27.02.1931
Neðri deild: 11. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í C-deild Alþingistíðinda. (1473)

47. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Aðalbreytingarnar, sem þetta frv. fer fram á, að gerðar verði á núgildandi l. um tekju- og eignarskatt, eru þær, sem ég nú skal greina, og er þá um leið sagt frá þeim mun, sem er á mínu frv. og frv. hæstv. stj.:

1. að fella lágtekjumenn með fjölskyldur undan skatti með hækkun persónufrádráttarins og lækka á sama hátt á miðlungstekjumönnum.

2. að hækka skattana á háum tekjum og eignum.

3. að láta sama skattstiga gilda fyrir félög — nema samvinnufélög — og einstaklinga, en mismuna í frádrætti.

4. að hafa persónufrádráttinn mismunandi eftir dýrtíðinni í landinu.

5. að varasjóðstillag samvinnufélaga sé skattfrjálst og viðskiptauppbætur til meðlima.

6. að félagsiðgjöld og sjóðatillög meðlima í stéttarfélögum dragist frá við ákvörðun skattskyldra tekna.

7. að setja megi sérstakar reglur um innheimtu skattsins og sölu skattmerkja og að taka skuli 1% dráttarvexti á mánuði.

8. að heimila bæjar- og sveitarfélögum að hækka tekjuskattinn um 50% til sinna þarfa, og fái þau þá jafnframt 1,3 eignarskattsins.

Í þessum atriðum, sem ég nú hefi talið, er frv. mitt frábrugðið gildandi l. og frv. hæstv. fjmrh.

Ákvæði frv. um að heimila að hækka eða lækka skattinn um 25% með fjárlagaákvæði, og sömuleiðis ákvæði frv. um ríkisskattanefnd og ríkisskattstjóra, eru eins og í frv. stj.

Ákvæði frv. um frádrátt útsvara eru eins og í gildandi 1., en að nokkru leyti frábrugðin frv. stj.

Auk þessa, sem nú er talið, gerir frv. ráð fyrir lengri framtals- og kærufresti hér í Rvík en annarsstaðar á landinu. Er þetta gert í samræmi við tilskipun, sem nú er í gildi um þetta efni.

Skal ég nú víkja örfáum orðum að nokkrum þessara atriða, hverju fyrir sig.

Hvað fyrsta atriðið snertir, að fella lágtekjur undan skatti, þá er á það tvennt að líta, hverjir og hve margir landsmenn njóti góðs af þessu og hve mikinn tekjumissi þetta hefir í för með sér fyrir ríkissjóð. Samkv. skattskránum hafa verið um 25–26 þús. skattgreiðendur hér á landi undanfarið, og fækkar þeim eftir till. mínum um 9000, eða ca. 36%. Eru þetta eingöngu fjölskyldumenn með lágar tekjur. Stafar þessi fækkun gjaldenda af hækkun persónufrádráttarins. Skattskyldar tekjur minnka vegna frádráttarins um ca. 7 millj. kr., en skattupphæðin í heild sinni ætti þó ekki að lækka nema tiltölulega lítið, vegna þess að þessir gjaldendur lenda allir á lægstu þrepum skattstigans. Það hefir því nær enga þýðingu fyrir ríkissjóð, hvort heldur þessi skattur er tekinn eða ekki. Hinsvegar er það í fullu ósamræmi við anda og tilgang tekjuskattslaganna að leggja skatt á tekjur, sem ekki nægja mönnum til að draga fram lífið.

Viðvíkjandi öðru atriðinu, að hækka til muna skattinn á hátekjum, og þó sérstaklega eignum, vil ég leyfa mér að gera nokkurn samanburð á frv. mínu og gildandi l., en verð þó fyrst að geta þess, að skattskyldar tekjur eru ekki sambærilegar eftir mínu frv. og gildandi l., vegna þess að persónufrádrátturinn verður miklu meiri samkv. mínu frv. 5000 kr. skattskyldar tekjur eftir mínu frv. svara þannig til 6500 kr. skattskyldra tekna hér í Reykjavík eftir núgildandi l. og 9000 kr. nettótekna. Af 5000 kr. er tekjuskatturinn nú 112 kr., en verður samkv. mínum till. 250 kr. Af 10000 kr. er hann 462 kr., en verður 900 kr. eftir mínu frv. Af 30000 kr. er skatturinn nú 3887 kr., en verður 5000 kr. eftir till. mínum. Af 50 þús. kr. er skatturinn nú 8337 kr., en verður samkv. mínum till. 10800 kr. Ef borinn er saman skattur af 50 þús. kr. skattskyldum hér og í öðrum löndum, verður hann sem hér segir:

— Í Svíþjóð 3910 s. kr.

— Noregi 5560 n. kr.

— Danmörku 4912 d. kr.

— Þýzkalandi 11500 ríkism.

— Englandi 9925 sh.

— frv. mínu 10800 kr.

Samkv. mínu frv. verður skatturinn mitt á milli þess, sem er í Englandi og Þýzkalandi. Hæstur getur skatturinn eftir mínu frv. orðið 40%, af því sem er umfram 100 þús. kr. skattskyldar, en stighækkandi aðeins upp að 100 þús. kr. tekjum. Eftir gildandi 1. getur hann mest orðið 26%. í Þýzkalandi getur skatturinn mest orðið 40%, í Englandi 50%, í Noregi 50%, í Svíþjóð 25,5% og í Danmörku 25%.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þessar till. til hækkunar á tekjuskattinum. Menn geta af þessu gert sér grein fyrir, hve mikil hækkunin er frá gildandi l. og hve réttmæt hún er. Ég tel hækkunina sízt of mikla. Ef ekki er miðað við skattskyldar tekjur, heldur nettótekjur, verður samanburðurinn allur annar. Fyrir fjölskyldumann hér í Reykjavík, sem hefir fyrir konu og þrem börnum að sjá, verður skatturinn sem hér segir:

Af 3000 kr. samkv. gildandi lögum 3.00 kr., en enginn eftir mínu frv.

3500 — — — —7.00 — — —

— 4000 — — — —14.50 — — —

— 4500 — — — —22.00 — —7.50 kr.—

— 5000 — — — —32.00 — —15.00 —

— 6000 — — — —57.00 — —40.00 —

— 7000 — — — — —92.00 — —90.00 —

Sést af þessum samanburði, að skattur af tekjum undir 7000 kr. lækkar mjög mikið, en hinsvegar hækkar hann líka mikið af 12–100 þús. kr. tekjum, enda þola slíkar tekjur vel að vera skattaðar.

Um það ákvæði frv. að samræma skattstiga félaga og einstaklinga sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum. Eins og l. nú kveða á um þetta, er skattur hlutafélaga ákveðinn eftir hlutfallinu milli arðs og hlutafjár félaganna, og kemur þetta mjög ranglátlega niður á þeim félögum, sem hafa lítið hlutafé. Ef tvö félög, annað með lítið hlutafé, 10–20 þús. kr., hitt með mikið hlutafé, t. d. 200 –500 þúsund, hafa nákvæmlega sömu upphæð í skattskyldar tekjur, á félagið, sem hefir lítið hlutafé, að greiða margfaldan skatt á við stóra félagið. Ákvæði frv. ganga í þá átt að jafna þetta. Nær vitanlega engri átt annað en að af sömu skattskyldum tekjum sé greiddur sami skattur, hvort heldur sem í hlut eiga félög, stór eða lítil, eða einstaklingar. Því fer og fjarri, að stærri hlutafélögin verði hart úti eftir frv. Áður en skattskyldar tekjur þeirra eru ákveðnar er þeim heimilt að draga frá útsvar og tekjuskatt, 4% vexti til hluthafa, 1/3 varasjóðstillagsins, auk alls rekstrarkostnaðar og vaxta.

Um persónufrádráttinn er það að segja að hann er nú 500 kr. fyrir persónu, hvar sem er á landinu. Samkv. frv. mínu verður hann, miðað við 5 manna fjölskyldu: Í Reykjavík 4000 kr., í kaupstöðum 3300 kr. og annarsstaðar á landinu 2600 kr. Ég vil ekki halda því fram, að þetta sé fullkomlega sniðið eftir dýrtíðinni eins og hún er á hverjum stað, enda er erfitt að koma slíku við. En það sér hver maður, hve miklu dýrara er að lifa hér í Reykjavík en annarsstaðar á landinu, og yfirleitt er dýrara að lifa í kaupstöðum en í sveitum.

Eins og ég sagði áður, er persónufrádrátturinn samkv. gildandi 1. 500 kr., eða 2500 kr., miðað við 5 manna fjölskyldu. Sé litið til annara landa til samanburðar, verður hann sem hér segir, allt miðað við fimm manna fjölskyldu:

í Englandi 7480 sh.

Þýzkalandi 2160 ríkism., og nokkuð breytilegur eftir tekjunum.

í Noregi 2800 n. kr.

— Danmörku 2500 d. kr.

— Svíþjóð 2400 s. kr.

Um það ákvæði frv., að varasjóðstillag samvinnufélaga skuli vera skattfrjálst, get ég sömuleiðis verið stuttorður. Varasjóðstillag samvinnufélaga er lögboðið og skal verja því í ákveðnu augnamiði, ef félögin leysast upp, og aldrei má úthluta varasjóði til félagsmanna. Hér er heldur ekki um félagsskap að ræða, sem rekinn er í gróðaskyni, og er því með öllu rangt að leggja skatt á þetta gjald.

Um ákvæði frv. um það, að skipuð verði ríkisskattanefnd og ríkisskattstjóri, hefi ég ekkert sérstakt að segja, en get vísað til frv. stj. og grg. þess.

Nýmæli er það í frv., að fjmrh. er þar heimilað að setja sérstakar reglur um innheimtu skattsins, svo sem að gjalddagar skuli vera fleiri en einn á ári, um tilbúning og sölu skattmerkja og þess háttar. Leiðir það af sjálfu sér, að ef skatturinn er hækkaður eins og lagt er til í frv. mínu, getur verið um það háar upphæðir að ræða, að gjaldendur eigi erfitt með að greiða þær allar í einu. Er því gott að hafa gjalddaga fleiri en einn á ári og að gefa út og selja skattmerki, sem menn geta keypt, þegar þeir hafa peninga, og þannig dregið saman upp í skattinn. Sjálfsagt væri og að selja merkin í öllum sparisjóðum, bönkum, pósthúsum og símastöðvum og ef til vill viðar.

Þá skal ég víkja að 57. gr. frv. nokkrum orðum. Þar er sveitar- og bæjarstjórnum heimilað að leggja 50% viðauka á tekjuskattinn til sinna þarfa, og skulu innheimtumenn kalla viðaukann inn með skattinum til ríkissjóðs og standa bæjareða sveitarstjórnum skil á honum, og að auki 1/3 eignarskattsins. Í raun réttri mælir margt með því, að leggja á og innheimta í einu lagi þá skatta til ríkis og héraða, sem hvíla á einum og sama skattstofni, en svo er um tekju-og eignarskatt og mikinn hluta útsvaranna. Eignir og tekjur eru þar sameiginlegur skattstofn beggja. Og eignir og tekjur yfir því lágmarki, sem þarf til lífsframdráttar, eiga og að bera allan skattaþungann. Ég hefi þó eigi viljað leggja til, að slík lög yrðu sett um tekjustofna sveita og bæja að þeim fornspurðum. Taldi réttara til að byrja með að leggja þetta í vald hlutaðeigandi héraðsstjórna.

Í frv. mínu fer ég því aðeins fram á það, að bæjar- og sveitarstjórnum sé heimilað að hækka skattgjaldið um 50% og fá 1/3 eignarskattsins um stundarsakir, þ. e. meðan Alþingi hefir ekki dregið úr kostnaði héraðanna af fátækraframfæri með alþýðutryggingum eða verulegum breytingum á fátækralögunum.

Þetta er það, sem ég tel ástæðu til að segja um hin einstöku atriði frv. En þótt ég hafi gert það áður, þá þykir mér hlýða að drepa nú einnig á það, hver heildarniðurstaðan myndi verða fyrir ríkissjóð, ef frv. þetta yrði að lögum.

Tekju- og eignarskattur hefir undanfarin ár numið um 10% af tekjum ríkissjóðs. Samkv. þessu frv. mundi hann nema um 19%. Skatturinn samanlagður hefir undanfarið numið um 3,5% af skattskyldum tekjum landsmanna til uppjafnaðar. Samkv. frv. mínu myndi hann nema 6,5%–7% af skattskyldum tekjum til uppjafnaðar.

Tollar á lífsnauðsynjum nema nú um 10% af lágtekjum manna. Virðist því vægilega að farið, þótt til uppjafnaðar sé tekið til ríkissjóðs 7% af þeim hluta teknanna, sem er yfir skattfrelsislágmarkinu. Og það eins þó að þess sé gætt, að til viðbótar þurfi að leggja á allt að því tvöfalda þessa upphæð til þess að standast tekjuþörf sveitar- og bæjarfélaga, sem hingað til hefir verið fullnægt með útsvörum.

Hv. þdm. til glöggvunar skal ég gera samanburð á því, hvernig háar tekjur og lágar tekjur eru skattlagðar samkv. núgildandi skattalöggjöf. Skal ég þá taka eftirfarandi dæmi:

Við getum hugsað okkur þrjá menn búsetta í Reykjavík, sem allir eiga fyrir fimm manna fjölskyldu að sjá. Sá fyrsti hefir 3000 kr. tekjur, annar 12500 kr. tekjur og sá þriðji 15000 kr. tekjur.

Sá fyrsti, sem hefir 3000 kr. tekjur, borgar 3 kr. í tekjuskatt og 300 kr. í tolla af nauðsynjavörum. Það er samtals 303 kr., eða 10,1 % af tekjum hans.

Sá næsti, sem hefir 12500 kr. tekjur, borgar 462 kr. í tekjuskatt, en þarf ekki að borga nema 300 kr. í tolla, ef hann lifir jafnspart og sá fyrst taldi. Það eru alls 762 kr., eða 6,1% af tekjum hans.

Sá þriðji, sem hefir 1500 kr. tekjur, þarf heldur ekki að borga nema 300 kr. í tolla af nauðsynjavörum — auðvitað getur hann eytt meiru, ef hann vill. í tekjuskatt greiðir hann 732 kr. Það verða samtals 1032 kr., eða 6,8% af tekjum hans.

Niðurstaðan verður því sú, að sá, sem hefir aðeins 3000 kr. tekjur, greiðir a. m. k. 50% hærra hundraðsgjald af tekjum sínum en hinir, sem hafa 12–15 þús. kr. tekjur og sömu heimilisástæður.

Fimm fjölskyldumenn, sem þannig eiga alls fyrir tuttugu og fimm mönnum að sjá, og hafa 3000 kr. tekjur hver, eða alls 15000 kr., þurfa alls að greiða í tolla og skatta 1515 kr. En einn maður með fimm manna fjölskyldu og 15000 kr. tekjur, þarf ekki að greiða nema 1032 kr. Hann borgar því 483 kr. minna í ríkissjóðinn en hinir 5, sem samtals hafa fyrir 5-falt fleiri að sjá og samtals hafa sömu tekjur.

Ég vil nú leyfa mér að spyrja: Hvaða réttlæti er í þessu? Svarið getur ekki orðið nema á einn veg. Þetta er ranglæti. Ætlar hv. deild enn að lögfesta það?

Mér þykir rétt að gefa stutt yfirlit yfir, hversu styrkur er sá skattstofn, tekjur og eignir landsbúa, sem skattur þessi hvílir á.

Samkvæmt skattskýrslum fyrir árin 1924–’27 voru skattskyldar tekjur 35– 40 millj. til uppjafnaðar hvert ár og skattskyldar eignir um 100 millj. kr. En á þeim árum, sem síðan hafa liðið, hafa bæði tekjur og eignir aukizt að mun, sérstaklega í Reykjavík. Samkv. skattskýrslum Reykjavíkur fyrir árin 1929–’30 hafa skattskyldar eignir þar numið um 55 millj. kr., og skattskyldar tekjur um 28 millj. kr. Má því telja víst, að á næstu árum muni þessi tekjustofn verða mun hærri en árin 1924–’27, bæði vegna aukninga eigna og tekna og betra eftirlits með skattaframtali.

Eftir frv. þessu má gera ráð fyrir, að skatturinn yrði ekki minni en 2 millj. 200 þús. kr. á næstu árum. Nemur hann þá um 6,5–7% af skattskyldum tekjum, eftir að frá hefir verið dregið fyrir auknum persónufrádrætti.

Ég geri ráð fyrir, að tekjuauki ríkissjóðs samkv. frv. muni nema um 1 millj. í grg. þeirri, sem fylgdi frv. í fyrra, var gert ráð fyrir, að hækkun þessi myndi nema um 850 þús. kr. Var sú upphæð miðuð við skattskýrslur áranna 1924– 1927, en eins og ég hefi áður tekið fram, hafa bæði skattskyldar tekjur og eignir vaxið stórum síðan samkv. framtalsskýrslum. Og ef miðað er við meðalskatt árin 1924–’30, sem má telja mjög varlegt, þá má gera ráð fyrir, að tekjuaukinn muni nema rúmlega 1 millj. kr. Mun óhætt að gera ráð fyrir, að hann verði frekar meiri heldur en minni og hækki enn meir með vaxandi velmegun og betra eftirliti. Að vísu getur tekjuskatturinn orðið nokkuð misjafn frá ári til árs, en svo er um flesta skatta og tolla. Hinsvegar er eignaskatturinn allra skatta tryggastur, að undanteknum fasteignaskatti. í frv. er lagt til, að hann verði hækkaður um ca. 100%, og dregur það mikið úr sveiflum heildarskattsins frá ári til árs. Sama er um fasteignaskattinn, sem ég legg til að einnig verði hækkaður mjög, um ca. 600 þús. kr.

Þessir útreikningar eru aðallega byggðir á skýrslum og útreikningum, sem fyrrv. skattstjóri, Helgi P. Briem, lét mþn. í té.

Hvað viðvíkur sveitar- og bæjarfélögum, þá myndu skatttekjur þeirra, ef frv. yrði samþ. og þau notuðu sér heimildina til þess að hækka skattinn um 50%, nema 950–1000 þús. kr. Mætti þá lækka útsvörin, að öllu jöfnu, að sama skapi.

Ef þetta frv. og frv. það um fasteignaskatt, sem ég flyt jafnframt, yrðu samþ., myndu tekjur ríkissjóðs hækka um 1. millj. og 600 þús. kr. a. m. k. Mundi það nægja til þess, að hægt væri að lækka vörutoll og verðtoll samanlagða á nauðsynjavörum niður í 1%, eða í tilsvarandi gjald og útflutningsgjaldið til ríkissjóðs er nú, án þess að ríkissjóður missti við það neitt af tekjum sínum skv. fjárlagafrv. hæstv. stjórnar.

Ég ætla mér ekki að fara nú að rökræða um skattastefnur almennt, en vildi aðeins drepa á nokkur meginatriði þeirra mála.

Það er augljóst mál, að tollar á nauðsynjavörum, hvort heldur er til neyzlu, fatnaðar, nauðsynlegra húsa eða framleiðslu, hljóta að hækka vöruverðið að mun og auka þannig dýrtíðina í landinu. Hrökkvi þá ekki lágtekjurnar fyrir nauðsynjum, verða sveitarsjóðirnir að borga tollana eða það, sem til vantar, ef fólkið á ekki að líða beinan skort. Er því landsmönnum gerður hinn mesti bjarnargreiði með hinum háu tollum. Og dýrtíðin eykst enn meir vegna milliliðanna, sem leggja álagningu sína jafnt á tollaupphæðina eins og á innkaupsverðið. Nemur sú álagning oft 50% til 100%, t. d. af fatnaði og ýmsum vefnaðarvörum. Hinsvegar geta skattar, sem hvíla á háum tekjum, sem annaðhvort fara til ónauðsynlegrar eyðslu eða eru lagðar í sjóði, aldrei aukið dýrtíð í landinu.

Ekkert félag eða einstaklingur getur grætt fé án hjálpar og verndar þjóðfélagsins. Það tryggir mönnum gróðann og á því fullan rétt á að fá hlutdeild í gróðanum, og þá auðvitað því stærri, sem gróðinn er meiri.

Margir líta nú dökkum augum á framtíðina. Heimskreppan virðist nú vera að koma yfir oss. Ein leiðin til að verjast kreppunni og afleiðingum hennar er sú, að lækka tollana á nauðsynjavörum. Með því móti er hægt að létta af dýrtíðinni, draga úr atvinnuleysi og afleiðingum þess. Ef frv. mín um hækkun beinna skatta eru samþ., er hægt að lækka tollana um 2 millj. kr. a. m. k., miðað við innflutning 1926. Mundi það nema um 3 millj. kr. með álagningu verzlana í meðalári. Yrði það ekki lítill léttir fyrir alþýðu, sem úr litlu hefir að spila. Lækkunin yrði þá um 150 krónur til uppjafnaðar á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu, og langtum meiri fyrir verkafólk kaupstaðanna og einyrkja með stóran barnahóp.

Nú eru um 600 manns atvinnulausir í Reykjavík einni. Margir þeirra hafa verið algerlega atvinnulausir í 4–5 mánuði. Hvaða styrk veitir hið opinbera þessum mönnum? Ríkissjóður sér 25–30 manns fyrir vinnu og bærinn hefir haft um 90 menn í vinnu um lítinn tíma, en sagt allt að því jafnmörgum upp. Flestir þessara manna hafa enga hjálp. Sulturinn situr við þröskuld þeirra. Þeir, sem einhverja vinnu hafa, verða að greiða meir en 10% af því litla, sem þeir vinna sér inn, í tolla af nauðsynjavörum. Þeir, sem enga vinnu hafa, verða líka að greiða 10% af sinni eyðslu, þótt allt sé tekið að láni hjá verzlunum — eða fátækrasjóðnum. Það er eini styrkurinn, sem þjóðfélagið veitir þessum mönnum. — Er ekki kominn tími til að létta af þeirri svívirðingu, að ríkið láti þá greiða mest til opinberra þarfa, sem ekkert eiga og engra fríðinda njóta?

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv., en legg til, að því verði vísað til hv. fjhn.umr. lokinni.