28.03.1931
Neðri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (1074)

23. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Magnús Jónsson:

Ég þarf mjög litlu að bæta við fyrri ummæli mín.

Hv. 1. þm. Skagf. þótti ég vera nokkuð lítillátur, að mér skyldi finnast nokkur brú í þessu frv. Ég sagði nú, að mér þætti nokkuð margir fyrirvararnir í því, en frv. eins og þetta er í mínum augum ekki alveg gagnslaust, og par að auki er frv. undir meðferð þingsins og því hægt að breyta því. Ég benti t. d. á eina breyt., sem gera mundi frv. í mínum augum aðgengilegt, sem sé þá, að ákveða, að á árunum 1934–40 skuli reisa þessa byggingu.

Annars skal ég játa, að við kennarar háskólans erum orðnir lítillatir. Við höfum nefnilega alltaf verið að reyna að koma einhverju af stað með þessa byggingu, en það hefir aldrei fengizt nein áheyrn. Og það fer jafnan svo með alla, og það meira að segja með samvizkuna, að þeir sofna þegar aldrei er á þá hlustað. En ég er fullviss um það, að ekki þarf að eggja háskólaráðið til þess að fylgjast með í því, sem löggjafarvaldið vill gera í þessu máli. Því að þótt segja megi, að mögulegt sé að segja stúdentum til, þá er það samt svo, að stundum rekast kennslutímar á, og eru kennarar þá að flækjast til og frá með stúdentahópinn á eftir sér. Ein stofan átti að vera lestrarsalur, en það varð að taka hana til kennslu, svo að nú hafa nemendur enga stofu, þar sem þeir geta búið sig undir tíma. Enginn samkomusalur er til, nema þá þessi salur, sem við erum í, því að hann er notaður, þegar skólinn er settur. Forstofuna hafa þeir raunar til að vera í, en þar er rammasti dragsúgur.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að háskólaráðið mundi geta gert talsvert til undirbúnings þessu máli, og skal ég þá geta þess, að ráðið hefir þegar gert það. En hvað því viðvíkur, að skólinn eigi sjóði, sem nota mætti til að kosta menn út að kynna sér þetta mál, þá hefir hann engan slíkan sjóð, nema ef það væri Sáttmálasjóður, en hann er nú svo fast skipulagður, að ekki mundi gerlegt að breyta því. Þessi skóli ætti heldur ekki að hafa þá sérstöðu meðal skóla ríkisins, að hann þyrfti sjálfur að kosta hús yfir sig, eða leggja fé til undirbúnings þess, því að það finnst mér ríkið eigi að gera.

Hv. þm. V.-Húnv. talaði um það, að rétt væri að fela háskólaráðinu að undirbúa þetta mál. Ég hygg, að það mundi fljótt taka hverri áskorun um það.

Hv. þm. sagði einnig, að 600 þús. kr. væri ekki nægilegt til að koma upp þessari byggingu. En ég segi nú fyrir mitt leyti, að ég tel, að fyrir þessa upphæð megi koma upp húsi, sem háskólanum mundi nægja fyrst um sinn. Það er aðgætandi, að þetta er ekki svo ákaflega stór skóli og hann er heldur ekkert sérstaklega plássfrekur. Ef byggt væri hús fyrir 600 þús. kr., býst ég við, að skólinn mundi geta unað sínum hag um alllangan tíma.

Hv. þm. sagði, að allt væri á hringli með staðinn fyrir þessa byggingu. Þetta er ekki rétt. Ég þori að fullyrða, að flestir kennarar skólans eru ánægðir með hann stað, sem nú hefir verið valinn, en þeir voru líka flestir eindregið á móti hinum staðnum.

Að lokum vil ég endurtaka þá áskorun mína til menntmn., að hún taki þetta tvennt til greina:

Annarsvegar að setja meiri vissu og festu í frv., með því að segja, að á þessum ákveðnu árum skuli reisa bygginguna. Hinsvegar að setja í frv. ákvæði um undirbúning málsins.