13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í C-deild Alþingistíðinda. (1462)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Magnús Guðmundsson:

Það eru aðeins örfá orð. Hæstv. forsrh. hefir misskilið það, sem ég sagði um pólitískt sjálfsmorð. Ég talaði ekki um það í sambandi við mig sjálfan, heldur Sjálfstæðisflokkinn. Ég vildi sýna fram á, að stjórnmálaflokki, sem hefir helming af atkvæðamagninu í sveitum, getur ekki dottið í hug að eyðileggja aðstöðu sína með því að vinna að breyt. á kjördæmaskipuninni í þá átt að gera atkv. þar áhrifalaus.

Um það, hvort ég muni falla við næstu kosningar eða ekki, finnst mér ekki ástæða til að ræða hér. En þær fregnir, sem ég fæ frá flokksmönnum hæstv. ráðh., benda á það, að ég þurfi ekki að vera hræddur um, að ég falli.

Það er rétt hjá hæstv. forsrh., að við höfum báðir farið hvor um annars kjördæmi. Slíkt er öllum frjálst. En ég gæti í góðu tómi talað dálítið um það við hæstv. ráðh., hvernig hann fór að því að „agitera“ gegn mér í Skagafirði. T. d. hefir maður þaðan að norðan, sem hæstv. ráðh. vissi að var mjög ákveðinn fylgismaður minn, sagt mér að hæstv. ráðh. hafi gagnvart sér agiterað gegn mér á þennan hátt: Þið megið ekki „spandera“ Magnúsi Guðmundssyni í það að vera þm., því hann er tilvalinn hæstaréttardómari. (Forsrh: Þetta hefi ég aldrei sagt). Þetta sagði mér nú samt einn af frændum hæstv. ráðh. í Skagafirði.