05.03.1931
Neðri deild: 16. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

79. mál, lögtak og fjárnám

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég er því á engan hátt mótfallinn, að n. athugi, hvort ekki sé rétt að rýmka svo ákvæði frv., að það taki líka til sveitanna. En ég er ekki viss um, að það sé nauðsynlegt eða heppilegt, nema þá að birtingarfresturinn sé hafður lengri, a. m. k. hálfur mánuður.

Ég vildi ekki láta þessi ákvæði ná til þeirra þorpa, sem hafa færri en 300 íbúa. Íbúar stærri kauptúna stunda oftar atvinnurekstur þar í kauptúninu, en íbúar litlu kauptúnanna eiga erfiðari aðstöðu að því leyti, að þeir verða að leita sér atvinnu hér og þar utan kauptúnsins. Þeir geta því farið algerlega á mis við birtinguna. Fyrir vestan er það svo víða, að menn koma ekki heim fyrr en á haustin, kannske ekki fyrr en síðari gjalddagi er liðinn. Það gæti því verið óhentugt, að þessi ákvæði giltu þar, sem þannig stendur á, og þess vegna vildi ég ekki ganga lengra en ég gerði í frv.