þdm. eintak af þessari áætlun, og ef einhverjir eiga eftir að fá hana ennþá, geta þeir vitjað hennar til mín fyrir atkvgr. Er ætlunin sú, að virkja Fljótaá í Skagafjarðarsýslu og leiða rafmagnið til Siglufjarðar. Till mín er byggð á þessu, en annars er ekki ástæða til að fara að lýsa fyrirtækinu nánar, með því að lítið gæti orðið á þeirri lýsingu að græða fram yfir það, sem menn geta séð í áætluninni, — En hér kemur fleira til greina. Hæstv. fjmrh. hefir oftar en einu sinni vikið að því hér í hv. deild, að hann vildi vara menn við að láta ríkissjóð taka á sig miklar ábyrgðir. Telur hann það fyrst og fremst varasamt vegna þess, að ef mikið er að þessu gert, geti ríkissjóður þurft að borga svo og svo mikið af ábyrgðunum á sínum tíma, og í öðru lagi geti það beinlínis skert lánstraust hans út á við. Um fyrra atriðið lít ég svo á, að það þurfi ekki að óttast í þessu tilfelli. Siglufjarðarkaupstaður hefir slíka fjárhagsafkomu, að hann hlýtur að geta borgað hvern eyri. Það hlýtur að verða sannfæring allra, sem kynna sér málið, og get ég látið a. m. k. nokkra hv. þdm. fá efnahagsreikning kaupstaðarins, ef þeir vilja sannfærast um, hvort ég fer hér ekki rétt með. Því er ekkert við þessa ábyrgð að athuga inn á við. En um hitt skal ég ekki segja, nema það geti orðið til nokkurs skaða fyrir lánstraustið út á við, að ganga í ábyrgð sem þessa. — Þá vil ég og nefna annað, sem haft kann að verða á móti þessu. Mér er það kunnugt, að nefnd sú, sem hæstv. atvmrh. skipaði nýlega til að athuga rafveitumálin í heild sinni, hefir lagt á móti því, að teknar væru út úr nokkrar einstakar rafveitur fyrr en búið er að ganga frá heildartillögum um málið.

Af þessum tveimur ástæðum var það, að þrátt fyrir eindregna áskorun frá kjósendum mínum um að bera þessa ábyrgðarheimild fram, þá ætlaði ég þó ekki að eiga neitt við það, og þeim mun síður, sem samskonar beiðni annarsstaðar frá var felld við 2. umr. En er ég sá á þskj. 302, að samskonar beiðnir eru fram bornar nú við þessa umr. af öðrum, þá þótti mér rétt að bera þessa ábyrgðarbeiðni fram líka. Ég álít, að mín till. eigi alveg eins mikinn rétt á sér og hinar aðrar, sem nú eru bornar fram. Ef ég verð þess vís af umr. þeim, er fram fara, eða af undangengnum atkvgr. um till. annara, að hv. deild vill ganga inn á þá braut að veita þessar ábyrgðarheimildir, þá læt ég óhikað mína till. koma undir atkv. líka. Hinsvegar mun ég taka hana aftur, ef ég sé, að það er vilji þm. að fara varlega í þessu efni, og einkum ef það getur orðið að samkomulagi að láta öll slík mál bíða, þar til n. sú, er nú starfar, hefir lokið áliti sínu.

Ég er ekki vanur því að gera till. annara að umtalsefni, enda þótt ég minnist á fjárlfrv. En að þessu sinni er það þó ein brtt., sem ég get ekki látið hjá líða að minnast á. Það er 6. brtt. á þskj. 302, frá hv. 1. þm. S.-M. Till. er um það, að lækka liðinn til bygginga í Bakkaseli úr 35 þús. kr. og niður í 10 þús. kr. Þessi fjárveiting er svo til komin, að eins og menn muna, var borin fram till. 1928 um, að keyptar væru jarðirnar Bakkasel og Gil í Öxnadal. Var sú till. borin fram með það fyrir augum, að þarna yrði haldið uppi gististað fyrir ferðamenn. Fjvn. bar þá þessa till. fram að undirlagi vegamálastjóra, sem mælti eindregið með því, að ríkið keypti þessar jarðir. Þinginu hafði þá borizt beiðni um fjárstyrk til húsabygginga á Bakkaseli. En vegamálastjóri og fjvn. virtist ekki rétt að veita þann styrk, heldur væri heppilegra, að ríkið ætti sjálft jarðirnar og byggði þær upp. Samkv. þeirri heimild voru svo þessar jarðir keyptar, og síðastliðið vor voru þær svo byggðar manni, er þangað flutti. Sá, er við þeim tók, gerði svo byggingarsamning við ríkisstj. og enda þótt ekki sé fulltekið fram í þeim samningi, að byggt verði upp, þá er það þó víst, að bóndinn flutti þangað í því trausti, að svo yrði gert. — Ég vil ekki fullyrða, að skilyrði um það standi í samningunum, en ég fullyrði, að ábúandinn hefir ástæðu til að gera sér sterkar vonir um, að byggt verði upp. Það var líka einmitt með það fyrir augum, að þarna yrði gististaður, að kaupin voru gerð. Í ákvörðun þingsins 1928 um kaupin fólst einmitt óbeint loforð um, að byggt yrði upp, og var það skýrt tekið fram af frsm. fjvn. Það, sem síðan hefir gerzt í þessu máli, var það, að í sumar sem leið gerði aðstoðarmaður vegamálastjóra athugun á húsastæði. Gerði hann það í samráði við mig og fleiri kunnuga menn. Varð niðurstaðan sú, að heppilegast myndi að byggja upp á landamerkjum þessara tveggja jarða, Bakkasels og Gils. Þar er ágætt túnstæði og liggur sá staður betur fyrir ferðamönnum. En verði bærinn fluttur þangað, þarf einnig að flytja fleiri hús, og verður því byggingin meiri.

Ég vona nú, að það, sem ég hefi sagt, sé nægilegt til að sýna, að till. hv. 1. þm. S.-M. er fjarstæða. Þessar byggingar er ómögulegt að gera fyrir 10 þús. kr.

Ég þarf naumast að fara út í nauðsyn þess að hafa þarna sæmilegan gististað. Frá þeirri hlið málsins var í raun og veru gengið fyrir tveimur árum. Þá var þörf inni greinilega lýst af hv. frsm. fjvn. Ég tók þá einnig undir það og gaf upplýsingar sem kunnugur maður. Bakkasel liggur við versta fjallveginn, sem er á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar, því þótt Holtavörðuheiði sé ögn lengri, er Öxnadalsheiði verri fjallvegur: Þegar af heiðinni er komið á austurleið, er langt til allra annara bæja en Bakkasels. Þessi leið er líka orðin mjög fjölfarin, og verður þó enn fjölfarnari síðar, er vegir batna. Oft er líka snjór á heiðinni, þó bílfært sé um byggð beggja megin. Er þá nauðsynlegt að fá flutning yfir heiðina. Er því þörfin fyrir byggð í Bakkaseli hin sama og í Fornahvammi, og eins er um fylgd og annan greiða. Þetta er enn hliðstætt við Kolviðarhól, sem allir þekkja. Ég hygg þó, að í Bakkaseli mætti komast af með minni hús en í Fornahvammi, en að öðru leyti er það alveg hliðstætt og fordæmið frá Fornahvammi.

Þessar upplýsingar vildi ég þá gefa um málið. Hygg ég, að ekki þurfi að svara hv. 1. þm. S.-M. nákvæmar en þetta, einkum þar sem hv. þm. er ekki nærstaddur mér sjáanlega. Hann kallaði Bakkasel kuldakot og gat þess, að það væri ekki metið nema á 13 hundr. að fasteignamati. En nú er það líka, að þarna er búið að slá tveimur jörðum saman. En svo er vitanlega þessi bygging þarna ekki gerð vegna búskapar þar, heldur vegna ferðamanna. Hvaða nafn þessu koti er valið, skiptir því ekki miklu máli. Hvort 35 þús. kr. þurfi til byggingarinnar, skal ég ekki dæma um. Ég hefði getað haldið, að komast mætti af með minna. Ég hefði því ekki skipt mér af, þátt hv. Í. þm. S.-M. hefði gert till. um dálitla lækkun, t. d. um 10 þús. kr. En hitt nær engri átt, að hægt sé að byggja sómasamlega upp fyrir einar 10 þús. kr.

Ég læt svo þetta nægja. Vona ég, að hv. deild felli till. með öllum atkv., að undanteknum atkv hv. flm. hennar. Þykist ég mega vænta, að svo verði gert.