27.03.1931
Neðri deild: 35. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í C-deild Alþingistíðinda. (1189)

155. mál, verksmiðja til bræðslu síldar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég gerði ekki ráð fyrir að taka til máls við þessa umr., enda hafði ég ekki búizt við, að hv. flm. léti sér sæma að flytja aðra eins ræðu og þá, sem hann var nú að ljúka við. Hann hefir uppi harða ádeilu á síldarverksmiðju ríkisins, sem út af fyrir sig er leyfilegt, en um leið gerir hann sig sekan í þeirri fáheyrðu ósvinnu að bera fyrir sig tölur, sem gripnar eru úr lausu lofti og eru ekkert annað en ágizkanir. Og á þessum tölum byggir hv. þm. svo ádeilu sína. Hv. þm. veit það ósköp vel sjálfur, að hann fer hér með fleipur og staðlausa stafi og ágizkanir út í loftið, enda ber orðalagið: „ætla ég“, „býst ég við að sé“, „hygg ég“ o. s. frv. vitni um það, og þó sérstaklega það, að hann að síðustu heimtar reikningsskil, sem hann hefði ekki þurft, ef hann tryði á skýrslu sína. Með því viðurkennir hann, að skýrsla hans sé ekki ábyggileg. (ÓTh: Eru tölurnar ekki réttar?). Þær eru vafalaust rangar, svo sem bráðlega mun koma á daginn. Hv. þm. getur ekki ætlazt til, að ég hafi allar tölur og upplýsingar viðvíkjandi þessum rekstri á takteinum fyrirvaralaust, og sízt þar sem skýrslur fyrirtækisins eru ekki enn komnar í stjórnarráðið. En það rétta hjá hv. þm. var það að krefjast þess, að n. fái full reikningsskil verksmiðjunnar í hendur, og það mun hún fá innan fárra daga. Þá mun það upplýsast, að hv. 2. þm. G.-K. hefir hlaupið á hundavaði með útreikninga sína. Hann hefði því vel getað beðið í nokkra daga með þessa speki sína, til þess að spara sér þá raun að verða staðinn að röngum og villandi skýrsluflutningi hér innan vébanda Alþingis. Annars skal ég ekki fara út í einstök atriði þessa máls, fyrr en fullar og óyggjandi tölur liggja fyrir um þetta efni.

Hv. 2. þm. G.-K. talaði um það, að engin stj. né eftirlit hefði verið með bygging verksmiðjunnar. Þetta er tilhæfulaust með öllu. Landsstjórnin fól einum manni þetta eftirlit, manni, sem mjög vel var verkinu vaxinn og kunni auk þess margföldunartöfluna mun betur en sá flokksbróðir hv. þm., sem eitt sinn var fenginn til að starfa að undirbúningi verksmiðjubyggingarinnar. (MG: Þunnt argument!). Já. jæja, mér finnst nú, að ekki sé til of mikils mælz, þótt háskólagengnir, hálærðir verkfræðingar, sem sig út fyrir sérfræðinga og þykjast sitja inni með alla veraldarinnar vizku, geti a. m. k. margfaldað saman 5 og 19, svo að treystandi sé, sérstaklega þar sem heildarútkoma rannsóknarinnar skyldi byggjast á þessari margföldun. Maður skyldi því gjalda varhuga við útreikningum hv. 2. þm. G.-K., viðvíkjandi þessari stofnun, þar sem hann mun um flesta hluti standa hv. 1. landsk. að baki að gáfum, auk þess sem hann byggir útreikninga sína alls ekki á raunverulegum grundvelli, heldur ágizkunum einum. Annars var það rétt hjá honum, að það fór svo með þessa verksmiðju sem aðrar verksmiðjur í þessari grein, að hún varð fyrir stórkostlegu áfalli á árinu, vegna þess hve lýsið seldist illa, því að verðmunur lýsisframleiðslu verksmiðjunnar nam mörgum hundruðum þús. frá því, sem var, þegar verksmiðjan var sett á fót, og þar til lýsið var selt; svo að það þarf engan að furða, þótt verksmiðjan hafi orðið hart úti af þessum sökum. En hversu tapið nemur miklu á árinu, get ég ekki sagt að svo stöddu, fyrr en skýrslur verksmiðjustj. eru komnar mér í hendur, en sennilegast þætti mér samt, að þá tölu mætti margfalda með miklu hærri tölu en 5, til þess að fá út þá útkomu, sem hv. 2. þm. G.-K. fékk með útreikningum sínum. En það mun nú allt koma á daginn sínar. Hv. þm. hefir réttilega heimtað reikningsskil, og þau munu verða lögð fram, og hefðu verið lögð fram, hvort sem krafa hefði fram komið um það eða ekki.

Hv. 2. þm. G.-K. lét sér þau orð um munn fara, að stjórnmálaskoðanir og atvinnuþörf hefðu ráðið mestu um mannaval í stj. fyrirtækisins. Landsstjórnin skipaði ekki nema einn mann í stj. verksmiðjunnar (ÓTh: Réð þeim öllum.), og um þann mann get ég sagt, að ég hefi ekki hugmynd um, hvaða stjórnmálaskoðanir hann hefir, en hitt veit ég, enda hefir það reynzt svo, að maður sá er vel hæfur til þessara starfa. Hann hafði áður verið trúnaðarmaður fjölda smábátaútgerðarmanna á Suðurlandi, m. a. margra kjósenda hv. þm. Borgf., og það mun ekki ofmælt, að hann hafi notið fulls trausts þeirra, og það að maklegleikum. Þessi staðhæfing hv. 2. þm. G.-K. er þess vegna alveg út í loftið. Sama er að segja um þá fullyrðing hv. þm., að verksmiðjan hafi haft fé af bændum. Slíkt er svo fjarri öllu viti, að naumast er svara vert. Bændur áttu þess kost að fá mjöl hjá verksmiðjunni þannig, að verðið yrði ákveðið eftir á, en þeir óskuðu ekki eftir því að nota sér ákvæði laganna, heldur leituðu tilboða annarsstaðar. Ég tel víst, að S. Í. S. hefði keypt mjöl af „Kveldúlfi“, ef það hefði komizt þar að betri kjörum, og er slíkt mjög að vonum.

Að endingu vil ég benda á eitt atriði í frv. á þskj. 155, sem sérstaklega þarf athugunar við. Það er vitanlegt, að Siglufjarðarkaupstaður hefir lagt stórfé í verksmiðjuna, en vitaskuld með því fororði, að hann fengi einhverja íhlutun um stj. fyrirtækisins, sem reyndar er alveg sjálfsagt og sanngjarnt. Ég ætla, að framlag Siglufjarðar til verksmiðjunnar nemi hátt á þriðja hundrað þús. kr., og ég vil benda hv. þdm. á, að fyllsta sanngirni mælir með því, að kaupstaðurinn fái einhvern íhlutunarrétt, e. t. v. ekki eins mikinn og nú er, en í öllu falli einhvern.