04.03.1931
Neðri deild: 15. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (1140)

8. mál, vitagjald

Pétur Ottesen:

Ég veit ekki, hve skýrsla sú nær langt, sem hv. 1. þm. S.-M. var með. (SvÓ: hún nær til 1928). Síðan eru þá liðin tvö ár, og fyrra árið a. m. k. var vitagjaldinu ekki öllu varið á þennan hátt. Ekki svipað því.

Ég get ekki fallizt á þá skoðun hv. frsm., að ekki sé talsverður eðlismunur á orðunum „vitagjald“ eða „gjald til vita“ o. s. frv., enda þótt gjaldið í báðum tilfellum renni í ríkissjóðinn. Með orðunum „gjald til vita“ hlýtur meiningin að vera sú, að þessu gjaldi eigi einungis að verja til vita og annars þess, sem þar er talið og er sama eðlis. Þó að vitagjaldið sé innheimt með öðrum tekjum ríkissjóðs og renni inn í ríkissjóðinn, þá er alveg jafnréttmætt að ákveða það, að því skuli öllu varið á þennan sérstaka hátt, og eftir orðalagi frv. eins og það er nú, þá er þar tvímælalaust svo fyrir mælt, að þessu gjaldi skuli öllu verja á þennan hátt.

Ég held því ekki fram, að árlegar framkvæmdir eiði endilega að miða við upphæð vitagjaldsins t. d. næsta ár á undan. Það getur verið fyllilega réttmætt að verja eitt ár meira, en annað ár minna til þessara framkvæmda. Það fer eftir því, hvað hagkvæmast kann að þykja á hverjum tíma, hvernig þeim framkvæmdum er hattað, sem unnið er að. En þess ber að gæta, þegar öllu er á botninn hvolft, að þá sé a. m. k. öllu vitagjaldinu varið til þessara hluta.