17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

5. mál, sveitabankar

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir hlýleg orð í garð n., þó að hún hafi ekki átt þau skilið, af því að afgreiðsla þessa máls hefir dregizt lengur en skyldi.

Ég ætla að víkja að þeim brtt., sem fram hafa komið. Hv. 4. landsk. sagði í sinni ræðu, að ranghermt væri hjá mér, að n. flytti síðari brtt. á þskj. 113. Ég hefi kannske ekki orðað þetta svo glöggt sem skyldi, en mér finnst mega segja, að n. flytji till., þar sem hún stendur með nál. nefndarinnar. Hv. 4. landsk. varð meira að segja þetta sama á í sinni ræðu. Hann kallaði brtt. brtt. frá landbn. Hv. þm. vildi reyna að rökstyðja brtt. sína á þskj. 112. Ég held, að ekki sé brýn ástæða fyrir hann að flytja þá till. Hann getur áreiðanlega ekki bent á mörg dæmi þess, að verkafólk hafa orðið fyrir vanskilum af sveitabændum, og því síður verður það, ef frv. nær fram að ganga, því að lánin úr sveitabönkunum verða að líkum fyrst og fremst tekin til greiðslu kaups til verkafólks. Hinsvegar rýrir brtt. það veðhæfi, sem þetta lausafé hefir. Ég er hissa á því, að hv. 4. landsk., sem vill bera hag fátæklinganna mjög fyrir brjósti, skuli ekki líka vilja líta á hag þeirra fátæklinga, sem eru bændur. Þeir hafa litla tryggingu að bjóða nema lausafé, og ef þess veðhæfi er rýrt, eru þeir illa settir. Ég vona því, að hv. d. felli till. hv. 4. landsk.

Þá kem ég að till. hv. 1. þm. G.-K. Þær eru ekki stórvægilegar núna á móts við það, sem þær voru í fyrra, og mun hv. þm. hafa slakað til af samkomulagshug, og það er auðvitað gott og blessað. Í fyrra ætlaði hann hvorki meira né minna en að útiloka alla samvinnumenn í landinu frá því að vera í slíkum félagsskap, sem hér er um að ræða. Hv. þm. leggur til, að c-liður 4. gr. falli burt, en rann er um, að félagsmenn sveitabanka beri sameiginlega ábyrgð á skuldbindingum hans. Mér er nú alveg óskiljanlegt, hvernig hv. þm. getur dottið í hug að koma með svona till. Ég sé ekki annað en samábyrgðin sé eina tryggingin, sem lögin gera ráð fyrir, að lánsstofnanir þær, er lána sveitabönkunum rekstrarfé, fái fyrir lánum sínum, og hvaða vit er þá að kippa henni burt?

Ég sé heldur ekki, hvaða trygging þessi rekstrarlánafélög geta sett aðra en samábyrgðina, enda er hún í flestum sveitum fullnægjandi. Hvaða tryggingu ætlast hann til, að lánsstofnunin hafi, ef þetta er fellt niður? Hv. þm. minntist á, að hægt væri fyrir félögin sjálf að setja sér ákvæði um þetta atriði. Jú, það er hægt, en það er ekki víst, að þau geri það, og þá er ekki um neina tryggingu að ræða. Það er fullmælt, að þessari ábyrgð sé lögþvingað upp á menn. Það þarf enginn að vera í félagsskapnum frekar en hann vill. Annars lítur hv. þm. of tortryggnum augum á samábyrgðina. Hann getur ekki litið öðruvísi á hana en svo, að mennirnir gangi alveg í fullkomið sameignarfélag. En þeir, sem ganga í félögin, bera bara ábyrgð á ákveðnum skuldbindingum, þ. e. skuldbindingum, sem félagsstjórnin tekst á hendur fyrir félagið á löglegan hátt, en vitanlega ber aftur á móti ekki félagsmaður ábyrgð á skuldum eða skuldbindingum annara félagsmanna gagnvart öðrum en félaginu sjálfu. Annars get ég ekki stillt mig um að minnast á það, að þessi samábyrgð virðist einmitt, að dómi góðra fjármálamanna erlendra, vera hreinasta lyftistöng landbúnaðarins. Mér hafa borizt „Finanstidende“ frá 29. jan. þ. á., og þar sé ég, að landbúnaðurinn danski býr við svipað lánsfyrirkomulag eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Og lánsskilyrðin eru að dómi blaðsins, sem er alviðurkennt mjög merkt fjármálarit, miklu betri en í öðrum löndum, þar sem þetta fyrirkomulag er ekki notað. Þess vegna getur landbúnaðurinn betur borgað sig og svarað arði en í öðrum löndum. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp dálítinn kafla úr þessari merku grein:

„Sú hugmynd, sem lánsfélög vor byggjast á, er samábyrgðin og sjálfstjórnin. Sjálf tryggingin, veðið, var og er að vísu svo tryggt, að áhættan við rýmkun á ábyrgð félagsins hlýtur að verða lítil, en áður en þetta var reynt í framkvæmdinni, gat það þó verið mjög vafasamt. Var það ekki áhætta fyrir efnaðan bónda, að bindast hinum efnaminni með samábyrgð, og gat slík sameining hins betra og hins lakara ekki gert það erfitt að fá áheyrn hjá lánveitendum? Spurningin um að koma fyrir sjóðskuldabréfunum hlaut einnig að vera álitin nokkuð vafasöm.

Hinn góði viðgangur lánsfélaganna var byrjun á viðreisn danska landbúnaðarins á grundvelli samábyrgðarinnar, sem er innsti kjarni þess. Þegar séð var, hvernig það gekk á allrahættulegasta sviðinu, peningasviðinu, lá það nærri, að halda áfram í aðrar áttir. Kaupfélögin mynduðust, og smámsaman ruddi sambands- og samábyrgðarkerfið sér til rúms bæði á sviði framleiðslu og neyzlu“.

Þetta sýnir ljóslega, hvernig samábyrgðin hefir gefizt með Dönum, og ég hygg, að reynslan verði svipuð hér. Hv. 1. þm. G.-K. er alltaf að hrópa upp um þessa ógurlegu samábyrgð. En það eru bara stóryrði. Hv. þm. sagði í fyrra, að samvinnufélögin skulduðu miklu meira en þau ættu fyrir. Forstjóri Sambands ísl. samvinnufél. hefir nú nýlega birt opinberlega skýrslu um hag samvinnufélaganna í landinu, sem ég hygg, að erfitt verði að vefengja. Samkv. henni eiga samvinnufélögin a. m. k. 5 millj. umfram skuldir. Þar sem svona er nú ástatt, sýnist samábyrgð samvinnufélaganna ekki svo afarægileg, með því þau eiga sjálf ekki svo lítinn hluta af því fé, sem þau þurfa til rekstrar og alls er um 7 millj. króna (viðskiptavelta erl. vara).

Hv. þm. sagði, að Landsbankinn hafi orðið að gefa samvinnufélögunum eftir miklar skuldir. En þó að hv. þm. leiti með logandi ljósi, finnur hann ekki meira en á annað hundrað þús. kr., sem einstökum félögum hefir verið gefið eftir alls. Sambandinu hefir vitanlega ekki verið gefinn eftir einn eyrir, enda mun það vera með beztu viðskiptamönnum Landsbankans, auk þess sem það hefir trygg bankaviðskipti ytra.

Eftirgjafirnar til samvinnufél. eru því mjög litlar, ef borið er saman við marga aðra. Ég sé því ekki, að hv. d. þurfi að hika við að láta þennan c-lið standa.

2. brtt. hv. þm. er um það, að e-liður 4. gr. falli burt. Hv. þm. viðhafði þau orð, að með honum væri verið að rænast eftir sparifé vinnhjúa og ómyndugra manna. En þetta er nú ofmælt, eins og fleira hjá hv. þm. Það yrði a. m. k. aldrei tekið nema frá mönnum, sem eru búsettir á félagssvæðinu. En þeir hafa vanalega þann kunnugleik á öllum högum og háttum í kringum sig, að lítil hætta er á, að þeir stofni fé sínu í neinn voða. Enda er ekki aldeilis hættulaust að skipta við sparisjóði annarsstaðar, og meira að segja ekki við stóra banka. Það sýna atburðirnir, sem orðið hafa þessa síðustu daga. Hættan getur víða vofað yfir. En með því að láta féð standa, er opinn vegur fyrir stofnanirnar að fá ódýrt rekstrarfé.

3. brtt. hv. þm. er við f-lið 4. gr. Hún breytir að vísu ekki miklu, en ég verð að segja hv. þm., að það er sjálfsagt að tryggja það, að félagsmaður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum, sem hvíldu á félaginu, þegar hann fór. Annars skil ég ekki viðbót hv. þm. við þennan lið, að innan sama tíma skuli honum greidd innieign hans, ef hann á þá inni hjá félaginu, þar sem hann gerir ekki ráð fyrir neinu innlánsfé.

Ég gleymdi að geta þess viðvíkjandi e-liðnum, að mér kemur það einkennilega fyrir sjónir, að hv. þm. skuli vilja fella hann burt, því að í sínu eigin frv. frá 1928 gerir hann ráð fyrir, að lánsstofnunin megi taka við innlánsfé.

Um 14. gr. er hv. þm. nokkuð stórstígur, þar sem hann vill fella hana alveg burt. En eins og hæstv. forsrh. benti á, hafa bændurnir litla tryggingu að bjóða, nema lausaféð sé tekið gilt. Enda leggur hv. þm. til í varatill., að þetta geti gengið í eitt ár í senn, en hin ákvæðin vill hann láta falla niður.

Um forgangskröfurnar talaði ég um leið og ég svaraði hv. 4. landsk. En viðvíkjandi lögtaksréttinum skal ég taka það fram, að það eykur ákaflega mikið störf framkvæmdarstjórans, ef honum er kippt í burt. En það er um svo litlar upphæðir að ræða, að ekki getur talizt harkalegt, þó að lögtaksrétturinn sé látinn standa.