07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í C-deild Alþingistíðinda. (1887)

91. mál, sveitargjöld

Haraldur Guðmundsson:

Ég er þeirrar skoðunar, að þess sé vart að vænta, að betra fyrirkomulag fáist en það, sem nú er samkv. gildandi útsvarslögum, ef lögum um tekju- og eignarskatt verður þá jafnframt breytt og þau löguð í þá átt, sem gert er ráð fyrir í frv. mínu um tekju- og eignarskatt, sem nú liggur fyrir fjhn. Ég tel, að þar sem ríki og félög nota sömu skattstofna, sé langeðlilegast, að skatturinn sé á lagður og innheimtur í einu fyrir báða aðila og síðan skipt á milli þeirra, eins og gert er ráð fyrir í frv. mínu. En frv. það, sem hér liggur fyrir, er svo meingallað og, að ég hygg, vanhugsað, að ógerlegt er að samþ. það. Ég gerði dálítinn útreikning að gamni mínu, til þess að geta gefið hv. d. ofurlitla hugmynd um, hvað leiða myndi af samþykkt frv. í tveim tilfellum. Skal ég þá fyrst taka dæmi af manni eða félagi, sem á 500 þús. kr. eignir og hefir í tekjur 100 þús. kr., og er ég hv. flm. meira en sammála um það, að einmitt á slíka gjaldendur eigi að leggja mjög háa skatta bæði til ríkis og sveitar eða bæjarfélaga.

Hvað vill nú hv. flm. leggja á þennan gjaldanda?

Fyrst ber honum að greiða í ríkissjóð

tekju- og eignarskatt . . kr. 23100.00 því næst tvöfalda þessa

upphæð til sveitar eða

bæjar – 46200.00

Ennfremur til sömu sjóða

tekju- og eignargjald a.

m. k – 7800.00

og e. t. v. margfalt hærra,

og loks, ef þetta ekki

hrekkur, þá 50% viðauka

við tvær síðustu upphæð-

irnar – 27000.00

Eða samtals kr. 104100.00

— eitt hundrað og fjögur þúsund og eitt hundrað krónur í skatt af 100 þús. kr. tekjum. En það er 4100 krónum meira en allar tekjurnar.

Sem skattafrv. er því frv. þetta fjarstæða. Að ætla að taka meiri skatt af tekjunum en öllum tekjunum nemur, nær vitaskuld engri átt, og það alveg eins, þótt um háar tekjur sé að ræða. Þá er hitt miklu sjálfsagðara og eðlilegra, að breyta þjóðfélaginu í það horf, að engir geti haft aðstöðu til þess að afla sér slíkra tekna, t. d. með þjóðnýtingu allrar meiri háttar framleiðslu og með hreinu eignarnámi. — Annars skal ég ekki fara lengra út í þá sálma nú.

Þá ætla ég að taka annað dæmi. Maður, sem hefir 50 þús. kr. tekjur og 250 þús. kr. eignir, verður að greiða í skatt samkv. frv. alls 42000 kr. Látum það vera út af fyrir sig. Hann á 8 þús. eftir. En hvaða samræmi er í því, að láta mann með 50 þús. kr. tekjur fá að halda 8 þús. af þeim, þegar annar með 100 þús. kr. tekjur fær engum eyri að halda, en verður að greiða 4100 kr. meira í skatt en öllum tekjunum nemur? Ég skal ekki þreyta hv. þdm. á fleiri eða nákvæmari útreikningum.

Hvernig á því stendur, að hv. flm. ber fram slíkan vanskapnað, þori ég ekki að fullyrða neitt um. En mér er nær að halda, að hann hafi komið auga á þá staðreynd, að útsvör og eignar- og tekjuskattur nema samtals h. u. b. ferfaldri upphæð tekju- og eignarskatts, og hafi svo af því dregið þá fáránlegu ályktun, að bezta leiðin til þess að taka þessa upphæð í einu lagi væri sú, að ferfalda skattstigann, sem nú gildir. Ef svo er, þá var ekki við betra að búast. Hæsta þrep tekjuskattstigans er 26%. Sé það ferfaldað kemur út 104 kr. skattur af hverjum 100 kr., eins og í frv. Skal ég svo ekki segja fleira um þetta frv. að svo stöddu, en vil aðeins mælast til, að sú n., sem fær málið til meðferðar, athugi, hvort henni finnst eigi full ástæða til þess að nota þessa skattstofna meira en nú er gert og af meira viti en frv. gerir ráð fyrir, og ef svo er, hvort henni finnst ekki réttari sú leið, er ég benti á í frv. mínu um tekju- og eignarskatt.