14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í C-deild Alþingistíðinda. (1985)

121. mál, nýjar veiðiaðferðir og veiðarfæri

Jón Ólafsson:

Enda þótt óþarfi sé að hafa langar umr. um þetta litla frv., þá er samt ekki rétt að þegja við því með öllu, þó það sé, eins og ég sagði, lítið og í alla staði ómerkilegt. En úr því getur orðið talsverð fjáreyðsla, því aldrei vantar krákur og hrafna til að fljúga þangað, sem ætisvon er. Eflaust þurfa einhverjir að sigla, og þá væri tækifæri fyrir þá að fá þarna aura til þess o. s. frv. Mér finnst, að þar sem stofnun er til, svo sem Fiskifélag Íslands, þá sé einsýnt að vísa málum sem þessu til aðgerða þess. Enda hefir oft um slíkt verið talað á fiskiþinginu og því verið vísað til aðgerða stjórnar félagsins að athuga, hver veiðarfæri gætu að haldi komið hér. Hún hefir svo aflað sér upplýsinga um þetta, og afleiðingin er sú, að öll þau veiðarfæri hafa verið upp tekin, sem álitið er, að geti komið hér að gagni. — Á næstsíðasta fiskiþingi lá meira að segja fyrir till. um það, að styrkt væri tilraun með þorsknetaveiðar. Svo langt getur framkvæmdarleysið og ómennskuhátturinn gengið, að menn vilja ekki leggja þorskanet án þess að fá styrk til þess. Það eru svo sem nógu mörg fordæmin fyrir því, að menn hafi viljað fá styrk til að gera tilraunir með eitt og annað. En slíkt hefir sjaldnast komið að nokkru liði. Það er oftast, að þeir, sem beðið hafa um og fengið slíka styrki, hafa ekkert gert og ekki ætlað sér neitt að gera.

Mér finnst nú óþarfi að vera að hafa svo mikið við þetta frv., að því sé vísað til n. En sé það gert, þá er sjálfsagt, að það fari til fjhn.