08.04.1931
Efri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (1250)

8. mál, vitagjald

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Við 2. umr. þessa máls hér í þessari hv. d., var samþ. brtt., sem ég flutti, þess efnis, að í staðinn fyrir orðin: „Gjald til vita, sjómerkja og mælinga siglingaleiða“, komi aðeins „vitagjald“, og færði ég ástæður fyrir þessari breyt. við 2. umr. málsins, og hv. deild mun hafa fallizt á þær ástæður og samþ. brtt. mína þess vegna. Nú hefir þessu atriði frv. verið breytt aftur í sama horf og það áður kom frá hv. Nd. Flyt ég því brtt. hér á þskj. 338 um að færa það aftur í sama horf.

Ég hefi ekki getað fundið, að réttmætt væri að víkja frá þeirri afstöðu, sem þessi hv. d. tók, og í annan stað finnst mér ekki rétt að binda gjaldskylduna við það, til hvers gjaldið yrði notað. — Hitt er innan handar, að gera ákvörðun um það, að ámóta fjárhæð eins og gjaldliðnum nemur skuli notuð til þeirrar fyrirgreiðslu siglinga, sem átt er við.

Ég hefi veitt því eftirtekt, að í frv. til 1. um vitabyggingar er samskonar ákvæði og ætlazt er til að sé í þessum l., og í slíkri löggjöf á slíkt ákvæði auðvitað heima. En það er ekki viðeigandi, sérstaklega þegar um er að ræða gjöld, sem útlendingar eiga við að búa, að binda gjaldskylduna við það, til hvers gjaldið verði notað. má þá búast við eilífum umkvörtunum frá útlendingum um að þetta sé ekki að fullu notað eftir fyrirmælum þessara laga.

Ég held því, að rétt sé að færa frv. í sama horf og það áður var, þó að afleiðingin verði sú, að frv. verði að fara í sameinað þing. — Ber ég því fram till. þess efnis.

Ég skal taka það fram, að þetta atriði er verulegasta breytingin, sem þetta frv. gerir á núgildandi löggjöf. Það er að vísu svolítil efnisbreyt. eftir till. fjhn. þ. e. að fella niður lagmark gjaldsins, en að öðru leyti kemur þetta frv. í stað gildandi löggjafar, án þess að gera neinar teljandi breytingar. Þó að hrakningur frv. til sameinaðs þings yrði því til þess að fella það, er ekki svo mikill skaði skeður, því að ákvæðin um þessi mál eru öll til í lögum, nema þessi, sem ég nefndi, og halda þau gildi sínu til 1932. Ég mun ekki geta greitt frv. atkv. með þeirri skilorðsbundnu gjaldskyldu, sem á því er.