19.02.1931
Efri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í C-deild Alþingistíðinda. (1019)

22. mál, bókhald

Jón Þorláksson:

Ég hreyfði almennum aths. við þetta frv. í fyrra, að mér fyndist það fara of langt að því leyti, hve það skyldaði marga til að hafa tvöfalda bókfærslu. Það eru ákaflega margir handiðnamenn og smærri atvinnurekendur, sem eftir frv. falla inn undir þá skyldu. Nú má sjálfsagt fullyrða um þessa menn yfirleitt, að þeir eru ekki sjálfir færir um að hafa á hendi þessa bókfærslu og yrðu því að kaupa sér stöðuga aðstoð. Þetta er ekki nauðsynlegt, því að hægt er að fá allt það, sem þjóðfélaginu kann æskilegt að þykja, þótt þessir menn séu ekki skyldaðir til þess að hafa svo erfitt bókfærslufyrirkomulag. Þá bólar aðeins á því í frv., að það þekkist einfaldari tilhögun, þar sem tveim stéttum manna er heimilað að hafa einfalt bókhald, eða aðeins sjóðbók. Ég tel, að fyrir mikinn fjölda af þeim, sem dregnir eru undir þessa erfiðu bókfærslu, nægi sjóðbók og viðskiptamannabók.

Ég bið hv. n. að athuga þetta mjög vandlega. Ég vil geta þess, að frv. hefir ekki verið sent öðrum hlutaðeigendum til athugunar en Verzlunarráðinu. Það hafði ekkert við frv. að athuga, því að það er almenn ósk verzlunarstéttarinnar að skylda allar verzlanir til að hafa tvöfalt bókhald. Úr þeirri átt var því ekki að vænta breytinga. En það eru aðrir aðilar, sem eru bærir að koma fram gagnvart hinu opinbera fyrir hönd mikils fjölda manna, sem bókhaldsskyldir yrðu eftir þessu frv., þótt þeir fáist ekki við verzlun. Ég á við Iðnráðið í Reykjavík, sem er orðið nokkuð viðurkenndur fyrirsvari iðnstéttarinnar, þótt ekki sé það ákveðið í lögum ennþá.