28.03.1931
Efri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í C-deild Alþingistíðinda. (1829)

274. mál, framfærslulög

Guðrún Lárusdóttir:

Ég finn mér skylt að taka til máls um þetta frv. — Hv. flm. hefir nú gert grein fyrir aðalatriðum þess, og hefi ég þar engu við að bæta. En mér finnst, að úr því að svo róttækar breytingar eru bornar fram á fátækralögunum, þá sé full ástæða til þess að taka ýmislegt fleira með í frv.

Ég get ekki varizt þeirri hugsun, að frv. þetta hefði ekki komið fram nú, frekar en á síðustu undanförnum þingum, hefði ég ekki orðið fyrri til að flytja frv. um breyt. á fátækralögunum, og í öðru lagi flytur þetta frv. þær róttæku breytingar, sem ég vék að í grg. fyrir mínu frv. Ég skal taka það fram, að ég gæti vel fallizt á þær, ef unnt væri jafnframt að tryggja það, að framfærslukostnaður aukist ekki að stórum mun, og ef nokkur líkindi væru til þess, að frv. næði samþykki þessa þings. En sé nú svo, sem mig grunar, að jafnvel hv. flm. sjálfir hafi litla eða enga trú á því, að frv. þetta nái samþykki þessa þings, þá vona ég, að þeir stuðli að því, að frv. það, sem ég þegar hefi flutt, nái fram að ganga, svo að olnbogabörn þjóðfélagsins geti notið góðs af því, unz aðrar stærri og fullkomnari bætur fast á fátækralögunum. mér finnst það alveg ástæðulaust að óttast það, sem hv. flm. sagði, er frv. mitt var til umr., að frv. mitt myndi tefja fyrir meiri réttarbótum í þessum efnum. Leyfi ég mér að skjóta því til hv. þdm., hvort nokkur þeirra myndi vera ófúsari til að greiða atkv. sitt því frv., sem hér liggur fyrir, þó að áður væri úr lögum numinn nauðungarflutningur gamalmenna.

En áður en frv. fer til n. vil ég leyfa mér að benda á það, hv. n. til íhugunar, að úr því að farið er að gera svo róttækar breytingar á fátækralögunum, þá virðist mér sjálfsagt að bæta við ýmsum ákvæðum, sem myndu bæta lögin og aðstöðu þeirra manna, sem eiga að njóta þeirra.

Vil ég þá fyrst biðja hv. nefnd að athuga, hvort hún telur ekki réttmætt að taka upp í þessi lög ýms ákvæði um meðlög sveitarstjórna og framfærslu óskilgetinna barna. Þau ákvæði eru í lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna frá 1921. Væri og ekki úr vegi að endurskoða þau ákvæði um leið.

Vil ég leyfa mér í þessu sambandi að benda á 26. gr. laga nr. 46 frá 1921 og 19. gr. laga nr. 43 frá 1927. Sömuleiðis vil ég leiða athygli að 31. gr. laga nr. 46 frá 1921. Virðist mér, að sú grein eigi heima í fátækralögunum sjálfum.

Minna mætti og á það, að fyrir seinasta Alþingi lágu tvö frv., sem fjölluðu um þessi mál, borin fram að tilhlutun mæðrastyrksnefndar. Mér hefði því fundizt það æskilegt og eðlilegt, að hv. flm. hefði tekið tillit til þeirra við samningu frv. síns. Hefði það áreiðanlega verið vel þegið af mæðrastyrksnefnd, sem hefir um nokkurt skeið leitazt við að afla sér kynna af högum einstæðra og fátækra mæðra, í því augnamiði að reyna að bæta kjör þeirra, enda gengu frv. í þá átt. Ég efast ekki um, að hv. þdm. viti, að þessi n. er hópur kvenna, sem hafa tekið þetta verk að sér ótilkvaddar og unnið ókeypis. Og mæðrastyrksnefndin hefir ekki aðeins mæðurnar í huga, heldur börnin engu síður, og vill hún því láta kveða skýrt á um það, að fátækrastjórn sé ekki heimilt að taka börn, sem gefið er með af sveitarfé, frá góðum heimilum, þar sem vel fer um þau, þótt lægra meðlag kynni að fást með þeim annarsstaðar. Mér finnst, að sú viðbót hefði farið mjög vel við 24. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir.

Þar sem talað er um í 26. gr. frv., að fátækrastjórn sé heimilt að taka börn frá foreldrum, þar sem heimilislífið geti talizt siðspillandi, virðist mér, að þá viðbót vanti, sem banni slíkum foreldrum að taka börn sín heim til sín aftur frá góðum heimilum án leyfis fátækrastjórnar. En það kemur oft fyrir, og gerir í rauninni síðari villuna verri en hina fyrri.

Í l. nr. 46 frá 1921 er svo fyrir mælt, að prestar og skólanefndir skuli hafa eftirlit með börnum framfærsluþurfa, en þetta frv. gerir ráð fyrir, að prestar og kennarar hafi þetta eftirlit með höndum. Býst ég við, að þar muni vera átt við barnakennara, þótt ekki sé það tekið fram.

Síðari málsgr. 28. gr. frv. tekur ekki nærri nógu djúpt í árinni að mínu áliti. í stað þess, að þar er sagt, að innansveitarmenn hafi rétt til að kæra yfir vanrækslu á meðferð barna, þá þyrfti það að vera lögboðin skylda sérhvers manns eða konu, sem veit um vítaverða meðferð á börnum eða framfærsluþurfa mönnum, að kæra það fyrir hlutaðeigandi valdsmanni, og láta varða sektum, ef út af væri brugðið. Veit ég, að hv. þdm. mun ekki ókunnugt, að oft er talað um slæma meðferð á börnum og þurfamönnum, en þegar á að fara að rannsaka slík mál, þá draga menn sig vanalega í hlé og vilja ekki bera vitni; en það ætti að skylda menn til að gera með lögum.

34. gr. frv. gerir að vísu ráð fyrir því, að ekkja, sem hefir skylduómaga, skuli losna alveg við sveitarskuld, sem hún hefir komizt í í hjónabandinu. En haldi ekkjan áfram að þiggja sveitarstyrk vegna ómegðar eða annara ástæðna, þá er ætlazt til þess eftir núgildandi lögum, að ef hún giftist öðru sinni, þá takist maður hennar á hendur að greiða sveitarskuldina.

Á þessu þyrfti að verða breyting. Það virðist vera ærinn léttir fyrir sveitarfélagið að losna við þá skylduómaga, sem því ber að framfæra, á þann hátt, að ekkjan giftist, og maður hennar tekur börnin að sér til forsjár og framfærslu allt til 16 ára aldurs, svo sem lög mæla fyrir. Virðist það því vera mjög óréttlátt að bæta gömlum skuldum honum á hendur að auki. (JBald: Þetta er að nokkru leyti tekið fram í 33. gr. frv.). Já, en aðeins að nokkru leyti.

Þá held ég það nauðsynlegt að bæta nýrri málsgr. við 46. gr. frv., til þess að koma í veg fyrir það, að sveitarstjórnir geti tekið sjúkling frá lækni, sem hefir hann undir hendi til lækninga og telur honum batavon. Það munu dæmi þess, að slíkt hafi verið gert, þvert ofan í vilja og sárustu löngun sjúklingsins og þvert á móti læknisráði, og hlotizt mjög illt af.

Þessi fáu dæmi vil ég benda þeirri hv. nefnd á, sem fær frv. þetta til meðferðar. Hefi ég þó talið fátt eitt af því, sem mætti vera frv. þessu til bóta og bæta myndi aðstöðu smælingjanna, ef frv. yrði að lögum.

Ég vil endurtaka þau ummæli mín, að ég er fús til að fylgja fram hinum fyllstu réttarbótum handa þeim, sem búa forsælumegin í lífinu. Ég læt það ekki aftra mér, þó að ég komist ekki alla leiðina í einu. Og þeim, sem er það einlægt alvöru- og hjartansmál að ráða bætur á kjörum bágstaddra manna, kemur ekki til hugar að amast við neinni viðleitni, sem gengur í þá átt. Mér kemur í hug arabíski málshátturinn: „Ef fjallið vill ekki koma til Múhameðs, þá verður Múhameð að fara til fjallsins“. Ef kringumstæður og atvik leyfa ekki, að tekin séu stór skref, þá verður að nota smærri. Aðalatriðið verður því jafnan það, að missa ekki sjónar á takmarkinu, — að stefna í rétta átt!