26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (444)

11. mál, þjóðabandalagið

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir ræðum þeirra hv. þm. Dal. og hv. þm. Ísaf., sem ég tel víst, að tali hver fyrir sinn flokk.

Það er ljóst af ræðu hv. þm. Dal., að bæði hann og flokkur hans vilja taka máli þessu með velvilja og láta rannsaka það sem bezt.

Út af spurningu hv. þm. Dal. viðvíkjandi aðstöðu Íslands í Þjóðabandalaginu sé ég ekki ástæðu til að tala frekar nú en í fyrri ræðu. Allir hv. þdm. munu vera sammála um það, hvaða aðstöðu Ísland eigi að hafa, er það gengur í bandalagið.

Þá spurði hv. þm., hvaðan Sveinn Björnsson sendiherra hefði haft umboð á Haag-fundinum. Ég veit ekki, hvernig slíkum efnum hefir verið farið áður en ég tók við völdum, en mér er ekki kunnugt, að Sveinn Björnsson hafi nokkurntíma útvegað sér umboð frá öðrum en íslenzku stjórninni, og alls ekki síðan ég tók við. Hvar sem íslenzkur sendiherra kemur fram, hlýtur hann að vera í umboði hinnar íslenzku þjóðar.

Hv. þm. Ísaf. tók till. líka með velvilja. Hann gat þess að vísu, að grg. með till. hefði ekki verið eins ítarleg og æskilegt væri. Það er álitamál frá mínu sjónarmiði, hvort eigi að hafa langa grg. með þessari till. Ég vil í þessu sambandi minnast á ritgerð dr. Björns Þórðarsonar, sem áður hefir verið minnzt á. Dr. Björn var sendur héðan samkv. boði frá Þjóðabandalaginu, til þess að kynnast starfsemi þess. Þessi ritgerð, sem er mjög fróðleg, eins og hv. þm. Dal. tók fram, er árangur af för hans. Mér fannst óþarfi að taka skýrslu hans upp í grg., þar sem allir geta lesið hana í „Andvara“. Ennfremur hefir einn af beztu lögfræðingum vorum, Einar Arnórsson prófessor, skrifað ítarlega um málið og haldið ræður um það í útvarpið. Ætti öllum hv. þm. því að vera málið nægilega kunnugt.

Vitanlega er sjálfsagt, að málið verði athugað betur í nefnd.

Hv. þm. Ísaf. þóttist finna það á ummælum í grg., að stj. hefði ekki mikinn áhuga á því, að Íslendingar tækju þátt í verkamálaráðstefnum bandalagsins. Í grg. er ekkert sagt, sem geti gefið átyllu til slíkra ummæla. Auðvitað hefir það minnst að segja, hvað núverandi stj. segir um þetta atriði, heldur verða það þeir, sem fara með völdin í framtíðinni, sem eiga að skera úr um þetta mál.

Verkalýðsmálin eru ein hin vandasömustu mál hverrar þjóðar, og er því ærin ástæða fyrir okkur að kynnast reynslu annara þjóða í þessum efnum. Og það er mín persónulega skoðun, að það sé hin mesta nauðsyn fyrir okkar land, að fulltrúar frá okkur kynnist slíkum málum og reynslu annara þjóða með því að vera á ráðstefnum Þjóðabandalagsins.