16.03.1931
Efri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í C-deild Alþingistíðinda. (1767)

137. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég þarf aðeins að svara tveim litlum atriðum. — Fúkyrðum hv. 1. landsk., sem var í mjög æstu skapi, sé ég enga ástæðu til að svara. En ég vil aðeins benda á það, að hv. þm. viðhafði harðari orð um einn æðsta dómstólinn hér á landi, landsdóminn, en áður hafa heyrzt hér á þingi. Það var líka réttilega tekið fram í fyrir honum af einum hv. þm. og hann áminntur fyrir ógætilegt orðbragð. Þetta ætti að kenna hv. 1. landsk. að haga orðum sínum varlegar framvegis en í þetta skipti.

Hv. 1. landsk. lézt vera mér þakklátur fyrir að hafa minnst á afskipti hans af vátryggingu Reykjavíkur. Ég veit nú ekki, hvort hann hefir verið það í raun og veru, þótt hann léti svo. Hv. þm. játaði algerlega fásinnu sína í því máli. Og satt að segja vissi ég ekki áður, að fákænska hv. þm. væri á svona háu stigi, eins og hann lýsti sjálfur. Hann hefir, að eigin sögn, gert sig sekan um það, að blanda saman fjárhag ríkis og einstakra félaga. Það er einhver sú dæmalausasta glónska, að blanda saman fjárhag ríkis og einstakra fyrirtækja í landinu. Þó tók hitt út yfir, er hann hélt, að beðið hefði verið eftir sér með samþykkt Dawes-plansins. Sannleikurinn var sá, að enginn tók tillit til hans, hvorki utan lands né innan. Hv. 1. landsk. stóð í sérstöku sambandi við dönsk vátryggingarfélög, og mun það hafa valdið afstöðu hans til málsins. En bæjarstjórnin leit á framkomu hans eins og sérstakan fábjánahátt og hafði tillögur hans að engu og græddi á því 60 þús. kr. árlega.