05.03.1931
Efri deild: 16. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Halldór Steinsson:

Það er fjarri því, að ég vilji leggjast á móti frv. þessu eða ætli að greiða atkv. gegn því. En ég get þó ekki stillt mig um að minnast á það mikla ósamræmi, sem er á milli þess styrks, sem prestum er ætlaður með frv. þessu, og utanfararstyrks annara embættismanna. Sá styrkur, sem læknum er ætlaður í fjárl., eru einar 3000 kr. árlega og honum skipt milli tveggja lækna, eða kr. 1500 til hvors. nú sjá allir, að frv. þetta gengur miklu lengra. Eftir því eiga 5 prestar árlega að fá 2000 kr. hver, eða 10 þús. kr. alls. (JónJ: 2–5 prestar árlega). Ég tel brtt n. þýðingarlausa. Það sækir allt í sama horf, þótt þetta sé ekki ákveðið nánar. Reynslan verður sú, bæði eftir frv. og brtt. n., að það verða alltaf 5 prestar, sem styrkinn fá ár hvert, hvorki fleiri eða færri. Réttast væri því að tiltaka eina ákveðna tölu.

Ef utanfararstyrkur til presta ætti að vera í samræmi við það, sem læknarnir fá, þá ætti upphæðin að vera 4500 kr. og skiptast milli þriggja presta árlega. Ég vona, að allir hv. þm. viðurkenni, að ekki muni vera minni þörf á, að læknarnir kynni sér framfarir og nýungar í læknisfræðinni heldur en prestarnir nýungar guðfræðinnar. Mér finnst því kenna nokkuð mikils ósamræmis og misréttis í þessum till., borið saman við þann styrk til utanfara, sem áður hefir verið veittur.