08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (331)

123. mál, dragnótaveiðar

Sigurður Eggerz [óyfirl.]:

Það má máske segja, að óþarfi sé að lengja þessar umr. mikið, af þeim ástæðum, að mér finnst anda móti þessu frv. í þá átt, sem ég hefi óskað. mér finnst andstaðan mögnuð, sem eðlilegt er, móti frv. Háttv. þm. Ísaf. var að tala um, að ummæli mín um kolann sýndu, hve mikill dýravinur ég væri, þar sem mér þætti hart að veitast að kolanum bæði fyrir utan og innan landhelgi. Ég verð að þakka hv. þm. fyrir þessi ummæli hans, því mér þykir auðvitað sómi að því að vera dýravinur. En ég hygg, að hv. þm. eigi erfitt með að andmæla því, að fiskveiðunum er illa farið, ef á að ráðast að kolanum bæði utan og innan landhelgi. Mér hefir dottið í hug í þessu sambandi, þegar ég hefi heyrt meðmælendur þessa frv. tala um að gera árásir á kolann, hvort viturlegt væri fyrir bónda, sem á lítinn bústofn, en hefir þó getað lifað af honum ár eftir ár, hvort það væri viturlegt fyrir hann að taka sig til einn vetur og slátra niður öllum bústofninum og lifa svo eins og kóngur, en eiga engan bústofn eftir. Alveg sama hugsunin liggur bak við umr. þessara manna, sem vilja tæma þessa gullkistu með því að bjóða þjóð, sem er 30 sinnum stærri en Ísland, til þess að veiða þar.

Hv. þm. Ísaf. vildi ekki gera mikið úr þeirri hættu, sem stafaði af því, að Danir veiddu hér í landhelgi, vildi ekki gera meira úr henni en að fyrir hverja krónu, sem Íslendingar græddu, fengju Danir 10 au. ég veit ekki, hvernig hv. þm. getur á nokkurn hátt synt fram á, að hlutföllin verði þessi. Þegar maður lítur á það, að annarsvegar stendur þjóð, sem er þekkt að því að vera dugleg og hefir nóg fé, og sem hefir synt sig að því að hafa áhuga fyrir fiskveiðum, með banka, sem hefir 25 millj., og lánar lán, sem eru langt fyrir neðan lán, sem lánuð eru í voru landi, þjóð, sem er þekkt fyrir dugnað sinn og er 30 sinnum stærri en ísl. þjóðin, og þegar þessi gullkista er opnuð fyrir henni, sem hefir svo þægilega aðstöðu, að halda þá, að hlutföllin á gróðanum verði 10 au. móti 1 kr. Er það mesta ráðleysi, þegar eftir er svo stuttur tími af sambandinu milli Dana og Íslendinga, að veita sambandsþjóðinni sérstakan rétt til veiða. ég er ekki aðeins hræddur við það, að þeir vilji ekki skipta þessari gullkistu með okkur, en er hræddur við það að lokka Dani þannig inn í gullnámuna með því að opna hana nú, og þá er ég hræddur við, að Danir fái svo mikinn áhuga á veiðum, að þeir vilji halda 6. gr. sambandslaganna sem mest óbreyttri. ég þarf ekki að minna á það, hvað allt verður að standa saman til þess að losna við þær kvaðir, sem hvíla á landinu. Er þetta í rauninni einkennilegt, eins og komið hafa fram á þinginu einróma yfirlýsingar að losna við kvaðir, sem í sambandsl. hvíla á landinu. Það er eins og sumir menn skoði þetta sem orðin tóm, yfirlýsingar, sem praktískt er að gera en ekki sem lifandi tilfinningu af því, hvað stórt og mikið mál þetta er. Ef slíkar kvaðir sem þessar yrðu lagðar á aðrar þjóðir, t. d. Þjóðverja eða Norðmenn, þá myndi verða þjóðarsorg í þeim löndum, en það er eins og okkur hætti til að gleyma þeim kvöðum, sem á okkur hvíla. Það eru til víðsýnir menn í Danmörku, sem segja, að bezt sé að losna sem fyrst við sambandsl. Það er komin gleðileg hreyfing í Danmörku um að losna við sambandsl. sem fyrst. Með því að bjóða Dönum inn í landhelgina er verið að beita hinu girnilegasta agni á öngulinn, og kæmi til þess, að þeir verði dregnir í landhelgina, er ýtt undir þá að nota rétt sinn, og þá mundi ég samstundis koma með till. um það að slíta sambandinu strax. ég lit ekki stórum augum á deilumál, sem eru hátt uppi með þjóðinni, og sem eru til að draga hana niður, en hún vill ekki deila um málið, sem er og verður stærsta mál þjóðarinnar. Það var verið að tala um Fiskifélagið í sambandi við þetta mál. Og er ég sammála hv. þm. N.-Þ. og þakklátur honum fyrir, að hann hefir ekki farið hrósandi orðum um framkomu Fiskifélagsins í þessu máli. Ég segi fyrir mitt leyti og vil taka undir það með hv. þm., að ég er ekki þakklátur formanni Fiskifélagsins fyrir það, að reyna að fá þjóðina til að opna landhelgina fyrir Dönum. Hann gerir allt, sem hann getur til þess, en þrátt fyrir alla þessa „agitation“ frá félaginu, þá er sem betur fer heilbrigð skynsemi manna svo mikil, að enginn vafi er á því, að þetta frv. verður háðulega fellt hér í d., og ég legg til, að það verði drepið frá 2. umr.