13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í C-deild Alþingistíðinda. (1968)

117. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Þeir, sem leggja á móti þessu frv., tala um, að löggjöfin hafi áður gengið of langt í þá átt að skattleggja atvinnutekjur utansveitarmanna. Ég sé ekki, að þetta komi málinu við. Því að þótt játað sé, að of langt hafi verið gengið í þá átt, er ekki þar með sagt, að óréttmætt sé að leggja útsvar á fasteignir, því að það er töluvert annað. T. d. geta sveitarstjórnir alls ekki vitað með eins glöggri vissu um atvinnutekjur manna og tekjur þeirra af fasteignum. Auk þess er langtum eðlilegra, að á eign, sem er föst í sveitarfélagi, hvíli einhver gjöld til sveitarþarfa, heldur en á mönnum, sem koma um tíma og hafa þar atvinnu.

Í útkjálkasveitum og afdölum eru byggðir alltaf að dragast saman. Vel getur svo farið innan langs tíma, að sumir hreppar leggist í eyði. En þótt þetta kæmi fyrir, yrðu oft einhver útgjöld, sem á þeim hreppum hvíldu vegna þurfamanna, sem eiga þar framfærslurétt. Hverjir eiga þá að standa straum af því? Ef það yrði ekki ríkið, lendir það á þeim mönnum, sem þar eiga fasteignir, þótt í eyði séu.

Hv. þm. N.-Ísf. taldi hart að leggja útsvar á menn fyrir að flytja peninga inn í sveitarfélög. Það fer nú eftir því, hvernig þetta er gert. En hvað segja menn um það, þegar heil sveitarfélög kaupa jarðir í nágrannasveitum beinlínis með það fyrir augum að gera sína fátæklinga framfærsluskylda þar? Ekki er þetta að flytja inn peninga til þarflegra fyrirtækja. En ég veit þess áþreifanleg dæmi, að þetta hefir átt sér stað. Og þá finnst mér ekki ranglátt, þótt slíkar fasteignir séu skattlagðar til handa því sveitarfélagi, sem þær liggja í.