11.04.1931
Efri deild: 44. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í C-deild Alþingistíðinda. (1776)

137. mál, fimmtardómur

1776Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon):

Ég skildi frumræðu hv. frsm. meiri hl. þannig, að sú breyting frá núv. skipulagi, er hann lagði mest upp úr, væri hin opinbera atkvgr. Það var því ekki af neinni löngun til að hártoga orð hans, að ég gat þess, að n. hefði getað haldið áfram samstarfi, ef þetta væri höfuðatriði. Annars get ég ekki kannast við, að meiri hl. hafi gefið í skyn, að samkomulag gæti orðið um vissar breyt. á frv. Á þeim 2 sameiginlegu fundum, sem haldnir voru um þetta mál í n., skildi ég hv. samnefndarmenn mína þannig, að þeir vildu engu breyt. á frv. gera, þó þeir síðar kæmust að þeirri niðurstöðu, að „siglinganámsskeiðið“ væri ekki allskostar tímabært. Um það atriði vil ég eigi þrátta meira við hv. frsm. meiri hl. Ég vil aðeins benda honum á, að jafnvel þó samskonar náms væri krafizt af dómurum eins og þeim mönnum, sem ætla að gera siglingar að æfistarfi sínu, þá mundi þá vanta æfinguna, leiknina í að beita kunnáttunni, sem vissulega er eigi minna verð en hin bóklega kunnátta.

Ég skal þá fyrst víkja að dómaraprófinu. Mér þykir undarlegt, með jafngreindan mann og hv. frsm., ef hann í raun og veru á svo erfitt með að skilja það, sem ég held fram um þetta atriði, sem hann vill vera láta. Honum fannst mótsögn í því hjá mér, að ég vildi halda fast við dómaraprófið, en teldi þó, að sjaldan mundi koma fyrir, að dómaræfni féllu á prófi, og kannaðist auk þess við, að dómaraprófið væri eigi einhlítt til að fyrirbyggja, að óheppilegir menn kæmist í réttinn. Ég skal nú reyna að skýra þetta nánar.

Við getum verið sammála um það, að skilyrðin fyrir því, að menn geti orðið góðir dómarar, eru í fyrsta lagi, að þeir hafi góða dómgreind; ennfremur að þeir hafi þekkingu til að bera, og í síðasta en ekki sízta lagi, að þeir séu mannkostum búnir. Dómaraprófið á að fyrirbyggja það, að þeir menn, sem ekki uppfylla tvö fyrstu skilyrðin, geti orðið dómarar, því það er ekki líklegt, að maður, sem ekki hefir hæfileika eða þekkingu, geti staðizt þá prófraun, og ráðh., sem veit, að dómaraefnin verða að ganga undir þessa raun, hlýtur að líta á það, að senda aðeins þann, sem hann treystir til að standast raunina. Það væri gagnslaust fyrir ráðh. að senda til prófsins mann, sem skorti þessi skilyrði, þó hann annars hefði freistingu til að veita honum embættið. Dómaraprófið er hinsvegar útilokun þess, að miður heppilegir menn komizt í þetta sæti, því það nær aðeins til hæfileika og kunnáttu, en getur ekki skorið úr um, hvort maðurinn hafi mannkosti til að bera, því ekki er hægt að leggja próf á mannkosti. Þá hlið málsins verður því að fela framkvæmdavaldinu og misnotkun í þeim efnum verður eigi fyrirbyggð, fremur en á öðrum sviðum framkvæmdavaldsins.

Annars er það einkennilegt, að það er eins og komið sé við hjartað í meirihl.mönnum, þegar talað er um hættu á misnotkun við veitingu dómaraembætta. Það er eins og þeim finnist nærri sér höggið, eða einhver þeim nákominn hafður í huga í því sambandi. Ég hefi ekki gefið neitt slíkt í skyn. Það eru aðeins þeirra eigin hugrenningar, sem leiða þá að ákveðnum persónum. Ég vil aðeins benda þeim hv. mönnum, sem mest eru á móti prófinu, á það, að fyrir hverja stj. getur verið mikil freisting að velja ekki endilega þann manninn, sem hún álítur hæfastan, t. d. að hún vilji losna við flokksbróður út úr pólitíkinni, — sem alltaf getur komið fyrir; hann gæti verið sæmi legur maður, þótt hann væri ekki sá hæfasti. En að þetta komi fyrir, á að fyrirbyggja eftir því sem mögulegt er.

Úr því farið er að tala um þetta atriði, vil ég minnast á það, sem dómsmrh. sagði um það, þó það sé hin mesta fjarstæða. Hann komst svo að orði, að í öðrum löndum væru afturhaldssamir hæstaréttardómarar þeir einu menn, sem ekki skildu þörfina á þessum breytingum um afnám dómaraprófsins. Ég undrast það, ef dómsmrh. skilur ekki, að í þessu sambandi er það hann, sem er sá afturhaldssami. Hann vill draga þetta í það sama horf og það var í fyrir löngu síðan, og reyna að draga dómsvaldið aftur undir framkvæmdavaldið; hann vill gera dómsvaldið pólitískt.

Það er bent á það í áliti hæstaréttardómara, sem prentað er í þingtíðindunum 1930, þskj. 374, að í nýlegum hæstaréttarlögum sé alstaðar tekið upp dómarapróf utan einræðislandanna, því það er lífsskilyrði fyrir einvaldsherrana að geta haft ítök í dómsvaldinu. Að tala um sjálfsköpun réttarins í þessu sambandi, er aðeins firra. Reynslan hefir alstaðar sýnt, að það er hrein undantekning, að dómaræfni falli á prófi, og hefi ég sýnt fram á, hvernig í því liggur. Það er erfitt að rökræða þetta við dómsmrh., því hann gengur út frá því, að dómarar eigi að vera rangsleitnir.

Ég tók eftir því, að hann sagði í ræðu í fyrra, að ef allir hæstaréttardómarar væru adventistar, myndu þeir ekki hleypa öðrum inn í réttinn en þeim, sem líka væru adventistar. En ef allir ráðh. hugsa svona, hvar stöndum við þá? Það má þá ganga út frá því, að ráðh. setji í réttinn aðeins sína þægustu vikapilta, sem hann getur ráðið við. Öll ummæli dómsmrh. um það, að verið sé að slíta réttinn úr lífrænu sambandi, eru út í hött og fjarstæða, sem á upptök sín í hans eigin heila. Ætla ég svo ekki að ræða frekar um dómaraprófið að sinni.

Hæstv. dómsmrh. og hv. frsm. meiri hl. minntust báðir á launaspursmálið, en þó hvor á sinn veg. Hv. frsm. sagði, að ég hefði dróttað því að sér, að hann væri á móti hækkun launanna, af þeirri ástæðu, sem tilgreind er í grg. Þetta er ekki rétt hjá honum, enda væri það alveg ástæðulaust hjá mér, þar sem grg. er samin af öðrum, og ég veit, að hann er allt of vandaður og skynsamur maður til þess að hugsa á þann veg. En ég varð að benda á þetta, þar sem þessi röksemdafærsla er tekin upp í grg. og þar framsett af manni, sem kemur málinu inn í þing.

Hæstv. dómsmrh. gerði enga tilraun til að hnekkja því, sem ég sagði um þetta atriði. Hann sagði, að lágum hugsunarhætti hæfðu lág laun. Það má vel vera, að þetta væri góð regla, hve heppileg sem hún væri fyrir ráðh. sjálfan.

Hv. frsm. sagði, að engir starfsmenn hins opinbera hefðu hærri laun en hæstaréttardómarar. En þetta er misskilningur. Hv. frsm. nefndi sjálfur bankastjóra, er allir eru beint eða óbeint starfsmenn hins opinbera. Nú eru nýstofnaðar stöður við Landsspítalann og eru launin þar 15 þús. kr., en auk þess geta læknarnir haft allmiklar aukatekjur, svo að þeir hafa a. m. k. helmingi hærri laun en dómarar hæstaréttar. Svo eru og ekki fáir embættismenn, sem með aukatekjum komast upp úr þessu. Ég vil náttúrlega ekki halda því fram, að það eigi að launa dómara hæstaréttar betur en alla aðra. En launin verða að vera svo góð, að þessar stöður séu frekar eftirsóknarverðar en hitt. Og menn, sem búa yfir hæfileikum, sem dómarar hæstaréttar þurfa að hafa, eiga auðvelt með að útvega sér stöður með hærri tekjum, þó þeim kunni að fylgja meiri störf. En með þeirri útgjaldabyrði, sem ríkissjóður hefir, þá er þessi upphæð sem krækiber í ámu. Þetta ætti ekki að skipta svo miklu máli, þegar um er að ræða réttaröryggið í landinu.

Ég skal vera fáorður viðvíkjandi flokksfylginu, sem hv. frsm. meiri hl. minntist á í niðurlagi ræðu sinnar. Hann hélt því fram, að ég hefði enga ástæðu til að halda, að þeir sem fylgdu frv. óbreyttu, gerðu það af flokksfylgi. Það má sjálfsagt um það deila, hvort svo er. En fyrir mér stendur það svo, að sum af ákvæðum frv. séu svo augljós afturför frá því, sem nú er, að ég get ekki hugsað mér aðra ástæðu fyrir að menn fylgja því en flokksfylgi.

Þá eru örfá atriði í ræðu hv. dómsmrh., sem ég vildi víkja nokkrum orðum að. Hann sagði, að það væru áhrif frá frv. hans og „agitationinni“ í fyrra, sem væru þess valdandi, að ég væri orðinn fylgjandi opinberri atkvgr. í hæstarétti. Það lítur út fyrir, að hæstv. ráðh. sé illa að sér í þessu efni. Ég hygg þó, að hæstv. ráðh. viti, að í flestöllum löndum hafa staðið deilur um þetta atriði, þó að það hafi hvergi verið gert að því sáluhjálparatriði, sem hæstv. ráðh, vill gera það hér.

Þeir, sem með þessu ákvæði hafa verið, hafa sagt, að það sé svo mikill fróðleikur í því að sjá, hvernig dómarar, sem verða í minni hl., rökstyðji sitt álit, að það sé réttmætt, að menn fái að kynna sér það. hví að vitanlega kann það að koma fyrir, að dómari, sem er í minni hl., hafi meiri rök fyrir sínu máli. Menn eru ósammála um svo margt, því að enginn maður er fullkominn. En ég skal fræða hæstv. ráðh. á því, að það eru liðin 7 ár síðan félag málaflutningsmanna lét það álit sitt í ljós, að það teldi heppilegt að hafa opinbera atkvgr. í hæstarétti. Ég var þá þegar á þessari skoðun og hefi verið það síðan. En ég get þó engan veginn fallizt á, að þetta sé nokkurt höfuðatriði, þó að ég álíti það til hins betra. Það er því alger misskilningur hjá hæstv. dómsmrh., að hann eigi nokkurn þátt í því, hvernig ég hefi tekið í þetta mál núi. Enda hefi ég ekki hugmynd um, hvort flokksbræður mínir í þessari hv. d. eru mér sammála um þetta eða ekki.

Um nafnið á réttinum þýðir víst ekki að deila meira. Ég og hæstv. dómsmrh. höfum báðir sett fram rök okkar um það atriði. En spaugilegt finnst mér það, þegar hæstv. ráðh. segir, að réttlætistilfinning þjóðarinnar muni krefjast þess, að tekið verði upp gamalt heiti á dómstóli, sem var allt annars eðlis, og klína því á þennan dómstól. Nafnið verður aldrei annað en ambaga á þessum rétti.

Það er ekki svo mikið, sem skilur milli mín og hæstv. dómsmrh. hvað dómarafjölgun snertir. Hæstv. ráðh. játaði, að mín till. um það væri betri, en sagðist ekki geta gengið að henni af tveimur ástæðum. Var það þá fyrst og fremst vegna kostnaðar. Ég sýndi fram á það, að kostnaðarmunurinn er lítill, og ef sömu laun verða látin haldast, þá verður hann enginn. Það getur farið svo, að það verði dýrara með því fyrirkomulagi, sem frv. fer fram á.

Hin ástæðan var sú, að ekki væri völ á nógu mörgum hæfum dómurum. Þetta er ástæðulaus ótti hjá hæstv. ráðh., því að hér er sægur af upprennandi efnilegum lögfræðingum, sem væru mjög líklegir til þessa starfa, þegar þeim vex aldur og þroski.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að hæstv. ráðh. ætli að setja sig á móti brtt. minni við 4. lið. Það er nefnilega ekki rétt hjá honum, að greinin beri það með sér, að þetta sé veitingarskilyrðið. Upphaf gr. sýnir, að svo er ekki. Þar stendur: „Aðaldómarar í fimmtardómi skulu, auk almennra skilyrða, fullnægja eftirfarandi skilyrðum“. Og svo kemur í 4. lið: „Séu eigi yngri en þrítugir og eigi eldri en sextugir“. Eftir orðanna hljóðan er það svo, að dómari, sem orðinn er 60 ára, fullnægir ekki skilyrðinu til að sitja í dómi. Fjöldi manna, sem talað hafa við mig, skilur þetta svo, að dómari missi rétt til að sitja í dóminum, þegar hann er orðinn 60 ára. Auðvitað getur það ekki verið meiningin, því að það væri brot á stjórnarskránni.

Ég held það hafi verið í sambandi við dómarafjölgunina, sem hæstv. ráðh. gat þess, að reglan mundi vera sú, að dómarar vikju úr embætti 60 ára gamlir. Ég held, að hvergi í veröldinni sé sett svo lágt aldurshámark, og geri ég ekki ráð fyrir, að við höfum ástæðu til að ganga lengra í því efni en allir aðrir, enda hefi ég bent á, að flestir munu hvað hæfastir til þessa starfa einmitt nálægt 60 ára aldri.

Hæstv. ráðh. er farinn út úr deildinni, en það atriði, sem ég átti eftir, skiptir hann svo miklu, að ég sé mér ekki fært að tala um það nema hann sé við. Mun ég því ljúka máli mínu nú.