23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í C-deild Alþingistíðinda. (2011)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi nú engar sakir af mér að bera. Hv. þm. Vestm. hafði ekki heyrt nema nokkurn hluta af því, sem ég sagði, þegar hann skauzt eins og rotta út úr deildinni undan því, sem ég sagði.

Hv. þm. minntist á, að miklar líkur væru fyrir því, að fólk hér missti mikla atvinnu, ef fiskurinn væri ekki verkaður heima. af því við minntumst á nýjan þorsk sem útflutningsvöru. Ég geri ekki ráð fyrir, að útflutningur nýs fiskjar yrði svo mikill, að ekki yrði nægilegt eftir til að verka hér heima sem markaðurinn krefðist. En hver er þá umhyggja þeirra, sem útgerðina hafa í höndum sér, fyrir verkafólkinu, þegar um er að ræða útflutning á óverkuðum saltfiski? Árið 1928 var flutt út 28689000 kg. af óverkuðum fiski. Á sama tíma var verkaður saltfiskur seldur fyrir 38 millj. kr. Ekki voru þetta tillögur okkar jafnaðarmanna um að flytja saltfiskinn út óverkaðan. Verkafólkið hefir lítið grætt á vinnulaununum fyrir þann fisk. Hv. þm. segir, að við séum að taka vinnuna frá verkafólkinu með þessu. En hver segir hann að hafi tekið frá því vinnuna í þessu tilfelli, er ég nú nefndi?

Ég geri ekki ráð fyrir, að svo mikið verði flutt út af þorski, að þess gæti mikið í atvinnunni hér. Óverkaður þorskur er oft óútgengilegri vara en annar fiskur, sem fluttur er á erlendan markað nýr, t. d. ýsa, koli, lúða o. s. frv., en undir sumum kringumstæðum má fá sæmilega mikið fyrir hann. Árið 1928 var af togaraaflanum fluttur út óverkaður fiskur fyrir 3 millj. kr., og meiri hlutinn af því þorskur. Ekki hefir verkafólkið fengið mikið fyrir að verka hann, og hefir ekkert verið um það fengizt.