09.03.1931
Neðri deild: 19. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í C-deild Alþingistíðinda. (1922)

94. mál, sauðfjármörk

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Hv. flm. dró mjög í efa, að hægt væri að leysa málið á þann hátt, sem ég lagði til. Ég skal því skýra till. mína nokkuð nánar. Í þessu máli eru tvö höfuðatriði. Annað er að fyrirbyggja sammerkingar. Ég býst nú við, að allir geti orðið sammála, hv. flm. líka um það, að auðvelt sé að fyrirbyggja þær með því að hafa markaeftirlitsmenn á sama hátt og ég lagði til. Þetta er svo einfalt sem mest getur verið. Aðeins þarf að gera ráð fyrir því, að ný mörk verði sett á sérstaka skrá, svo fljótlegra sé að átta sig á þeim. Þarf þá ekki annað en að bera nýju mörkin saman við töflurnar og strika út þar, sem sammerking eða námerking finnst.

Hitt höfuðatriðið er að útrýma sammerkingum, sem nú eru til. Hv. flm. vilja setja til þess markadóm fyrir allt land. Ég held, að þess þurfi ekki. Ég tel, að því megi ná á ódýrari og einfaldari hátt. Ég býst við, að skipta þyrfti landinu í 5–7 svæði, og væri þá markaskrá hvers héraðs prentuð 5.–7. hvert ár, eða fyrir allt landið á 5–7 árum. Ef markverðir hverrar sýslu verða látnir skipa þessa dómstóla, þá er haganlegast, að hver, sem kæra vill mark, sendi kæruna til markvarðar þeirrar sýslu, sem hann á heima í. Verður þá kæran tekin fyrir af markadómstól þeim, sem heimili kæranda heyrir til. Ef engin kæra kemur fram frá þeim, sem sammerking eða námerking eiga, þá er engin ástæða til fyrir markadóm að blanda sér í málið. Það er engin ástæða til þess, að saman komi fjöldi manna úr mörgum héruðum til markadóms, heldur dæmir hver markadómur þau mál, sem fyrir koma innan þess svæðis, sem þeir starfa á, og nærliggjandi samgönguhéraða.

Ég skal játa, að með þessu móti lagast ekki með sammerkingar á 1–2 árum. Til þess þarf sennilega 5–7 ár, og máske 14 ár eða lengri tíma. Það fer eftir því, hvort menn kæra, en slíkt verður að vera einkamál hvers einstaklings. Ef einhver kærir sammerking, þá er markadómur skyldur að sinna því. En sé ekki kært, þá verður vitanlega ógert að koma lögun á það mál.

Hvað kostnaðarhliðina snertir, þá get ég getið þess, og ég held, að ég skýri rétt frá því, að í Skagafjarðarsýslu er prentunarkostnaður kr. 1.00 fyrir gamalt mark, en kr. 1.50 fyrir nýtt mark. Mér þykir því áætlun n. skrítin og undarlega há. Ef 4–5 sýslur gerðu útboð um prentun á markaskrám sínum í einu, þá ætti að fást ódýrara tilboð heldur en við Skagfirðingar höfum fengið, sem verið höfum að bauka einir út af fyrir okkur.