24.03.1931
Efri deild: 32. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í C-deild Alþingistíðinda. (1057)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Þetta frv. um byggingu fyrir Háskóla Íslands var afgr. af þessari d. í fyrra með nokkurn veginn einróma atkv. Menntmn. hefir athugað frv., og meiri hl. hennar er -sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það fór héðan í fyrra. Aftur á móti hefir minni hl., hv. 3. landsk., gert þá brtt., að þar sem gert er ráð fyrir, að ríkisstj. hafi heimild til að láta reisa bygginguna á árunum 1934–1940, vill hann, að tímabilið verði fært nokkuð fjær, svo að ekki þurfi að byrja fyrr en 1936 og verkið megi standa yfir til 1946 eða í 10 ár. Meiri hl. n. sá ekki ástæðu til að fallast á þessa brtt. hv. 3. landsk., því að hann leit þannig á, að þar sem 10 ár eru til stefnu þangað til verkinu þarf að vera lokið samkv. frv., þá sé það nógu langur frestur. En hinsvegar álítur meiri hl. fulla þörf á að byrja á Háskólabyggingu fyrir ríkið og sér ekki ástæðu til að draga lengur, hvorki að ráðast í verkið né draga það á langinn. Það má ef til vill segja, að ekki ári vel til að leggja út í stórbyggingar eins og nú standa sakir, en bjartsýnir menn vona, að breyt. geti orðið fyrir 1934, þó að erfitt sé árið 1931, og yfirleitt höfum við ástæðu til að vona, að þótt kreppa sé nú, þurfi hún ekki að standa svo lengi, að þörf sé að fresta þessu máli af þeim ástæðum. Það er varla þörf á að fjölyrða um málið frá hendi meiri hl.; ég vænti þess, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá þessari hv. d. á síðasta þingi.