16.04.1930
Efri deild: 82. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (980)

26. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Jón Baldvinsson:

* Þegar þessi mál voru til umr. í hv. Nd., þá studdu Alþýðuflokksþingm. þau út úr d., en bæði í sjútvn. Nd. og eins undir umr. lýstu þeir því, að þeir myndu vilja gera á frv. nokkrar breyt. En það varð þó ekkert úr, að þessar breyt. kæmu fram sem till., annað heldur en það, sem kom fram í n. sjálfri. Það var þá um það rætt okkar á milli, að þessar till. myndu geta komið fram í Ed., og þó að það væri ekki nákvæmlega eins og um var talað í Nd., eru þær þó að mestu leyti shlj. þeim brtt., sem hv. þm. Ak. flytur nú við frv. Bæði hv. þm. Ak. og ég myndum sjálfsagt hafa verið fúsir til í einfeldni okkar að taka þessar till. aftur eða falla frá þeim, ef við hefðum haldið, að svo mikil alvara lægi á bak við flutning þessara mála hjá þeim mönnum, sem þau hafa flutt í þinginu, ef á því hefði staðið að geta komið þessum málum þannig í gegn. Þetta veit ég er sameiginleg skoðun okkar hv. þm. Ak., og ég hafði sannast að segja í kvöld, þegar þessar brtt. voru bornar fram, verið hálft í hvoru ráðinn í að greiða atkv. gegn þeim, þó ég í rauninni áliti, að þetta sé rétt stefna í hafnarmálunum, að þessar till. komist að, til þess eingöngu að koma ekki í veg fyrir það, að þessi mál komist fram. Ég tel, að þörfin sé mest hjá Akurnesingum og svo hjá Sauðkræklingum; en þegar ég fæ vitneskju um það, að flm. allra þessara frv., hv. þm. Borgf., hv. 1. og 2. þm. Skagf., hv. 2. þm. Eyf. og svo höfuð þess flokks, sem þrír hinir fyrstnefndu þm. teljast til, hv. 3. landsk., hafa gert samkomulag við stj. um það að slíta þingi áður en þessi mál ganga fram, þá álít ég, að ekki sé vert að draga aftur þær till., sem við fyrir löngu síðan höfðum boðað í Nd. og sem nú liggja hér fyrir fullskapaðar í því formi, sem hv. þm. Ak. hefir gefið þeim. En þetta er ekki af því, að ekki sé nægur tími til að afgreiða málin. Hv. þm. Borgf. þarf ekki annað en að sjá um það í sínum flokki, að fjárl. verði ekki afgr. fyrr en þessi mál eru komin í gegn. Ég fullyrði, að það er nægilegt atkvæðamagn til að koma þeim í gegn, ef það er nægilegur áhugi hjá báðum þm. Skagf. til að koma málinu í gegn fyrir Sauðárkrók, þá er nægilegt atkvæðamagn til þess, svo framarlega sem þeir ekki binda sig við það samkomulag við stj., sem segir, að eigi að slíta deildarfundum í kvöld. En ef það samkomulag er, sem ég hefi heyrt, þá þýðir ekkert, þótt frv. verði samþ. óbreytt, þegar enginn fundur verður settur á eftir.

Þeir hv. þm., sem hafa flutt þessi mál inn í þingið og ætla svo að skella skuldinni á aðra fyrir það að þau lúkast ekki, þeir verða engir hvítir englar, þegar þeir koma heim til kjósendanna, eftir að hafa komið í veg fyrir, að þessi áhugamál þeirri verði afgr., með því að semja við stj., sem alltaf er fús til að senda þingið heim. Ég segi fyrir mig, og ég tala þar einnig fyrir hönd jafnaðarmanna, að við erum reiðubúnir til að veita þessum málum stuðning með atkv. okkar áfram í þinginu við 3. umr., ef þau verða samþ. hér við 2. umr., hvort sem brtt. verða samþ. eða ekki. Við erum fúsir til að veita afbrigði; við ráðum því að vísu ekki einir, en við erum ásamt aðstandendum þessara hafnarlaga nógu sterkir til þess að geta komið málunum þinglega fram, svo framarlega sem það samkomulag, sem verið er að tala um nú, er ekki svo sterkum böndum bundið, að ekki verði rofið. En þá lýsi ég líka vígum þessara mála á hendur þeim hv. þm. Borgf., hv. 1. og 2. þm. Skagf. og hv. 3. landsk., því að þeir eiga þá sökina á því, að þessi mál verða ekki útrædd á þessu þingi; það er þeirra ágætu samvinnu að þakka við þá stj., sem þeir eru svo afskaplega mikið á móti, eins og kunnugt er.

Þetta var það, sem ég vildi láta koma fram við umr., því að það er rétt að láta það koma fram, rétt, að skömmin skelli á þeim hv. þm., sem hafa búið þessum hafnarmálum banaráð, þótt þeir ætli að dyljast svo vandlega, að ekki verði séð í gegnum. En það skal vera dregið fram í ljósið hér í Ed., að þeir geta ráðið því sjálfir, hvort þau verða samþ. eða ekki, að það er alveg undir þeim sjálfum komið, eftir því hvort þeir hafa áhuga og styrk fyrir þessum málum.