19.02.1931
Neðri deild: 4. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (1102)

6. mál, tollalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það er einn sameiginlegur galli á þessum tollalaga ræðum hv. þm. Ísaf., að hann tekur í raun og veru aldrei nema aðra hliðina, aðeins þá, sem að gjaldendunum snýr. Hann segir, að ekki eigi að eltast við að taka af þeim tekjur þeirra með allskonar alögum. Það eigi ekki að leggja toll á kaffi og sykur, heldur gimsteina og silfurvörur, silkihatta og loðfeldi. Þetta er nú allt gott og blessað. En ég vildi spyrja hv. þm.: Til hvers eru skattar og tollar lagðir á þjóðina? — Er það ekki til þess, að ríkissjóður geti fengið einhverjar tekjur til þess að vinna að alhliða framförum, sem til gagns horfa fyrir þjóðina? Ekki er verið að leggja Þá á fólkið til gamans. Langt frá. Þegar hv. þm. ber saman toll á kaffi og gimsteinum, segir hann, að ósanngjarnt sé að tolla kaffið hærra og sykurinn. Getur vel verið. En ef lagður væri 1000% tollur á gimsteina og þess háttar, en enginn á kaffi og sykur, hver yrði þá árangurinn? Ríkissjóður mundi missa fulla milljón. (HG: Tollur á kaffi og sykri er áætlaður 850 þús. alls). Í reyndinni verður það á aðra milljón. Hvað verður úr því, sem ríkissjóður getur gert fyrir þjóðina, ef teóríum hv. þm. Ísaf. væri fylgt?

Hv. þm. sagði, að fleiri skattar væru óáræðanlegir en tekjuskatturinn, og benti á tekjur af áfengi. Um það má segja, að síðan lag komst á áfengisverzlunina, hefir hún gefið jafnar tekjur og allmiklar. Stafar það sennilega að nokkru af því, að fólk hefir undanfarið haft töluverð peningaráð, — en engu síður af hinu, að nú er miklu betri stjórn á henni en áður var. Ég sé ekki ástæðu til að deila um þetta. En það dugar ekki að líta eingöngu á þá hliðina, sem að gjaldendunum snýr, heldur líka á möguleikana til að fullnægja þörfum ríkissjóðs.