13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í C-deild Alþingistíðinda. (1958)

117. mál, útsvör

Pétur Ottesen:

Ég vil leyfa mér að benda á það, að það er ekki rétt hjá hv. flm. þessa frv., að neitt ósamræmi sé á milli þess, þó að mönnum sé gert að skyldu að greiða útsvar að einhverju leyti þar, sem þeir hafa lóðarafnot, þó að sama gegni ekki um þá, sem eiga fasteignir. Þetta er í fullu samræmi við útsvarslögin. Segir svo í 8. gr. þeirra 1., 2. málsgr., b.-lið, að leggja megi útsvar á gjaldþegn á fleiri stöðum en einum, ef hann hefir leiguliðaafnot af landi, þótt ekki fylgi ábúð. Þar með talin laxveiði, ábúð á jörð eða jarðarhluta, lóðarafnot, ef þau gefa arð, enda má þá ekki leggja á hann að því leyti í heimilissveit hans.

Hér er eingöngu átt við lóðarafnot, sem menn hafa utan heimasveitar sinnar, en hinsvegar engin heimild gefin til þess að leggja útsvar á menn þar, sem þeir kunna að eiga lóðir, þó að þeir leigi þær öðrum. Hér er því um ekkert ósamræmi að ræða. Með þessu frv. er því stefnt inn á nýjar brautir um álagningu útsvara frá því, sem nú er í l. um þessi efni, þar sem frv. fer fram á, að maður, sem á jörð í einhverjum hreppi, en býr þar ekki, verði fyrir það útsvarsskyldur í þeim sama hreppi. Þó að frv. sé að vísu fyrst og fremst miðað við Reykjavík, má ekki gleyma því, að hliðstæður geta verið annarsstaðar á landinu, og vil ég því skora á þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að athuga gaumgæfilega, hverjar afleiðingar slíkar breyt. á útsvarslöggjöfinni sem þessi mundu hafa í för með sér. Hér er gengið í berhögg við núgildandi útsvarslöggjöf, sem stefnir að því marki, að útsvörin gangi að sem mestu leyti til heimasveitarinnar, því að það dregur vitanlega úr þeim tekjum, sem heimasveitirnar geta haft af útsvörum gjaldþegna sinna og eiga að hafa, ef þeir verða útsvarsskyldir á mörgum stöðum.