07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (342)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Ég sé ekki ástæðu til að véfengja það, að hv. flm. hafi séð eitthvert skjal þessa efnis. Hitt er ég vantrúaðri á, að undir þessu skjali hafi staðið nöfn 80 kjósenda í þessum hreppi. Ætli hér geti ekki verið um samskonar undirskriftir að ræða sem í fyrra, þegar verið var að gefa hæstv. dómsmrh. heilbrigðisvottorðið og börn voru látin flagga með nafni sínu fyrir heilbrigði ráðh., og það jafnvel löngu áður en þau voru skírð, ef aðeins var ákveðið, hvað þau ættu að heita.

Það er allt annað mál, þó að einhverjir menn á þessu svæði óski ef til vill eftir að gera samninga við Rvík um þetta mál, enda mun ég ekki setja mig á móti því. Er það sitt hvað, þó að menn geri samninga sin á milli af fúsum vilja, eða að löggjafarvaldið fari að neyða menn til slíkra hluta.