16.03.1931
Neðri deild: 25. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í C-deild Alþingistíðinda. (2024)

129. mál, slysatryggingalög

Flm. (Halldór Stefánsson):

Í raun og veru er varla þörf að hafa neinn almennan inngang að umr. um þetta mál. Frv. er eiginlega lítið annað en lagfæringar og skýringar við lög um slysatryggingar frá 7. maí 1928, flutt til þess að kveða nánar á um tryggingarskyldu í nokkrum tilfellum, sem vafi hefir leikið á. Það hefir t. d. verið vafamál, hvort menn, sem annast flutninga með smáskipum hafna á milli, væru tryggingarskyldir eins og sjómenn, er stunda fiskveiðar á samskonar skipum. Þörfin á tryggingu er bersýnilega hin sama fyrir hvoratveggja og ákvæðin í frv. laga þetta.

Þá er annað atriði um menn, sem stjórna aflvélum, er draga jarðyrkjuverkfæri. Það er álitamál, hvort þeir eru tryggingarskyldir eftir lögunum eða ekki. Veltur á því, hvort aflvélarnar geta talizt bifreiðar eða ekki, en bifreiðarstjórar eru tryggingarskyldir. Frv. leggur til að taka af allan vafa á því, að menn, er stjórna aflvélum, skuli vera það einnig.

Að öðru leyti skal ég ekki fara út í einstök atriði frv., nema tilefni verði gefin, en er fús til að skýra frv. fyrir væntanlegri n., ef þess verður óskað. — Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til allshn.