14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (257)

111. mál, opinber vinna

Hákon Kristófersson:

Það leit út fyrir, að þessi fáu orð, sem ég sagði áðan, hefðu komið eitthvað óþægilega við hv. þm. Ísaf. Svo mikill hiti hljóp í hann í svarræðu hans til mín. Annars þykir mér sem það sitji sízt á hv. þm. Ísaf. að tala um það, að aðrir séu kátbroslegir, því að hvað er kátbroslegra heldur en það, þegar þessi hv. þm. er að tala um, að hann sé ekki stuðningsmaður stj.? Um það má þó með sanni segja: Verkin tala. Er fjarri því, að ég sé með þessu að lá hv. þm., þó að hann sé stuðningsmaður stj., en hitt þykir mér kynlegt, að hann skuli ekki vilja játa þessa staðreynd, því að hv. þm. gerir sig einungis hlægilegan með því að vera að synja fyrir þetta. Hinsvegar vil ég ekki segja, að hv. þm. fái fé fyrir þennan stuðning sinn við stj.

Læt ég það felsast undir þeim orðum, sem ég sagði áðan: Verkin tala.

Hv. þm. sagði, að það væri mergur þessa máls, hvort ríkið ætti að gera betur eða verr við verkamenn sína heldur en einstakir atvinnurekendur. Út frá þessu vil ég leyfa mér að benda hv. þm. á það, að opinber vinna gefur yfirleitt sama sem ekkert af sér, samanborið við þá vinnu, sem unnin er á sjó og við sjó. Sjávarútvegurinn gefur svo mikið í aðra hönd, að landvinna yfirleitt þolir þar engan samanburð. Er af þeim ástæðum ókleift fyrir bændur og ríkissjóð að borga eins hátt kaup og atvinnurekendur yfirleitt.

Það var ómaklegt mjög, þegar hv. þm. Ísaf. var að bera mér það á brýn, að ég hefði verið að niðra verkamönnum. Er mér ekkert fjær skapi en það, því að það er sú stétt, sem ég er runninn úr. Efast ég og um það, að hv. þm. Ísaf. sé velviljaðri verkamönnum en ég. Ég held, að fagurgali hans sé sprottinn af því, að hann sjái sér leik á borði til að nota verkamenn til þess að lyfta sér til valda og metorða. Að ég hafi mælt á móti því, að kjör verkamanna væru bætt, er með öllu ósatt, ég hefi aðeins bent á, hver væri stefna þessa frv. ég er þess fullviss, að þess verður ekki langt að bíða, að við bændur verðum sóttir heim með sömu löggjöf, ef flm. þessa frv. koma til með að mega sín nokkurs hér á Alþingi.

Það situr illa á hv. þm. Ísaf. að bregða mér um flónshátt. Það ætti hv. þm. ekki að gera, því að flónshátturinn væri þá mestur í því, að ég hélt, að fyrir honum vekti gott eitt. ég skal svo lofa hv. þm. að búa við ánægjuna af vitsmunum sínum, bæði í þessu máli og öðrum. Skal ég svo ekki tala meira um þetta mál að sinni. Eins og ég hefi bent á, eru þau ákvæði í frv., að ég tel ekki rétt að samþ. það. Enda er óþarft að skipa með lagaákvæðum þeim hlutum, sem hér er um að ræða.