13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í C-deild Alþingistíðinda. (1960)

117. mál, útsvör

Pétur Ottesen:

Hv. flm. var að gefa það í skyn, að ég mundi vera andvígur þessu frv. vegna þess, að ég mundi eiga jarðarpart einhversstaðar í öðrum hreppum en heimilishrepp mínum. Þessu er nú alls ekki þannig farið, eins og ég hélt reyndar, að hv. flm. vissi, heldur vildi ég aðeins benda á það, að með frv. er verið að fara inn á nýjar brautir í útsvarslöggjöfinni. og tel ég, að þar þurfi að gæta fyllstu athugunar. Síngirnisástæður einstakra manna réðu engu um útsvarsl. frá 1926, heldur voru þau fyrst og fremst miðuð við það að tryggja að sem mestu leyti tekjur heimasveitanna af eignum og atvinnu þeirra, sem til þeirra teljast. Það má vel vera, að svo sé ástatt hér í Reykjavík, að þeir menn, sem eiga hér dýrar eignir, komi þeim á hendur utanbæjarmönnum, til þess að komast hjá því að greiða af þeim skatt. Hv. 3. þm. Reykv. er kunnari því en ég, enda skal ég ekki bera neinar brigður á, að þessa séu dæmi eins og hann hélt fram. En þá verður að athuga það, hvort heldur eigi að offra hagsmunum annara sveita fyrir Reykjavík, eða hvort ástæða sé til að setja sérákvæði fyrir Reykjavík í þessu efni. Þetta er það, sem verður að taka til athugunar í þessu sambandi, og vakti ekki annað fyrir mér en að vekja athygli á því.