28.02.1931
Neðri deild: 12. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í C-deild Alþingistíðinda. (1482)

54. mál, ábúðarlög

Hákon Kristófersson:

Ég ætlaði ekki að taka til máls við þessa umr. um þetta mál. En eins og nú horfir við get ég þó ekki stillt mig um að segja fá orð um það.

Frv. þetta er nú orðinn gamall kunningi í þessari hv. deild. Það er eitt þeirra mála, sem að tilhlutun hæstv. stj. hefir verið undirbúið af svokallaðri mþn. í landbúnaðarmálum, sem starfað hefir undanfarin ár.

Það er sýnt með flutningi þessa frv. nú, að hæstv. stj. hefir ekki viljað gera frv. þetta að sínu máli, þar sem hún hefir ekki sýnt því þá ræktarsemi að vilja sjálf flytja það. Þeir tveir mþn.-menn, sem sæti eiga hér, og annar er hæstv. forseti d., hafa því enn á ný flutt það. En nú kastar þó fyrst tólfunum, þar sem hv. flm. sjá enga ástæðu til þess að segja eitt einasta orð við þessa 1. umr., áður en málinu verður vísað til landbn. Er það harla lítil ræktarsemi hjá hæstv. forseta við sitt eigið afkvæmi. Ég sagði áðan, að sýnt væri, að stj. hefði ekki viljað gera þetta að sínu máli, þar sem hún ekki vill flytja það. Hvað boðar nú þetta? Það hlýtur að boða það, að hæstv. stj. hafi séð svo marga og mikla galla á frv., að hún hafi hvergi nærri því viljað koma. Ég get nú verið þakklátur hæstv. stj. fyrir þetta. Ég vil vona, að það boði það ennfremur, að sú óhamingja hendi aldrei þingið, að það samþykki þetta frv. í sömu mynd og það er nú.

Ég vil beina því til hv. landbn., sem væntanlega fær frv. til meðferðar, að hún athugi frv. vandlega og taki upp úr því, ef hún finnur eitthvað þess vert í frv. — og það hygg ég muni vera —, að því sé veitt fylgi og framgangur. Að vísu er það svo nú, að hið góða, sem í frv. er, hverfur algerlega fyrir göllunum, sem á því eru, en þó munu sum ákvæði í því vera til bóta.

Ég vil ekki í þetta sinn fara neitt inn á einstakar gr. frv. Ég hefi gert það áður, við 2. umr., þegar mál þetta var til umr. í þinginu síðast. Og þau ummæli mín standa algerlega óhrakin enn. Frv. þetta er óbreytt frá því, sem það lá fyrir síðasta þingi. Og eftir því, sem undirtektir voru þá, þá kemur mér það mjög á óvart, ef búið er nú að slá þá skjaldborg í kringum það, að það nái fram að ganga nú í lítið breyttri mynd. En ef svo væri nú, að lítil von væri til þess, að frv. nái fram að ganga vegna sinna mörgu og stóru galla, sem yfirgnæfa kostina, þá þykja mér þeir menn, er lýsa vilja góð um hug til alls sparnaðar, heldur hverfa í skuggann við að bera slíkt mál fram. Ef engin von er til að fá frv. samþ., þá er ekki svo litlu fé og fyrirhöfn á glæ kastað við að setja það inn í þingið, enda þótt kostnaður kunni að vera nokkru minni fyrir það, að frv. er óbreytt frá því, sem það var fyrir þinginu í fyrra.

Ég vil svo enda á því, að snúa máli mínu til n. og æskja þess, að hún verði vel á verði um það, að frv. verði ekki samþ. í óbreyttri mynd.