01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í C-deild Alþingistíðinda. (1643)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Héðinn Valdimarsson:

Það virðist þurfa að segja hæstv. dómsmrh. það tvisvar, að það eru ekki virkjanir í sveitum, sem fyrst hafa orðið áhugamál manna, heldur Sogsvirkjunin. Hún hefir verið á dagskrá í mörg ár. Eftir áætlunum um hana og annarsstaðar á landinu hafa menn komizt að raun um, að Sogsvirkjunin er vænlegust af þeim öllum, og að hana er hægt að framkvæma án rekstraryfirráða erlends fjármagns.

Ástæðan til þess, að þetta mál hefir ekki komizt í framkvæmd fyrr, er fyrst og fremst sú, að margvíslegar rannsóknir þurfti að gera, en þeim rannsóknum er nú lokið. Og í öðru lagi er þörf Rvíkur fyrir rafmagn orðin svo mikil, að á einhvern hátt verður að fullnægja henni.

Hæstv. dómsmrh. hefir hvað eftir annað sagt, að alls engar rannsóknir hafi verið gerðar um það, hvað það mundi kosta að leggja leiðslur til nærliggjandi staða En nú er hér í grg. við frv. um rafveitulánasjóð, sem við jafnaðarmenn berum fram, teknar fram nokkrar tölur um þetta. Lína frá Sogi til Eyrarbakka og Stokkseyrar og til Vestmannaeyja 1 millj. 120 þús. kr. Lína frá Mosfellssveit til Akraness 390 þús. kr. Lína frá Elliðaám suður á Reykjanes 520 þús. kr. Þetta eru samtals um 2 millj. kr. Þetta eru tölur, sem fengizt hafa við rannsókn raforkumálanefndar. Þeir sveitabæir, sem yrðu meðfram línunni, gætu og notið rafmagnsins, en á því svæði eru um 1/3 hluti af sveitabæjunum í þessum héruðum. Hvernig færi með sveitabæi, sem ekki eru meðfram línunni, er enn órannsakað mál, en þangað kemst varla rafmagn nema með styrk úr ríkissjóði. Hinum sem yrðu við línuna, ætti ekki að vera ofvaxið að greiða kostnaðarverð við innlagninguna og 10% að auki.

Með því hefi ég hrakið meginatriðið í ræðu hæstv. dómsmrh. um það, að sveitirnar í kring hafi ekkert gagn af Sogsvirkjuninni.

Þá kem ég að hinu atriðinu í ræðu hæstv. dómsmrh., en það er áhættan við að veita Rvík ábyrgð, og í öðru lagi, að Rvík geti sjálf tekið þetta lán í eigin nafni. Ég veit það að enginn þm. gengur þess dulinn, að Rvík getur varla fengið svona stórt lán nema ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir því. Hún getur vel fengið allstórt lán, en svona stórt lán er ólíklegt að hún fái.

Hæstv. dómsmrh. segir, að við þessa ábyrgð minnki lánstraust ríkisins um 7 millj. eða það, sem ábyrgðin nemur. Álítur hæstv. ráðh., að ekkert verði úr þessum peningum, þegar þeir eru komnir í Sogsvirkjunina, að lánstraust manna veikist mikið við að taka fé að láni, er þeir leggja það í arðvænleg fyrirtæki? Hér stendur Rvík á bak við og þar að auki fyrirtæki, sem allir útreikningar svona, að hlýtur að bera sig vel. Hvernig getur nokkrum manni dottið í hug, að lánstraust ríkisins minnki við þetta?

Hæstv. ráðh. talaði hvað eftir annað um það, að þessi ábyrgð mundi leiða af sér, að ríkissjóður yrði að ganga í ábyrgð fyrir önnur sveitarfélög. Heldur hæstv. ráðh., að ríkissjóður þurfi aldrei að taka lán aftur, þótt hann hafi tekið þetta brezka lán nú í vetur? Heldur hæstv. ráðh., að fé safnist framvegis innanlands, að aldrei þurfi að fá neitt lánsfé erlendis? Ég býst ekki við, að svo verði. Við erum lítil þjóð í stóru ónumdu landi og höfum ekki eigið fé til nema lítils hluta þess, sem við þurfum að framkvæma, svo að við verðum að nota lánsfé í stórum stíl, eða láta framfarirnar bíða og verða enn lengra aftur úr öðrum þjóðum en við erum jafnvel nú.

Mér datt í hug við ræðu hæstv. dómsmrh., að eins og einn stjórnmálaflokkur hér á landi áleit það rétt að skipta um nafn fyrir nokkru, kalla sig Sjálfstæðisflokk í stað Íhaldsflokks, eins væri nú rétt fyrir stjórnmálaflokk hæstv. ráðh. að taka upp nýtt nafn, réttnefni, og kalla sig Íhaldsflokk í stað Framsóknarflokks.