11.04.1931
Neðri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í C-deild Alþingistíðinda. (1381)

38. mál, hafnargerð á Akranesi

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég ætlaði að leiða hjá mér umr. um þetta mál, því það má heita þrautrætt. Það, sem deilt er um er það, hvað hátt framlag ríkissjóðs skuli vera. Ég þarf ekki að skýra afstöðu mína hvað það snertir; um það hefir svo oft verið rætt síðan ég kom á þing. Ég hefi verið og er á móti því, að framlög til hafnargerða séu hækkuð upp í 2/5. Mér er fyllilega ljóst, að hafnargerðir eru svo mikilsverðar fyrir þjóðina, að þær ber að styrkja eftir því, sem ástæður leyfa. En til þess að hægt sé að sinna kröfum sem flestra, vil ég halda við þá reglu, að ríkið leggi fram 1/3 kostnaðar.

Víðsvegar af landinu koma kröfur um hafnargerðir, og ég álit, að ekki sé hægt að fresta þeirri kröfum af hálfu þings og stjórnar. því hefi ég bundið mig við þá reglu, sem áður hefir gilt, að framlag ríkissjóðs væri 1/3. Ég geri engan greinarmun á því, hver staðurinn er, sem þarf að láta byggja höfn, því allir hafa þeir jafnmikinn rétt til að krefjast hafnarbyggingar. En ég geri greinarmun á því, hvar þörfin er mest. Og ég skal játa það með hv. þm. Borgf. og fleirum, að þörfin sé mest á Akranesi, og það hefi ég allt af viðurkennt. Þó að ég hafi ekki verið tíður gestur þar, þá hefi ég þó komið auga á nauðsynina. Ég benti á þetta á síðasta þingi og skal því ekki fjölyrða frekar um það. En þær till., sem minni hl. bar fram þá, voru öðruvísi en nú, sérstaklega að því leyti, að ábyrgðarheimildin var að 2/3 hlutum af hálfu ríkisins, en 1/3 hluta af hálfu sýslufélaganna. Ég viðurkenni þau rök, sem færð voru fyrir því, að sýslufélögin geti ekki annast ábyrgðina að nokkru leyti, og tel ég það rétt, að ríkið eigi að bera alla ábyrgðina. Þess vegna hefi ég skrifað undir það, að ríkisábyrgðin væri 2/3 hlutar af kostnaði fyrirtækisins. Mér skilst á hv. flm., að eins og nú standa sakir, sé aðalatriðið að fá hafnarlög. Ég verð að viðurkenna, að þetta sé rétt og mikils virði sé fyrir þessi pláss að fá hafnarlög, til þess að innheimta geti farið fram á þeim gjöldum, sem lögin ætlast til. Ég ætlast til, að þetta sé svo veigamikið atriði, að allir þeir hv. þm., sem hlut eiga að máli, megi vera fullsæmdir af því, að frv. gengi fram með þeim framlögum frá ríkinu, er við í minni hl. leggjum til. Nú er vert að athuga eitt, sem ég hefi séð, en ekki talið fært að gera brtt. um, sökum þess að í nefndinni eins og á stóð var ekki hægt að fá fylgi með. Það er aðeins heimild fyrir þessu fé, samkv. frv., þegar fé er veitt í fjárlögum. Ef hv. flm. vill vera með mér í því, að fram skuli vera lagt 1/3, þá skal ég vera með honum í því, að það sé skilyrðislaust, að plássin geti fengið féð strax, eða þegar þörfin er hjá þeim — m. ö. o., að heimildarákvæðið falli niður, á sama hátt og lögin hljóða um hafnargerð í Hafnarfirði.

Að málið náði ekki fram að ganga á síðasta þingi, má hv. þm. sjálfum sér um kenna. Það var ekki eftir nema ein umr. um málið í Ed. Þá gerði hv. þm. (PO) og hans flokkur bandalag við stjórnarflokkinn um að láta málið ekki ná fram að ganga ásamt öðrum málum, er líkt stóð á um, frá okkur jafnaðarmönnum, svo sem tóbakseinkasalan og fl., og þinginu þar með slitið. (PO: Þetta eru margendurtekin hrein og bein rakalaus ósannindi). Nú segir hv. þm., að höfnin á Akranesi geti rúmað helmingi stærri skipaflota og mikið meira en það, ef byggð verði. Þá lít ég svo á, að á Akranesi sé betur hægt að standa straum af útgjöldum við höfnina en sumstaðar annarsstaðar. Sauðárkrókur hefir t. d. ekki eins góð skilyrði til að standa straum af hafnarkostnaði og Akurnesingar. Það verður að taka tillit til þess, hvernig plássið er úr garði gert til þess að standast þann kostnað, sem það á að bera.

Hv. þm. segir, að ósamræmi sé hjá mér með orðin lendingarbætur og hafnarbætur. Ég hefi alltaf gert greinarmun á þeim orðum. Lendingarbætur eru gerðar í smáplássum, bar sem engir möguleikar eru til að standa straum af miklum hafnarkostnaði, og þar er um minni fjárupphæð að ræða. Þó þær standi ekki í fjárlögum, þá eru þær veittar úr ríkissjóði samt sem áður. Flest tillögin eru meir en helmingur úr ríkissjóði, með þeim framlögum, er Fiskifélag Íslands leggur til. Á Akranesi er sá hluti landsins, sem kemur til að komast fyrst í not og sem liggur bezt að mannvirkinu, einstakra manna eign. Þrír menn eiga það land að mestu. Allmargir Akurnesingar vilja láta hreppinn fá heimild til þess að eiga landið. En ég veit, að hv. þm. segir það satt, að meiri hl. Akurnesinga er á móti þessu. Við vitum, hverskonar skoðanir eru ríkjandi þar. En það ber ekki allt upp á sama daginn; áður en okkur varir geta skoðanirnar breytzt. því er rétt að heimila þetta í lögum.